Tæplega helmingur breskra barna kvíðir skóladeginum sökum eineltis

Ltjósmynd/Thinkstockphotos

Þó svo að mörgum börnum finnist skemmtilegt að snúa aftur í skólann er hlutfall þeirra barna sem kvíða fyrir afar hátt í Bretlandi. Samkvæmt nýrri breskri rannsókn óttast allt að 50% skólabarna að snúa aftur í skólann af ótta við einelti og stríðni.

Vakna snemma morgnana á ný, frelsi og kæruleysi sumarsins fyrir bí, heimavinnan og fleira. Þetta er ekki alltaf gleðiefni. Skólinn ætti að vera griðastaður sem börn hlakka til að snúa til eftir sumarfrí en of hátt hlutfall barna og ungmenna í Bretlandi kvíðir fyrir að fara í skólann á ný vegna eineltis.

Stofnun lafði Díönu, sem berst fyrir ýmsum velgjörðarmálum fyrir börn, birti nýlega tölur sem vekja ugg og sýna hversu mikill áhrif einelti hefur á daglegt líf breskra barna. 46% þeirra barna sem tóku þátt í rannsókninni sögðust vera hrædd við að byrja aftur í skólanum vegna eineltis en yfir 1.000 bresk börn tóku þátt í könnuninni.

Ltjósmynd/Thinkstockphotos


Börn sem upplifa einelti töldu sig standa verr að vígi i skólanum og fá lakari einkunnir vegna þess álags sem þau upplifa af eineltinu. Þar sem eineltið litar reynslu þeirra af skólastarfinu getur það líka leitt til skróps. 39% barna sögðu að einelti hefði áhrif á einkunnir þeirra og sama hlutfall sagði að einelti hefði áhrif á mætingu.

Mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart einkennum eineltis

Samkvæmt rannsókninni eiga mörg börn erfitt með að opna sig gagnvart kennurum, leiðbeinendum og jafnvel foreldrum ef þau lenda í einelti. Þess vegna er mikilvægt fyrir alla aðstandendur barna að vera á varðbergi gagnvart ýmsum einkennum eineltis. Slík eftirtekt og aðstoð við barnið á fyrstu stigum eineltis getur skipt sköpum.
Breski eineltissérfræðingurinn Jennifer Ryan hefur bent á nokkur atriði sem foreldrar skyldu vera vakandi gagnvart. Algengustu einkennin eru veikindi strax á sunnudegi eins og höfuðverkur eða magapína. „Þau geta verið að búa einkennin til en það er jafn líklegt að þau séu ekki að því og líkaminn bregðist svona við kvíðanum og hræðslunni sem þau standa gagnvart í skólanum.“

Önnur dæmigerð einkenni eru:

1. Feimni eða draga sig óvenju mikið í hlé 

2. Kvíði

3. Árásargirni

4. Breytingar á svefnmynstri og fæðuvenjum

5. Barnið gæti byrjað að leggja yngra systkini í einelti eða sýna því óviðunandi framkomu eða jafnvel taka reiði sína út á gæludýri heimilisins

6. Sjálfskaði

7. Vilja ekki fara í skólann

8. Lægri einkunnir

Heimild: Mummypages.ie

mbl.is