5 uppeldisráð Bjargar Alfreðsdóttur

Björg Alfreðsdóttir.
Björg Alfreðsdóttir.

Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarmeistari YSL, rekur fimm manna heimili en hún og maður hennar eiga þrjá stráka á aldrinum hálfs árs til 18 ára.  

1. Að gefa börnunum tíma og njóta augnabliksins

Leikskóli fimm ára stráksins er mjög nálægt heimili okkar en við reynum að gefa okkur góðan tíma þegar við göngum í leikskólann til að skoða nærumhverfið og spjalla saman. Þetta getur til dæmis falið í sér að skoða laufblöðin á haustin, bílana eða blómin. Við reynum að gera það að rólegri stund þar sem ekki er verið að ýta á eftir barninu að drífa sig. Það sama á við um þegar við sækjum hann seinni partinn og stundum sæki ég hann hálftíma fyrr til að tryggja það að við eigum þessa stund saman.

Þegar heim er komið þá sest ég hálftíma niður með honum og yngsta stráknum mínum og gef þeim 100% athygli áður en ég hefst handan við eldamennsku eða önnur heimilisstörf. Þessar stundir gefa mér og þeim mikið og gefst þarna tækifæri að fara yfir daginn hjá honum. Þetta gefur mér líka meiri frið við heimilisstörfin þar sem þeir eru miklu duglegri við að dunda sér sjálfir eftir þessa stund.

Að sjálfsögðu koma stundum dagar þar sem of mikið er að gera og ekki gefst tími í þessar gæðastundir en ég legg mikla áherslu á að gefa mér þennan tíma og reyna að láta hitt vera undantekningu.

Björg ásamt miðjusyninum.
Björg ásamt miðjusyninum.

2. Leyfa börnunum að finna út úr aðstæðum sjálf

Oft og tíðum finn ég þörf fyrir að grípa inn í aðstæður og aðstoða strákana mína við að leysa úr ýmsum uppákomum. Ég sit þó oft á mér því mér finnst mikilvægt að þeir fái tækifæri til að leysa úr þessu sjálfir. Það hefur líka oftast komið í ljós að þeir eru fullfærir um það og þurfa ekki mína aðstoð en ef þeir eru ekki að ráða við aðstæður þá að sjálfsögðu gríp ég inn í.

Dæmi um þetta er þegar miðstrákurinn fær vini í heimsókn og eitthvert ágreiningsefni kemur upp. Þá er freistandi að segja þeim hvernig á að leysa úr málunum en það er enn þá betra að sjá þá sjálfa finna lausn án aðstoðar fullorðinna.

3. Verðlauna fyrir góða hegðun

Þegar við höfum verið að vinna með einhverja neikvæða hegðun þá höfum við verðlaunað strákana þegar þeir hafa sýnt í staðinn góða hegðun. Þessi verðlaun voru oft og tíðum matar- eða sælgætistengd þangað til við tókum meðvitaða ákvörðun um að hætta að tengja mat við góða hegðun. Slíkt getur leitt til óheilbrigðs sambands við mat.

Hrósið þarf að vera markvisst fyrir ákveðinn hlut og oft eru verðlaunin að gera eitthvað með okkur foreldrunum, t.d. lita saman, lesa eða fara saman út á leikvöll.

4. Gera ferð í matvöruverslanir að góðri samverustund

Ferðir í matvöruverslanir með unga krakka geta oft og tíðum verið martröð, sérstaklega þegar bæði börn og foreldrar eru orðin þreytt og pirruð. Við höfum komist að því með miðstrákinn að verslunarferðirnar hafa orðið mun þægilegri eftir að við fórum að leyfa honum að aðstoða okkur í innkaupunum. Við skoðum til dæmis saman grænmeti og ávexti og hjálpar hann okkur að velja það sem er ferskara og ekki skemmt. Í versluninni sem við förum vanalega í er karfa á staðnum sem ætluð er fyrir skemmt grænmeti og ávexti og ef hann finnur slíkt þá sér hann um að setja það í körfuna. Hann hjálpar líka við að setja hlutina upp á færibandið. Með þessu er hann orðinn þátttakandi í innkaupaferðinni og lítur á þetta sem spennandi hlut.

5. Jákvæðni í kringum heimanám

Þegar unglingurinn á heimilinu gekk í gegnum erfitt tímabil með heimanámið þá tókum við meðvitaða ákvörðun um að breyta aðkomu okkar. Við ræddum alltaf um heimanámið með jákvæðum hætti því að okkar viðmót smitast til hans. Einnig gerðum við þetta líka að notalegri stund við borðstofuborðið þar sem allur pirringur og allt stress var skilið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert