„Fæðingin mín var frábær“

Veðrið var dásamlegt, sól og logn og borgin skartaði sínu …
Veðrið var dásamlegt, sól og logn og borgin skartaði sínu fegursta. Vááá þetta var fullkominn dagur og ekki skemmdi dagsetningin fyrir – 10.10.10! mbl.is/ThinkstockPhotos

„Hún hefst laugardagskvöldið 9. október þar sem ég skrifaði í dagbókina mína „Nú er ég svo tilbúin að eignast prinsinn. Mér líður mjög vel og finnst frábært að hafa fengið að hvílast sl. daga. Hlakka til að eignast litla kraftaverkið, faðma hann og kyssa. Væri til í að fara af stað í fyrramálið – 101010 er flottur dagur!“ Ég var sett 14. október,“ segir íslensk kona sem var í meðgöngujóga hjá Auði Bjarnadóttur jógakennara í Jógasetrinu. Hún vill tileinka Auði Bjarnadóttur fæðingarsögu sína sem hér er birt: 

Sunnudagurinn 10. október rann upp bjartur og fagur. Ég vaknaði úthvíld klukkan níu um morguninn. Ég fór inn á bað og tók eftir að slímtappinn var farinn. Ég brosti – fannst það spennandi því nú væru ekki margir dagar í stóru stundina. Ég fór fram og sagði manninum mínum frá þessum gleðifréttum og viti menn, í þann mund sem ég var að segja honum þetta, fann ég að smá vatn fór að leka. Vá Þetta var orðið enn meira spennandi.

Þar sem að barnið var ekki alveg búið að skorða sig í mæðraskoðun um tveimur vikum áður, lagðist ég í rúmið og hringdi í Hreiðrið á Landspítalanum. Þá var mér sagt að barnið væri líklegast búið að skorða sig núna þannig að mér væri óhætt að koma um hádegisbil á eigin bíl upp á spítala. Maðurinn minn náði í töskuna sem ég hafði gert tilbúna nokkrum dögum fyrr og fann til það sem upp á vantaði. Hann var soldið stressaður en ég var pollróleg. Það eina sem ég hugsaði um var að anda og slaka. Vatnið hélt áfram að leka smátt og smátt. Ég fann smá samdrætti, sem jukust smá en ég tók þeim fagnandi. Ég vissi að þeir þýddu að að fæðingarferlið væri komið í gang. Mér fannst gott að sitja á boltanum góða. Mæli algjörlega með honum. Mágkona mannsins míns sótti dóttur okkar og í framhaldinu lögðum við af stað upp á fæðingardeild.

Veðrið var dásamlegt, sól og logn og borgin skartaði sínu fegursta. Vááá þetta var fullkominn dagur og ekki skemmdi dagsetningin fyrir – 10.10.10!

Þegar á fæðingardeildina var komið var ég sett í monitor. Það gladdi mig að heyra flottan hjartslátt hjá barninu. Ég vissi að barnið mitt væri að leggja af stað í mikið ferðalag og að framundan væri samvinna okkar tveggja. Það besta sem ég myndi gera fyrir barnið mitt væri að slaka vel á. Þarna var ég komin með fjóra í útvíkkun. Annað slagið hélt vatnið áfram að leka. Við veltum því fyrir okkur hvort barnið myndi fæðast fyrir miðnætti og fá þennan líka flotta afmælisdag.

Það var mjög rólegt á Hreiðrinu. Við fengum að velja okkur fæðingarstofu og völdum sömu stofu og dóttir okkar fæddist í – með dásamlegu útsýni yfir Hallgrímskirkju. Við komum okkur vel fyrir. Allt var í rólegheitum og mér leið nánast eins og við værum að koma okkur fyrir á hótelherbergi; settum dót í fataskápinn, sundfötin á baðbrúnina , bættum lavander í spreybrúsann og settum Grace diskinn í geislaspilarann. Ég bað manninn minn um að fara út í bakarí sem hann og gerði en hann flýtti sér mjög. Á meðan sendi ég sms á mínar bestu vinkonur og lét þær vita að ég væri komin á fæðingardeildina og bað þær að hugsa hlýtt til mín. Viðbrögðin leyndu sér ekki. Á meðan við hjónakorn snæddum rómantískan síðbúinn hádegisverð, rúnstykki og kókómjólk, fóru skilaboðin að streyma inn frá vinkonum mínum. Ég fann styrk í að fá allar góðu kveðjurnar frá þeim. Við fengum yndislega ljósmóður sem kom með gervi-kerti inn til okkar til að kóróna rómantíkina. Með henni var ljósmóðursnemi og það gladdi þær að sjá mig sitja á boltanum og nýta öndunina. Þarna var klukkan hálftvö.

