Einhverfur drengur fór heim með magnað bréf úr skólanum

Ben Twist hefur marga hæfileika, er vinsæll og greindur, en ...
Ben Twist hefur marga hæfileika, er vinsæll og greindur, en fellur ekki alltaf að hefðbundnum námsviðmiðum. Kennarinn hans kann einmitt að meta aðra hæfileika Bens og sendi fjölskyldunni hans bréf eftir að hann féll í samræmdu prófi. Ljósmynd/skjáskot

Það er engu minna gefandi að ala upp barn með námsörðugleika en barn sem flýgur áfram í náminu í samræmi við kröfur skólans. Hins vegar er það yfirleitt mun meira krefjandi.

Foreldrar barna sem eiga í litlum vandræðum með námið kvarta eflaust stundum undan leti, agaleysi eða sambærilegum hlutum hjá börnunum sínum en foreldrar til dæmis einhverfra barna horfa til annarra þátta sem oftast er erfiðara að eiga við.

Það sem eykur stundum á álag barna með námsörðugleika og foreldra þeirra er álagið sem þau stundum upplifa í skólanum þar sem allt virðist ganga út á að fá góðar einkunnir.

Ben Twist er 11 ára breskur drengur með einhverfu sem býr í Merseyside-sýslu á Norður-Englandi, en móðir hans fékk bréf í hendurnar eftir að hann féll á samræmdu prófi í skólanum. Þegar Gail fékk bréfið átti hún von á að fá tilkynningu um að hann yrði að leggja sig betur fram og standa sig betur en í bréfinu stóð ekkert slíkt.

Kennararnir í skólanum, sem heitir Lansbury Bridge School and Sports College í Merseyside, gáfu honum almennt frábæra umsögn og ýttu þannig mjög undir sjálfstraust hans. Þrátt fyrir að hafa fallið á prófinu var kennarinn, Ruth Clarkson, sannfærð um að hann þyrfti stuðning en ekki dómhörku frá skólanum.

Bréfið  hljóðar svo:

„Kæri Ben.

Ég skrifa þetta bréf til að hrósa þér fyrir viðhorf þitt gagnvart samræmda prófinu og að þú skulir hafa klárað það.

Gil, Lynrn, Angela, Steph og Anne hafa unnið mjög vel með þér og þú hefur tekið stórkostlegum framförum. Ég er búin að senda bæði þér og foreldrum þínum niðurstöðuna úr prófinu. Það sem mér finnst mikilvægt að þú skiljir er að þessi próf mæla bara örlítinn hluta af getu þinni og hæfileikum. Prófin eru alveg mikilvæg og þú hefur staðið þig vel en Ben Twist er ungur maður með alls kyns hæfileika og getu sem við hér í Lansbury Bridge sjáum og mælum með öðrum hætti en með prófum.

Clarkson útskýrði betur þá hluti sem Ben stóð sig vel í, sem skólinn gæti ekki mælt. „Þú hefur frábæra listræna hæfileika, bæði í myndlist og tónlist, og átt gott með að vinna í hópum með vinum þínum í skólanum. Þú ert alltaf að verða sjálfstæðari í vinnubrögðum og kannt að meta þinn eigin árangur, bæði þegar vel gengur og líka þegar þér gengur ekki nógu vel. Svo ertu vingjarnlegur og góður strákur. Þú ert alltaf að verða betri í að tjá þína skoðun á hlutunum, auka færni þína í íþróttum og svo ertu vinsæll hérna á meðal nemenda.

Við erum svo ánægð að allir þessir hæfileikar og þessi geta þín geri þig að þeim einstaka dreng sem þú ert. Þetta eru allt hlutir sem við sjáum og mælum með okkar hætti. Þess vegna sjáum við að þú ert alltaf að bæta þig og ert óðum að breytast úr litlum strák í indælan, flottan og kláran ungan mann.

Vel gert, Ben, við erum mjög stolt af þér.

Bestu kveðjur,

Frk. Clarkson.“

 Bréfið frá Ruth Clarkson

 
Ben fékk persónuleikaverðlaun í skólanum sínum og fyrir að vera framúrskarandi nemandi þrátt fyrir námsörðugleika í hefðbundnum námsgreinum. 

Ben, lengst til vinstri, ásamt systkinum sínum. 

 Heimild: Newsner.com

mbl.is