Ekki bíða of lengi með barneignir

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Stundum er sagt frá því að konur öðrum hvorum megin við fimmtugt séu að eignast börn. Það er hins vegar sjaldgæft og ólíklegt að getnaður eigi sér stað hjá konum á þessum aldri nema með tæknilegri aðstoð. 

Almennt er það orðið algengara hjá betur megandi þjóðum að konur eignist börn síðar á lífsleiðinni en áður. Þessi tilhneiging er jafnvel enn meira áberandi víða í Evrópu og Norður-Ameríku en hérlendis og er minnkandi frjósemi bein afleiðing þessarar þróunar.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Eins og flestir vita er frjósemi kvenna háð eggjastokkunum. Á heilsuvefnum Heilsan okkar segir að stúlka byrji að hafa egglos þegar hún verður kynþroska og hefur blæðingar sem geta verið óreglulegar til að byrja með. Egglos verða oftast í miðjum tíðahring og við hvert egglos er konan frjó sem þýðir að getnaður getur átt sér stað.

„Ýmislegt getur haft áhrif á gæði eggjanna eins og aldur og umhverfi, bæði á fósturskeiði og eftir fæðingu. Konur fæðast með öll sín egg í eggjastokkunum öfugt við karlmenn, sem framleiða sáðfrumur jafnóðum. Með tímanum fækkar eggjunum stöðugt frá fæðingu, m.a. vegna hrörnunar. Gróflega áætlað eru um það bil 400.000 egg í eggjastokkunum við fæðingu en við kynþroska eru þau orðin um 40.000. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

  

Lítil frjósemi um fertugt

Með hækkandi aldri verða eggin fyrir skemmdum (m.a. á erfðaefni) sem veldur minnkaðri frjósemi og aukinni tíðni fósturláta, sem og aukinni tíðni litningagalla hjá barni. Þessar breytingar byrja að koma fram fljótlega eftir þrítugt en fara stigvaxandi með tímanum. Upp úr 35 ára aldri eykst hrörnunin hraðar en áður og í kringum fertugt er frjósemi konu almennt orðin lítil. Þennan mun hafa konur fundið sem eru að reyna að verða þungaðar á fertugsaldri. Það tók kannski stuttan tíma að verða þunguð 25 ára en eftir 35 ára aldur getur það tekið mun lengri tíma,“ segir á vefnum.

Þegar konan fer svo í tíðahvörf hættir hún að hafa egglos og engin eggbú þroskast lengur í eggjastokkunum. Flestar konur byrja á tíðahvörfum 45-55 ára. Tæknilega séð er konan frjó svo lengi sem egglos verður en gæði eggjanna takmarka frjósemina. Þótt það sé einstaklingsbundið hvenær tíðahvörf byrja eru gæði eggjanna sambærileg hjá konum á sama aldri.“

mbl.is