Hvernig væri að kíkja á safn með krakkana?

Ljósmynd/Aðsend

Síðastliðin þrjátíu ár hefur Listasafn Íslands gegnt umfangsmiklu fræðslustarfi fyrir börn á öllum skólastigum en fyrir utan skipulagt fræðslustarf safnsins er lögð áhersla á að koma til móts við börn og fjölskyldur utan skólatíma með opinni dagskrá Krakkaklúbbsins Krumma.

Ragnheiður Vignisdóttir, verkefnastjóri fræðslu og viðburða, segir kosti þess að koma með fjölskyldunni sinni á safn óteljandi. „Óformlegt nám hefst frá unga aldri og söfn eru kjörinn vettvangur til þess að vekja áhuga á listaverkum og skapa samtal milli kynslóða um ýmis málefni sem tengjast samfélaginu, sögunni, listinni og samtímanum," segir Ragnheiður. 

Það er oft mikil stemning listasmiðjum Listasafns Íslands.
Það er oft mikil stemning listasmiðjum Listasafns Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Allir læra og upplifa eitthvað nýtt á safni

Hún segir að söfn séu vettvangur til þess að njóta umhverfisins, verða fyrir áhrifum, uppgötva og læra. Þegar fjölskyldur koma saman á safnið sjá allir og læra eitthvað nýtt ásamt því að skapa sameiginlegar minningar í fallegu umhverfi.

Listasafn Íslands er mjög meðvitað um mikilvægi barnamenningar. „Við erum með þessu framtaki að auka framboð listviðburða fyrir börn og fjölskyldur. 

Ljósmynd/Aðsend

Dagskrá Krakkaklúbbsins Krumma tengist yfirstandandi sýningum safnsins þar sem unnið er með efnivið sýninganna á einn eða annan hátt. Við gefum út dagskrá tvisvar sinnum á ári, hálft ár fram í tímann, þannig að fjölskyldur geti skipulagt sig með góðum fyrirvara. Viðburðirnir verða oftast endurteknir tvisvar sinnum í sama mánuði þannig að fleiri komist að og til þess að nýta vel þá þekkingu og undirbúningsvinnu sem liggur að baki hverjum viðburði,“ segir Ragnheiður.

Allir viðburðir á vegum Krakkaklúbbsins Krumma er þátttakendum að kostnaðarlausu.

mbl.is