Næsta klukkutímann jukust samdrættirnir hratt. Það eina sem ég hugsaði um var að anda og slaka. Ég bað manninn minn um að nudda á mér mjóbakið í hverri hríð og þótti það gott. Þegar klukkuna vantaði korter í þrjú vildi ég fara í baðið og kölluðum við eftir aðstoð. Inn kom ljósmóðursneminn. Hún sagði að það gæti hægt á ferlinu að fara of snemma í baðið og bað mig um að láta sig vita þegar ég teldi tímabært að fara í baðið… síðar um daginn.

Ég hlustaði á líkama minn og fann, eftir að hún var farin, að ég vildi fara þá og þegar í baðið og bað manninn minn um að láta renna í baðið. Ég var komin í baðið um klukkan þrjú og líkaði það vel. Sigríður ljósmóðir og ljósmóðursneminn komu inn. Ég var algjörlega í eigin heimi. Þær hafa greinilega séð hve langt ég var komin í fæðingarferlinu, því maðurinn minn benti mér á að þær væru farnar að gera allt tilbúið fyrir fæðinguna! Ég bað Sigríði að nudda mjóbakið mitt í hríðunum, því með fullri virðingu fyrir manninum mínum, sem hafði staðið sig mjög vel í að nudda, vissi ég að Sigríður myndi gera það enn betur. Hún rétti manni mínum blævæng sem hann sveiflaði til mín, auk þess sem hann setti á mig kaldan þvottapoka og spreyjaði lavender spreyinu framan í mig.  Það var æði. Sigríður bað ljósmóðursnemann að halda um mjaðmirnar á mér í hríðunum á meðan hún nuddaði mjóbakið. Það virkaði mjög vel. Mér leið eins og drottningu með þrjá þjóna í kringum mig! Sigíður hrósaði mér mikið og var mjög ánægð með öndunina hjá mér. Hún bauð mér glaðloft sem ég afþakkaði. Ég vildi ekki prófa eitthvað sem ég ekki þekkti og vissi ekki hvort mér myndi líka. Ég var mjög einbeitt en alveg róleg.

Sigríður spurði mig hvort ég vildi fæða í baðinu. Ég velti þeim möguleika fyrir mér en vildi ekki taka ákvörðun um það strax. Ég hafði átt stelpuna mína í rúminu. Nokkrum hríðum síðar fann ég að vildi komast upp úr baðinu. Það tókst ekki í fyrstu tilraun þar sem ég fékk hríð, en með þeirra aðstoð tókst mér í annarri tilraun að komast í rúmið. Þá var klukkan orðin fjögur.

Ég var komin með mikla rembingsþörf og vildi fara að rembast um leið og ég komst í rúmið. Það var ákveðinn léttir. Ég eiginlega trúði því ekki að útvíkkunin væri búin og að ég gæti farið að rembast. Það gekk mjög vel. Ég lá á hliðinni og hélt í höndina á manninum mínum og stuttu síðar, klukkan 16:16, fæddist fullkominn 16 marka drengur.

Kæru jóga-gyðjur,

Fæðingin mín var frábær og vil ég þakka Auði fyrir allt. Hún kenndi mér að anda og slaka. Hún kenndi mér að hlusta á líkama minn, treysta honum og hafa trú á að líkami minn væri hinn fullkomni farvegur fyrir hið nýja líf sem var á leiðinni í heiminn. Það reyndist rétt. En það var ekki aðeins í fæðingunni sem öndunin og slökunin kom sér vel, heldur á allri meðgöngunni. Ég vann mjög mikið á meðgöngunni og því var þýðingarmikið fyrir mig að koma í jógatímana og slaka þar á. Síðustu vikur meðgöngunnar var ég orðin mjög þreytt en þótti erfitt að draga að mig í hlé frá vinnu. Þökk sé Auði, Jocey, ljósmóður minnar og vinnufélaga, lét ég verða af því að hætta að vinna tæpum mánuði fyrir fæðinguna. Það er það besta sem ég gat gert fyrir mig sjálfa og barnið. Ég náði að sofa mikið og slaka vel á, fara í nudd, jóga og sund. Þegar að fæðingunni kom var ég úthvíld og fullkomlega tilbúin fyrir stóru stundina.

Ég óska ykkur öllum alls hins besta og hvet ykkur til að hugsa vel um ykkur og hvíla ykkur mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert