Algeng mistök í meðhöndlun bílstóla

Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum. Í langflestum tilvikum ...
Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum. Í langflestum tilvikum höfumvið útvegað þeim úrvalsbílsstóla en stundum klikkar fólk á einföldum smáatriðum. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hér á landi er frekar vel búið að yngstu börnunum í bílum þannig að slysum hefur fækkað verulega meðal þeirra. Helsta ástæða þess er tilkoma ISO-Fix sem er mun auðveldara í notkun og hefur dregið mikið úr ranglega festum búnaði. Meginástæðan er hins vegar sú að börn eru í bakvísandi sætum lengur en áður með tilkomu nýs búnaðar sem gerir þeim það kleift að vera bakvísandi upp í 25 kg.

Hlutfall eldri barna sem sitja með röngum hætti í bíl er hærra en hjá yngri börnunum. Það er of algengt að þau sitji eingöngu í bílbeltum og mörg eru í framsæti. Staðreyndin er sú að börn lægri en 150 cm eiga ekki lögum samkvæmt að sitja í framsæti bíla með virkum öryggispúða. Þrátt fyrir að hægt sé að slökkva á öryggispúðanum er öruggast fyrir börn yngri en 12 ára að vera í aftursæti bifreiðar. 

Dæmi um algeng mistök við notkun öryggisbúnaðar í bílnum:

 Búnaður er ranglega festur í bifreið, of laust og losnar við árekstur

Til athugunar: Áður en barnabílstóll er keyptur er mikilvægt að kanna á heimasíðu framleiðanda hvort tiltekinn stóll passi í þann bíl sem nota á hann í. Bílar eru ekki staðlaðir. Þetta á einnig við um stóla sem festir eru með ISO-Fix. 

Það er algengar að eldri börn sitji í bíl með ...
Það er algengar að eldri börn sitji í bíl með röngum hætti, svo sem án sætis eða í framsæti. Ljósmynd/Thinkstockphotos


 Búnaður hæfir ekki aldri, þyngd og þroska barnsins

Til athugunar: Ávallt skal nota öryggisbúnað sem hæfir þyngd barnsins ef hann er ECE R 44.4-viðurkenndur eða hæð ef hann er viðurkenndur samkvæmt I-Size-vottun. 

 Búnaður er of gamall og veitir ekki tilætlað öryggi

Til athugunar: Aldur er afstæður en það er ekkert að því að kaupa nýlegan notaðan stól. Það er hins vegar ekki í lagi að nota vel útlítandi 25 ára gamlan stól. Meira hér:

 Að hafa barn undir 36 kg í framsæti  vinnubíls í búnaði

Til athugunar: Ef flytja á barn undir 36 kg í framsæti vinnubíls sem er með óvirkum öryggispúða verður barnið að vera í bakvísandi stól. Annað er stórhættulegt. 

 Barn er á sessu án baks og sessan rennur undan því við árekstur

Til athugunar: Börn eiga ekki nota sessu án baks þrátt fyrir að nýrri búnaður sé með ISO-Fix-festingum. 

 Of lítið barn er á sessu án baks með efri hluta beltis (skábelti) aftur fyrir bak.

Til athugunar: Börn eiga til að smeygja skábeltinu aftur fyrir sig ef þeim finnst það heftandi, eða jafnvel „af því bara“. Börn sem hafa aldrei lent í árekstri eða börn sem hafa ekki fengið næga fræðslu um mikilvægi bílbelta við árekstur gætu smokrað sér úr beltinu einfaldlega af því þau átta sig ekki á mikilvægi þess. 

 Bílsætið hallast ekki rétt

Til athugunar: Sæti sem eiga að snúa aftur eru hönnuð með þeim hætti að þau hallist í 30-45 gráður. Það má nota upprúllað handklæði eða annað ef erfitt er að ná fram réttum halla.

Munið að toga vel í öryggisbeltið til að tryggja að ...
Munið að toga vel í öryggisbeltið til að tryggja að það sé vel læst saman. Ljósmynd/Thinkstockphotos

 Að lokum, athugið vel að:

  • Toga vel í öryggisbeltið til að tryggja að það sé vel læst saman.
  • Passa upp á að það sé ekki pláss á milli bílstóls og framsætis. Færið framsætið framar þar til fætur barnsins snerta það.
  • Passa að beltið í stólnum sé ekki of laust. Það á vera hægt að smeygja fingrum undir beltið hjá öxlum barnsins en ekkert meira en það.
mbl.is