Tölvufíkn getur haft alvarlegar afleiðingar

Þorsteinn segir að einkunnir lækki þegar börn séu mikið í …
Þorsteinn segir að einkunnir lækki þegar börn séu mikið í tölvunni. mbl.is/ThinkstockPhotos

Framhaldsskólakennarinn og fyrirlesarinn Þorsteinn K. Jóhannsson hefur látið málefni er snúa að tölvufíkn sig varða, enda skilgreinir hann sjálfan sig sem tölvufíkil í bata. Hann segir mikilvægt að við fylgjumst með börnunum okkar í tölvunni, enda sé stjórnleysi á þessu sviði ekki skárra stjórnleysi í öðrum málum. 

„Með tilkomu aukinnar snjallvæðingar hafa alltaf yngri og yngri börn fengið tölvur í hendurnar. Þetta skapar vissulega vanda ef ekki eru sett nein mörk,“ segir Þorsteinn og bætir við: „Það mikilvægasta sem foreldri getur gert er að skilgreina strax í hverju tölvunotkunin felst, í hvað langan tíma barnið fær að vera í tölvunni og hvað það þarf að gera til að vinna sér inn tölvutíma. Einnig er gríðarlega mikilvægt að foreldri sé samkvæmt sjálfu sér.“

Gleymdi sér í tölvunni sem barn

Saga Þorsteins er lík sögu margra þeirra sem hafa misst tökin í tölvunni. Hún er jafnvel saga þeirra sem hafa ennþá ekki opnað augun fyrir vandamálum þeim sem geta komið upp ef fólk setur tölvuna í forgang í lífinu.

„Árið 1979, þegar ég var 9 ára, sá ég Space Invaders og Pac Man í fyrsta skipti í spilakassa á Flugstöðinni í Reykjavík. Ég var alveg heillaður og eyddi löngum stundum bara að horfa á skjáinn og sjá aðra spila. Fyrstu vandræðin sem ég lenti í var þegar ég var 11 ára og hafði þá eytt öllum blaðburðarpeningunum í tölvuleikjakassa. Ég var þarna strax orðinn fíkill, ekkert annað komst að hjá mér.

Þegar ég var 14 ára fékk ég Sinclair Spectrum í fermingargjöf. Ég hékk mikið á Tralla við Suðurlandsbraut en það var spilakassastaður. Allir mínir peningar fóru í að spila þar og var í raun það sem olli því að ég klúðraði námi mínu í Iðnskólanum, þá 16 ára gamall. Þegar ég var ekki að leika mér í Tralla, þá hékk ég í Sinclair Spectrum. Ég gersamlega hertók sjónvarpið, gekk illa í öllu, hugsaði ekki um eigin heilsu og eignaðist bara tölvunördavini.

Árið 1990 var ég kominn með PC- tölvu og netið. Þá varð fjandinn laus. Ég gat verið 18 tíma á dag þess vegna og meira að segja tók ég stundum sólarhringinn á þetta og það án þess að drekka kaffi eða nota önnur örvandi efni. Í tölvunni gleymdi ég mér alveg og áhyggjur voru á bak og burt. Í tölvunni gerði ég marga góða hluti, þ.e.a.s. í tölvuleikjaheiminum. Varð t.d. einn frægasti smiðurinn í Ultima Online og enn þann dag í dag eru að seljast hlutir á netinu sem hann bjó til. Ég gersamlega hellti mér út í tölvuheiminn og hinn raunverulegi heimur sat á hakanum.“

Þorsteinn segir einkenni tölvufíknar hjá börnum og unglingum vera þegar mest allur tími utan skóla er notaður í tölvur. „Þau upplifa mikla þreytu og sofna jafnvel á skólatíma.

