Hvað ætlar barnið þitt að æfa í vetur?

Hressir krakkar úr 3. og 4. bekk í Mýrarhúsaskóla á ...
Hressir krakkar úr 3. og 4. bekk í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnanesi. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Eitt af því besta við að vera barn er að fá að æfa skemmtilega íþrótt eftir skóla. Það er mismikið í boði eftir því hvar fólk býr á landinu; eðli málsins samkvæmt er mest í boði þar sem flestir búa, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, og minnst í boði þar sem fæstir búa.

Hér er yfirlit yfir nokkrar íþróttagreinar sem margar  fjölskyldur geta valið á milli í sameiningu, þ.e. börn og foreldrar saman þegar þau hafa ekki fundið íþrótt við hæfi eða eru að hugsa um að skipta um. Fjölskyldur geta farið yfir þennan lista saman.

Badminton

Ljósmynd/Aðsend

Í badminton er notaður badmintonspaði og fjaðrabolti, sem er stundum kallaður kúla eða fluga. Þetta er hröð og skemmtileg íþrótt sem hentar öllum aldri. Það er auðvelt að spila hana úti og notast frjálslega við reglurnar og geta þá flestir verið með, alla vega þeir sem standa í fæturna á annað borð.

Tennis

Ljósmynd/Aðsend

Tennis er hægt að spila bæði á útivöllum og innivöllum. Það þarf engan útbúnað nema tennisspaða og bolta en því miður eru tennisvellir ekki mjög víða á Íslandi. Það er þó hægt að æfa tennis hér á landi, kannski er tennisvöllur nálægt þér.

Frjálsar

Ljósmynd/Aðsend

Frjálsar íþróttir eru í raun margar íþróttagreinar. Í frjálsum er keppt í alls konar hlaupum, bæði löngum og stuttum, kastgreinum og alls konar stökkum. Ef barni finnst gaman að hlaupa, kasta hlutum eða stökkva eins langt og þú ætti það að íhuga að æfa frjálsar.

Golf

Ljósmynd/Aðsend

Golf er útiíþrótt sem útheimtir mikla þolinmæði og einbeitingu. Það þarf að æfa vel hvernig á að sveifla golfkylfunni og vanda sig við að pútta. Ef þú hefur áhuga á golfi geturðu líklega fundið golfvöll í nágrenninu, þeir eru víða. Það eru ef til vill ekki alls staðar skipulagðar æfingar fyrir börn og ungmenni en best er að hafa samband við umsjónarfólk vallanna og kanna málið.

Júdó

Ljósmynd/Aðsend

Júdó er japönsk bardagaíþrótt sem útheimtir mikinn styrk og aga. Fyrst þegar byrjað er í júdó fær iðkandi hvítt belti og svo getur hann fengið nýtt og nýtt belti í nokkrum litum alveg upp í svart belti.

Keila

Ljósmynd/Aðsend

Kannski hafa margir farið einhvern tímann í keilu með vinum eða fjölskyldu en ekki allir vita að það er líka hægt að æfa keilu. Það hentar mörgum vel að æfa keilu sem líkar ekki við hefðbundnar keppnisíþróttir.

Sund

Ljósmynd/Aðsend

Við eigum 165 sundlaugar á Íslandi og því er sund sú íþrótt sem flestir Íslendingar ættu að geta lagt stund á. Reyndar bjóða þær ekki allar upp á sundæfingar, en þó víða. Það er hægt að æfa bringusund, skriðsund, flugsund og baksund. Það er líka ágætis hreyfing að leika sér í lauginni með vinum sínum. 

Körfubolti

Ljósmynd/Aðsend

Í körfubolta gildir að vera snögg að hugsa því leikmenn hreyfa sig oft hratt á vellinum. Það er gaman að æfa sig í að verða betri í vörn eða sókn og leika sér að hitta í körfuna. Víða um landið er hægt að æfa körfubolta og körfurnar eru hafðar þannig að þær séu passlega háar miðað við aldur.

Handbolti

Ljósmynd/Aðsend

Í handbolta eins og öðrum hópíþróttum þarf að vanda sig í samskiptum við liðsfélaga og vera snjöll í að vinna saman, því þannig gengur best. Handboltalið eru úti um allt land þannig að það er mjög líklegt að hægt sé að æfa handbolta nálægt þér.

Fótbolti

Ljósmynd/Aðsend

Fótbolti er fjölbreyttari en hann sýnist því það eru svo mörg hlutverk sem þarf að sinna á vellinum. Það er hægt að æfa sig mikið í vörn, vera góð á miðjunni, leggja áherslu á kantinn, sóknina eða æfa mark. Flestir æfa allt í bland til að byrja með en svo kannski sérhæfa sig í eldri flokkum.

Blak

Ljósmynd/Aðsend


Blak er íþrótt sem reynir á úthald og snerpu. Það þarf að fylgjast vel með boltanum og reyna að negla honum í gólfið hjá hinu liðinu. Svo er líka farið í alls konar boltaleiki á æfingum í blaki.

Fimleikar

Ljósmynd/Aðsend

 

Fimleikar eru í raun margar íþróttagreinar því það er keppt á mörgum áhöldum. Hjá strákum eru sex áhöld og fjögur hjá stelpum. Svo er líka hægt að æfa hópfimleika og þá er maður í svona liði sem æfir gólfæfingar, trampólínstökk og stökk á dýnu.

Hjólreiðar

Ljósmynd/Aðsend

Nú eru komin mörg hjólreiðafélög sem eru með námskeið og æfingar fyrir krakka og unglinga sem vilja gera meira við hjólin sín en bara hjóla í skólann. Það er hægt að læra að hjóla niður tröppur og fara torfærur til dæmis. Svo er líka alveg í fínu lagi að nota hjólið sitt bara til að leika sér á.

mbl.is