Danssýning sem magnar upplifun yngstu leikhúsgestanna

Úr danssýningunni Skýjaborg sem ætluð er yngstu áhorfendunum.
Úr danssýningunni Skýjaborg sem ætluð er yngstu áhorfendunum. Ljósmynd/Aðsend

Tinna Grétarsdóttir sýnir um þessar mundir barnasýninguna Skýjaborg, danssýningu fyrir yngstu börnin þar sem litir, form, ljós og tónlist tala til barnanna. Verkið fjallar um tvær verur, Sunnu og Storm, sem vakna furðulostnar á dularfullum stað. Þar eru sífelld veðrabrigði og verurnar verða því stöðugt að takast á við nýjar aðstæður. Sýningin tekur tæpan hálftíma og í lok hennar er börnunum boðið að koma á sviðið til að leika sér, hitta verurnar og skoða leikmyndina.

Skýjaborg er fyrsta íslenska danssýningin sem er sérstaklega ætluð yngstu áhorfendunum en hún hefur verið tilnefnd til þrennra Grímuverðlauna auk þess að hljóta Menningarverðlaun DV í flokki danslistar. 

- Fjölskyldunni á mbl.is lék forvitni á að vita hvað varð til þess að Tinna fór af stað með þessa sýningu?

 „Skýjaborg var fyrst sýnd í byrjun árs 2012 í Þjóðleikhúsinu. Þá var ég tiltölulega nýflutt heim til Íslands eftir margra ára dvöl í Noregi þar sem ég hafði starfað sem dansari. Þar sá ég fyrst danssýningar fyrir ungbörn og hversu vel það virkaði að nota dansinn til að miðla leikhústöfrunum til ungra barna. 

Tinna Grétarsdóttir danshöfundur
Tinna Grétarsdóttir danshöfundur Ljósmynd/Aðsend

- Tinna hefur ferðast um allan heim með leiksýningar fyrir börn? Er munur á því hvar þú sýnir eða eru smábörn alls staðar eins?

„Börnin eru í grunninn eins alls staðar sem við komum. En það sem við finnum mest fyrir er hvort og hversu mikið leikhúsferðir eru hluti af þeirra lífi. Þau börn sem sjaldan hafa komið í leikhús eru yfirleitt mun feimnari við okkur og taka lengri tíma í að fara að leika sjálf. Að öðru leyti bregðast þau líkt við. Ramminn í kringum sýningarnar er sennilega það sem  er ólíkast. Hvernig kennarar koma fram við börnin, hversu mikill agi er í kringum þau eða hversu mikið foreldrar ætlast til af okkur eða þeim. Þar kemur menningarmunurinn fram, í fullorðna fólkinu.

- Af hverju skipta svona sýningar máli fyrir minnstu börnin. Er ekki nóg að þau horfi bara á smábarnaefni í sjónvarpi?

„Þau fá að koma upp á svið og rúlla sér á gólfinu. Við teljum þetta ákaflega mikilvægt fyrir upplifun barnanna þar sem skilningarvit þeirra eru oft í öðruvísi jafnvægi. Það er litlum börnum algerlega eðlilegt að stinga hlut upp í sig til að kanna hann, það er eðlilegt að dansa við tónlistina til að finna taktinn í líkamanum og að snerta er mikilvægur hluti af könnunarleiðangri þeirra. Í okkar sýningum reynum við að virkja þetta allt saman en það er augljóslega ekki hægt með sjónvarpsefni.

mbl.is