Verkefnin í skólanum hrannast upp og einkunnir þeirra lækka. Þau byrja að ljúga til um tölvunotkun, þau taka tölvur fram yfir það að hitta vini sína og hætta í tómstundum og að sinna áhugamálum fyrir tölvuna. Þau eru skapstyggari án tölvunnar og þola illa fyrirvaralausar breytingar á tölvunotkun.“

Þorsteinn er með margar góðar hugmyndir fyrir foreldra þegar kemur …
Þorsteinn er með margar góðar hugmyndir fyrir foreldra þegar kemur að tölvunotkun barna. mbl.is/Valgarður Gíslason

Dæmi um tölvutíma fyrir börn

Spurður um gott dæmi um tölvutíma segir hann að hægt sé að setja dæmi upp á mismunandi hátt en hann nefnir að börn á aldrinum 2-4 ára ættu sem dæmi að hafa mjög takmarkaðan tíma í tölvu undir leiðsögn. Börn á aldrinum 5-6 ára gætu haft tölvutíma um helgar, á þriðjudögum og fimmtudögum mest 30 mínútur alls yfir daginn. Börn á aldrinum 7-9 ára gætu verið með tölvutíma alla daga, 30 mínútur á dag. Börn á aldrinum 1 0-12 ára alla daga mest 60 mínútur yfir daginn. Börn sem eru 14 ára og eldri gætu verið með frjálsan tölvutíma, að því gefnu að þau stundi tómstundir og sinni námi sínu. Þegar fólk er orðið 18 ára er tölvutími ekki lengur í höndum foreldra og þá mæðir á unga fólkinu að taka ábyrgð á eigin hegðun. „Síðan er hægt að koma með dæmi um hvað börn þurfa að gera til að fá tölvutíma. Börn á aldrinum 2-4 ára ættu að hjálpa til við einhver heimilisstörf. Börn á aldrinum 5-6 ára ættu þá kannski að læra stafina og lesa ef barnið er komið svo langt, eða hafa hreint í herberginu sínu. Börn á aldrinum 7-9 ára ættu að klára heimanám og hafa hreint í herberginu. Börn á aldrinum 10-12 ára gætu þá klárað heimanámið fyrir tölvuna, sinnt einhverjum heimilisstörfum eða haft hreint í herberginu. Unglingar sem eru 14 ára og yfir þurfa aðhald þegar kemur að tölvunni og þess vegna er gott að huga að því að ef þau skrópa í skóla, mæta of seint eða sinna ekki heimanámi og einkunnir lækka, þá er hægt að skerða tölvutíma. Banna til dæmis tölvunotkun eftir kvöldmat eða fara aftur í 10-12 ára regluna þar til viðkomandi hefur tekið sig á. Eftir átján ára aldurinn vonar maður að uppeldið hafi skilað sér.“

Ertu með ráð fyrir foreldra sem upplifa erfiðleika þessu tengda?

„Sé barnið/unglingurinn ekki orðinn sjálfráða, þá er um að gera að setjast niður með barninu og ákveða reglur um tölvunotkun og setja skýr mörk. Neiti barnið að taka þátt, þá þarf að gera því grein fyrir að þá muni foreldri ákveða reglurnar án samráðs. Í flestum tilfellum velur barnið frekar að fá að vera með í ráðum. Síðan þarf að setja niður reglur og standa við þær. Foreldrar verða að vera samstiga. Þetta málefni er sérstaklega flókið þegar um skilnaðarbörn er að ræða.“

Hvernig elur þú upp þín börn?

„Ég nota línuna sem ég nefni sem dæmi hér að ofan. Eldri sonur minn væri forfallinn í tölvunni, en hann nær að lifa í nokkuð eðlilegu sambandi við tölvuna. Annar sonur minn er 10 ára í dag og finnst hann vera mjög heppinn að fá 60 mínútur á dag. Yngri sonurinn er 6 ára og sáttur við sitt enda ekki eins ýktur og eldri bróðirinn. Báðir voru orðnir læsir snemma því þeir þurftu alltaf að læra stafi eða lesa til að fá tölvutíma.“

Býður þú upp á ráðgjöf þessu tengda?

„Ég starfa ekki sem ráðgjafi sjálfur, en á heimasíðunni minni eru ráðleggingar ráðgjafa tengdar börnum og netinu. Mikilvægasta ráðið hins vegar, að mínu mati, til foreldra er að leyfa börnum ekki að hanga ótakmarkað í tölvunni.“

Eitthvað að lokum?

„Í haust fer af stað sex manna hópmeðferð við tölvufíkn. Í byrjun verður eingöngu boðið upp á meðferð fyrir 18 ára og eldri og eftir áramótin verður boðið námskeið fyrir foreldra um tölvuuppeldi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »