Ei sjálfgefið að samsettar fjölskyldur dafni

„Það er hvorki sjálfgefið né án fyrirhafnar sem samskipti og tengsl í samsettum fjölskyldum ná að þroskast og dafna með jákvæðum hætti. Að stofna til stjúpfjölskyldu er ákvörðun foreldra og það er á ábyrgð foreldra og stjúpforeldra að börn þeirra fái tækifæri til að þroskast og dafna í umhverfi sínu þrátt fyrir breyttar aðstæður,“ Elsa Inga Konráðsdóttir, fjölskyldufræðingur og félagsráðgjafi í pistli um stjúptengsl: 

Foreldrar verða að vera meðvitaðir um væntingar sínar til nýju fjölskyldunnar. Hvers ætlast ég til af þér og þú af mér? Hverjar eru væntingar okkar gagnvart tengslum og samskiptum við börnin og tengslum og samskiptum þeirra á milli? Hverjar eru mínar tilfinningar gagnvart þínum börnum og hverjar eru tilfinningar þínar gagnvart mínum börnum?

Elsa Inga Konráðsdóttir fjölskyldufræðingur og félagsráðgjafi hjá Sálfræðistofu Reykjavíkur.
Elsa Inga Konráðsdóttir fjölskyldufræðingur og félagsráðgjafi hjá Sálfræðistofu Reykjavíkur.

Börnin kynnast nýju fólki sem foreldrar þeirra velja að verja lífi sínu með en það er ekki sjálfgefið að börnin eða stjúpforeldrar séu velkomin til þátttöku í fjölskyldulífi hvor annars. Líffræðileg tengsl leiða í upphafi oftast af sér sterk tilfinningaleg tengsl en „tilbúin tengsl“ þurfa sinn tíma til að vaxa og dafna og þróast með tímanum.

Stjúp-foreldrar/börn/systkini/afar og ömmur geta átt í góðum tengslum og samskiptum þegar „tilbúin tengsl“ myndast við stofnun stjúpfjölskyldunnar. Það skiptir ekki máli hvaða nafn nýja hlutverkinu er gefið því þegar öllu er á botninn hvolft snýst líðan okkar um þær tilfinningar sem við upplifum í samskiptum. Allar tilfinningar eiga rétt á sér.

Stundum eru þær ekki rökréttar eða skynsamar en það er heilbrigt og eðlilegt að hafa tilfinningar. En hvernig við bregðumst við þeim skiptir máli. Við getum verið ómeðvituð um tilfinningar okkar en þær geta birst í samskiptum sem til dæmis pirringur, óþolinmæði gagnvart slæmri hegðun barna sem eru ekki manns eigin. Við getum fundið fyrir afbrýðisemi gagnvart fyrrverandi maka eða jafnvel stjúpbörnunum. Getum orðið ofurviðkvæm, upplifað höfnun, tómleika og depurð. Tilfinningar geta líka birst sem ástúð og umhyggja, áhugi á þátttöku í lífi barnsins, yfirvegun, nánd eða við upplifum að vera stolt af því að tilheyra stjúpfjölskyldu, fjölskyldunni okkar.

Það er ekki alltaf auðvelt að viðurkenna eigin tilfinningar. Sumir koma úr fjölskyldum þar sem tilfinningum er ekki gefið nafn eða við óttumst viðbrögð annarra við tilfinningum okkar. Að forðast að gangast við eigin tilfinningum og tjá þær getur haft áhrif á samskipti okkar við annað fólk. Einn þáttur sem hefur áhrif á samskipti er hversu misjafnlega okkur gengur að tjá tilfinningar. Ef við tjáum ekki líðan okkar geta þeir sem skipta okkur mestu máli í lífinu ekki vitað hvernig okkur líður. Að tjá tilfinningar snýst ekki um að gefa þeim lausan tauminn, þvert á móti, tilfinningum þarf að lýsa af varfærni og viðurkenna að þær séu til staðar. Við þurfum að leggja við hlustir og viðurkenna tilfinningar okkar og annarra. Að viðurkenna tilfinningar og fá viðurkenningu á tilfinningum sínum er mikilvægur þáttur til betri samskipta. Að skilja tilfinningarnar skiptir máli fyrir öll samskipti og sérstaklega þegar fólk upplifir að ágreiningur þess sé óleysanlegur.

Það sagði enginn að stofnun stjúpfjölskyldu væri auðvelt verkefni en það er síður en svo óyfirstíganlegt. Við eigum öll okkar upprunafjölskyldu. Höfum misjafna reynslu að baki, hefðir, venjur, styrkleika og veikleika sem við getum deilt með hvert öðru. Á erfiðum stundum og ekki síður þegar vel gengur, getur verið gagnlegt að leita sér ráðgjafar og stuðnings fagaðila. Verkefni fjölskyldna eru fjölbreytileg sem og leiðirnar til að leysa þau.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »