Foreldrar tala meira um kynlíf en peninga

Breki Karlsson.
Breki Karlsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breki Karlsson er fjölskyldufaðir í Hlíðunum í Reykjavík, með meistarapróf í hagfræði og hefur undanfarinn áratug unnið ötullega að neytendamálum sem forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. Hann segir að það þurfi að nýta réttu stundirnar til fræðslu og það komi verulega á óvart að foreldrar virðist frekar tala um kynlíf við börnin sín en peninga. 

Breki hefur lagt stund á rannsóknir, kennslu, námsefnisgerð, miðlun, ráðgjöf, stefnumótun og vitundarvakningu um fjármálalæsi hér heima og erlendis. Hann hefur meðal annars skrifað og gefið út kennslubók, Ferð til fjár, sem varð undirstaða samnefndra sjónvarpsþáttaraða á RÚV. Hvort tveggja er nýtt til kennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins.

„Ég er nokkuð oft spurður hvaða uppeldisráð ég hafi til að efla fjármálalæsi barna og hvað það er sem börn verða að kunna í fjármálum. Það er af mörgu að taka og fer að sjálfsögðu eftir aldri og áhugasviði barna og foreldra. Þá skiptir tímasetning miklu máli. Það stoðar lítið að kenna unglingi hvernig íbúðakaup ganga fyrir sig þegar heimurinn hans snýst um eitthvað allt annað, heldur þarf að nýta réttu stundirnar til fræðslu,“ segir Breki.

Hann segir að það komi verulega á óvart hvað fólk tali lítið um peninga við börnin sín. 

„Mér finnst mjög áhugavert að foreldrar séu mun líklegri til að tala við börnin sín um kynlíf en fjármál. Þannig sýndi rannsókn sem ég gerði fyrir fjórum árum að um tveir af hverjum þremur foreldrum höfðu talað við börnin sín um kynlíf, en einungis þriðjungur um fjármál. Þá hef ég rekist á foreldra sem telja sig ekki vera í stakk búnir til að miðla einhverju um fjármál til barna sinna þar sem þau séu nú „öngvir sérfræðingar“. Við þá segi ég gjarna að bestu þjálfararnir séu ekki endilega bestu íþróttamennirnir. Við getum öll miðlað af reynslu okkar, bæði sigrum sem ósigrum í fjármálum,“ segir hann. 

Breki segir að fjármálalæsi sé sambland vitundar, þekkingar, færni, viðhorfa og hegðunar sem þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum og leiða til efnahagslegrar velferðar einstaklinga. 

„Það merkilega er kannski að þó að ekki hafi verið sýnt fram á tengsl milli þekkingar í fjármálum og hegðunar, þá eru nokkuð sterk tengsl milli viðhorfa og hegðunar í fjármálum. Því er ekki úr vegi að efla viðhorfin, viljum við hafa áhrif á hegðunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert