Fyrsti vegan-leikskóli veraldar opnaður í Þýskalandi

Fulltrúi samtaka þýskra næringarfræðinga leggst ekki alfarið gegn því í ...
Fulltrúi samtaka þýskra næringarfræðinga leggst ekki alfarið gegn því í ráðleggingum samtakanna að börn fá eingöngu vegan fæði en ítrekar að það kallar á mikla þekkingu á fæðuvali. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fyrsti vegan-leikskóli veraldar var opnaður í Þýskalandi í ágúst. Veganfæði gengur skrefi lengra en almennt grænmetisfæði, þar sem fólk kýs að leggja sér ekki kjöt eða fisk til munns, en það þýðir að engar dýraafurðir eru leyfðar, þar með talið engar mjólkurvörur og egg. Ákvörðun þessi hefur vakið töluverðar deilur og umræður í Þýskalandi.

Börnin virði bæði eigið leiðarljós og annarra

Leikskólinn sem heitir Mokita er í Frankfurt og sinnir 40 börnum. Skólinn hefur sett sér mjög metnaðarfull markmið fyrir börnin, meðal annars að þau geti tekið tillit til ólíkra markmiða þegar hugað er að stefnumarkandi aðgerðum og þau hagi sér í samræmi við eigin leiðarljós og virði leiðarljós og markmið annarra. Þessi markmið kunna að bera keim af fullmiklum metnaði fyrir smábörn en þó er sú stefna skólans að börnin fái eingöngu veganfæði það sem hann hefur helst verið gagnrýndur fyrir.

Stefan von Wangenheim, borgarfulltrúi Frjálsra demókrata í Frankfurt, hefur sagt að sérfræðingur hafi sagt sér að slíkt mataræði jaðri við að vera líkamleg misnotkun á börnum. „Ef foreldrar myndu senda börn á leikskóla þar sem eingöngu væri skyndibiti á borðum væri slíkt fæði jafn einhæft fyrir börn og veganfæði,“ sagði von Wangenheim.

Meira að segja fulltrúi græningja var ekki sérlega hrifinn. „Ég fékk næstum hjartaáfall þegar ég frétti af þessu!“ sagði Birgit Ross.

Veganfæði fyrir börn krefst mikillar þekkingar

Margir næringarsérfræðingar eru efins. Fulltrúi samtaka þýskra næringarfræðinga (DGE) sagði í sambandi við The Local að þau réðu foreldrum ekki eindregið frá því að ala börn sín upp eingöngu á veganfæði en legðu áherslu á að það yrði ekki gert nema með góðri þekkingu á því og mögulega samhliða töku fæðubótarefna. Almennt væri slíkt fæði krefjandi fyrir þungaðar konur, konur með börn á brjósti og ung börn. Sérstaklega þyrfti að huga að B12-vítamíni ásamt öðrum næringarefnum.

Dómstóll í Berlín hefur úrskurðað að börn þurfi að koma ...
Dómstóll í Berlín hefur úrskurðað að börn þurfi að koma mér sérfæði að heiman, svo sem vegan-fæði eða Paleo ef foreldrar þeirra kjósa að þau borði eingöngu slíkt fæði. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Börnin verða undir reglubundnu eftirliti læknis

Borgaryfirvöld í Frankfurt hafa gefið grænt ljós á starfsemi vegan-leikskólans en munu halda honum undir ströngu eftirliti. Meðal annars munu börnin fara í reglulegt eftirlit hjá lækni og ef niðurstöður þess leiða til óviðunandi niðurstöðu sem rætur á að rekja til fæðunnar munu borgaryfirvöld leggja til breytingar.

Áður hafði dómstóll í Berlín úrskurðað að skólar væru ekki skyldugir til að gefa börnum veganfæði þó svo foreldrar krefðust þess og þess væri eingöngu neytt heima fyrir. Sama ætti við um svokallað paleo- eða steinaldarfæði eða aðrar sérþarfir. Ef börnin ættu að vera á sérfæði þyrftu þau að koma með það að heiman.

Heimild. The Local.

mbl.is