Gæti karate verið málið fyrir barnið þitt?

Vilhjálmur Þór Þóruson, byrjaði að æfa karate 10 ára gamall. Í dag er hann yfirþjálfari karatedeildar Breiðabliks. Hann hefur mikla reynslu því hann hefur verið karateþjálfari síðan 2005 og sérhæft sig í þjálfun barna og unglinga.

Vilhjálmur Þór er menntaður þjálfari með þjálfararéttindi 2 frá ÍSÍ, hann er með 3. dan svarta belti í karate og er jafnframt Kenshusei frá WTKO.

„Karate er ekki bara íþrótt. Við erum að sameina gamlar hefðir, aga, heimspeki, menningu og nútímahefðir. Karate skiptist í kata, grunntækni og kumite. Kumite er bardagahlutinn, kata er eiginlega tækniþjálfun en í kata er verið að æfa grunntæknina í fyrirframákveðnum hreyfingum, eins og maður sé að berjast við ósýnilegan andstæðing. Karate er mjög gefandi og uppbyggjandi, bæði líkamlega og andlega,“ segir hann.

Í karate segir liturinn á beltinu til um hversu langt viðkomandi hefur náð.

„Iðkandi byrjar með hvítt belti og getur fengið hálft belti í hvert sinn sem gráðun er náð. Beltin eru eftirfarandi: hvítt, gult, appelsínugult, rautt, grænt, blátt, fjólublátt, brúnt (3 próf), svart (10 dan). Þannig að sá iðkandi sem fer í fyrstu gráðun með hvítt belti getur fengið hálft gult, í næstu gráðun heilt gult og svo framvegis.“

Þú segir gráðun, hvað er það eiginlega?

„Gráðun er beltapróf. Það er formlegt próf í lok hverrar annar til að sjá hvort krakkarnir hafi fylgst vel með yfir önnina og kunni allt sem þau eigi að kunna til að ná næsta belti. Hver iðkandi þarf leyfi frá sínum Sensei (yfirþjálfara) til að fara í gráðunina og það veltur allt á ástundun og framförum. Gráðanir gefa krökkum tilfinningu fyrir árangri. Þau sem ná gráðuninni finna fyrir skammtímaárangri á hverri önn og nálgast markmið sín hægt og rólega. Það er mikil pressa í gráðun og mikill sigur fyrir iðkendur þegar henni er náð. Þetta byggir upp sjálfstraust og eflir einstaklinginn í trú á sjálfum sér.“

Mót eru haldin reglulega hér heima og erlendis. Það er keppt í öllum aldurshópum í kata og 12 ára og eldri keppa í kumite. Keppa allir iðkendur?

„Nei, alls ekki, þeir sem vilja keppa gera það, sumir keppa bara í kata eða kumite, aðrir bæði í kata og kumite. Einnig er keppt í hópkata, þá keppa þrír saman í liði. Sumir æfa eingöngu til að vera í góðu formi, aðrir til að keppa og enn aðrir til að kunna að verja sig.“

Vilhjálmur Þór segir að einstaklingurinn njóti sín í karate. Fókusinn sé settur á hvern og einn, ekki hópinn og hver og einn geti æft á sínum hraða af sinni getu en samt verið í hóp.

„Við æfum í minni sal, í stífu umhverfi, reglurnar eru á hreinu og það er enginn hópþrýstingur eins og er oft í hópíþróttum. Það þýðir samt ekki að iðkandi fái ekki stuðning frá félögum sínum. Bæði kyn æfa á sama tíma og hóparnir eru sömuleiðis aldursblandaðir þannig að hver og einn æfir á sínum hraða og á sinni getu. Félagslífið hjá okkur er fjölbreytt og gaman að sjá hvernig hóparnir þróast og sjá þessa krakka á mismunandi aldri mynda tengsl og félagslega færni á æfingum og utan þeirra.“

Í dag er algengt að krakkar æfi fleiri en eina íþrótt. Passar að æfa einhverja aðra íþrótt með karate?

„Karate hentar mjög vel ein og sér og með öðrum íþróttum og eru margir af yngri krökkunum okkar í annarri íþrótt með. Í karate fá þau líkamlegan og andlegan styrk og liðleika, sem kemur iðkandanum mjög vel í leik og starfi. Við erum með fría prufutíma og það eru allir velkomnir að koma og prufa karate.“

Í vetur geta leikskólabörn stundað karate. Vilhjálmur Þór segir að þau ætli að leggja áherslu á að leyfa börnum að upplifa alvöru karate-æfingar með skemmtun.

„Við erum með reyndustu þjálfara landsins í barnaþjálfun og allir krakkarnir fá frían karategalla. Æfingar verða á þriðjudögum kl. 16 og sunnudögum kl. 10 í Smáranum í Kópavogi. Skráning og allar upplýsingar má finna á breidablik.iseða Facebook-síðu deildarinnar. Það er líka hægt að senda okkur tölvupóst á karate@breidablik.is ef frekari spurningar vakna,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert