Greta Salóme vissi ung að hún myndi leggja tónlistina fyrir sig

Fiðlusnillingurinn Gréta Salóme lagði grunn að tónlistarnámi sínu í Suzuki ...
Fiðlusnillingurinn Gréta Salóme lagði grunn að tónlistarnámi sínu í Suzuki skólanum. Ljósmynd/Aðsend

Það þarf líklega ekki að kynna Gretu Salóme Stefánsdóttur til sögunnar en hún hefur margoft heillað Íslendinga með fiðluspili sínu og töfrandi framkomu. Færri vita að hún tók sín fyrstu tónlistarskref hjá Allegro-Suzukitónlistarskólanum sem fagnar 20 ára afmæli í dag. Í tilefni afmælisins verða tónleikar í Salnum í kvöld en Fjölskyldan á mbl.is ákvað að heyra í henni og fá að vita meira um þessi fyrstu skref hennar á tónlistarbrautinni í tilefni af afmæli skólans.

- Hvenær byrjaðir þú að æfa á hljóðfæri og byrjaðir þú strax í Suzuki?

„Ég byrjaði að æfa á fiðlu þegar ég var 4 ára gömul. Fyrsta almennilega minningin mín er eiginlega þegar pabbi kom heim með tvær pínulitlar fiðlur fyrir mig og systur mína. Ég byrjaði svo í Suzuki sama haust.“

Gréta Salóme byrjaði að æfa á fiðlu fjögurra ára gömul.
Gréta Salóme byrjaði að æfa á fiðlu fjögurra ára gömul. Ljósmynd/Aðsend

- Var hljóðfærið og tónlist mjög óaðskiljanlegur hluti af æsku þinni?

„Æskan mín var mjög lituð tónlistarnáminu og ég verð alltaf þakklát fyrir það. Systir mín er 15 mánuðum yngri en ég og það var því ómetanlegt að vera samferða í þessu námi og eiga þetta sameiginlegt. Foreldrar okkar tóku svo virkan þátt í náminu og mamma eyddi ég veit ekki hvað mörgum klukkutímum á viku í að koma með okkur í tíma og svo æfa með okkur heima. Allar helgar voru hóptímar og þar var maður með jafnöldrum sínum og foreldrum þeirra og svo vorum við á námskeiðum á sumrin bæði úti og á Íslandi. Ég kalla þetta stundum Suzuki-mafíuna en það er vegna þess að maður á eiginlega uppeldissystkin í þessu og foreldrarnir halda líka vel saman.“

Úr starfi skólans
Úr starfi skólans Ljósmynd/Aðsend

 - Upplifðir þú æfingar á hljóðfæri sem kvöð  eða gleði (eða bara bæði)

„Ég held að það sé eðlilegt að krakkar gangi í gegnum bæði það að finnast gaman og leiðinlegt að æfa sig, sérstaklega þegar þetta eru orðnir einhverjir klukkutímar á dag. Ég var samt nokkuð ung þegar ég vissi að ég myndi leggja þetta fyrir mig og þá urðu æfingarnar metnaðarfyllri og ég æfði mig að mínu frumkvæði. Ég verð alltaf þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa ekki hlustað á það þegar ég vildi ekki æfa mig og setja það í forgang. Ég var líka alltaf heppin með kennara sem gerðu námið skemmtilegt en krefjandi og ég held að sú manneskja sem hafði hvað mestu áhrifin á æskuna mína hafi verið Lilja Hjaltadóttir en hún tók við mér þegar ég var um 9 ára gömul og eftir það var framtíðin nokkurn veginn ráðin.“

 - Hvað heldur þú að Suzuki-aðferðin hafi gert fyrir þig? 

„Suzuki-aðferðin hefur mótað lífið mitt án alls efa. Þessi kennsluaðferð beitir miklum aga og gefur nemendum ákveðin verkfæri til að læra án þess að gera það leiðinlegt. Ég beiti Suzuki-aðferðinni í daglegu lífi og starfi án þess að endilega hugsa um það og ég er sannfærð um að hún skili miklum árangri. Ég hef séð það svo greinilega sjálf og á öðrum."

Úr starfi skólans
Úr starfi skólans Ljósmynd/Aðsend

- Hvað þýðingu heldur þú að tónlistarnám hafi fyrir börn almennt? 

„Tónlistarnám er ótrúlega dýrmæt gjöf og eitt það besta sem foreldrar mínir gáfu mér í æsku. Það að fara í gegnum þetta tónlistarnám með foreldra mína virka á hliðarlínunni öll þessi ár gerði það að verkum að við áttum þetta alltaf sameiginlegt. Svo er það einfaldlega þannig að ég væri ekki að gera það sem ég er að gera í dag ef það væri ekki fyrir tónlistarnámið. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að tónlistarnám þarf ekki að framleiða eintóma einleikara og undrabörn. Suzuki-námið gagnast öllum, hvort sem krakkar enda á því að leggja tónlistina fyrir sig eða ekki. Það að upplifa og læra tónlist á þennan hátt býr líka til áheyrendur og ómetanlega neytendur tónlistar."

Afmælistónleikar Allegro-Suzukitónlistarskólans verða í kvöld í Salnum í Kópavogi kl. 20 og stíga þar bæði ungir og lengra komnir tónlistarmenn enda er eitt af megineinkennum Suzuki-aðferðarinnar samspil og gleði. Ókeypis er inn á tónleikana.

mbl.is