Aðstoðar ungt fólk að koma út úr skápnum

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir sálfræðingur.
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir sálfræðingur.

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir sálfræðingur hjá Domus Mentis geðheilsustöð hefur aðstoðað fjölmarga unga aðila að taka fyrstu skrefin út úr skápnum. 

„Ég hef starfað sem sálfræðingur síðastliðin fjögur ár bæði sem skólasálfræðingur og síðan við greiningar og ráðgjöf hjá Þroska- og hegðunarstöð. Unglingar og ungmenni eru sá hópur sem ég hef mikið starfað með. Ég var í starfsnámi á barna- og unglingageðdeild landspítalans og sinnti þar greiningum og meðferð.“

Mannréttindi hinsegin fólks mikilvæg

Aldís hefur frá því hún hóf fyrst nám við Háskóla Íslands tekið virkan þátt í mannréttindabaráttu hinsegin fólks Íslandi. „Síðastliðin tvö ár hef ég starfað sem ráðgjafi hjá samtökunum ´78. Ég hef bæði þekkingu og mikinn áhuga á málefnum hinsegin fólks. Í gegnum starf mitt með foreldrum barna með ýmiskonar vanda kviknaði síðan áhugi minn á því að vinna með pörum. Pararáðgjöf og uppeldisráðgjöf til foreldra varð mér einnig hugleikin þegar við Úlfhildur Eysteinsdóttir, eiginkona mín, eignuðumst börnin okkar tvö með stuttu millibili. Næsta vor stefni á ég viðbótarnám í para- og kynlífsráðgjöf.“

Hvað skiptir mestu máli í þínu starfi?

„Traust. Til þess að ná sem bestum árangri í meðferð skiptir máli að gott traust myndist á milli mín og þeirra sem leita til mín. Að treysta annarri manneskju fyrir erfiðleikunum okkar er ekki alltaf einfalt mál. Ég ráðlegg fólki að fara með opið hugarfar inn í slíka vinnu og vera óhrætt við að prófa sig áfram þar til það finnur sálfræðing þar sem slíkt traust ríkir.“

Hefur mikinn áhuga á fólki

Af hverju valdirðu starfið sem þú ert að starfa við í dag?

„Í grunninn hef ég áhuga á fólki. Hef alltaf verið mjög forvitin og haft ríka þörf fyrir það að vita af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Starf sálfræðinga felst að miklu leyti í því að svara þessari spurningu. Þegar búið er að greina vandann get ég síðan miðlað ýmsum aðferðum til að vinna með vandann. Að fylgjast með breytingunum sem fylgja í kjölfarið er mjög gefandi.“

Hverjir eru skjólstæðingar þínir?

„Unglingar og ungmenni sem eru að takast á við kvíða, depurð eða lágt sjálfsmat, foreldrar sem vilja styrkja uppeldisfærni sína og pör sem vilja bæta samskipti sín eða styrkja sambandið. Hver sem vandinn er þá er ávallt betra að leita sér aðstoðar fyrr en seinna, en það er líka aldrei of seint. Algengt er að pör bíði að meðaltali í sex ár áður en þau leita sér aðstoðar, þegar erfiðleikar koma fram í sambandinu. Með því að grípa inn fyrr er hægt að auka lífsgæði okkar umtalsvert, þar sem hamingja í sambandinu hefur mikil áhrif á lífsánægju.“

Samkenndarmiðuð meðferð

Hvernig vinnur þú með vandann?

„Það fer að miklu leyti eftir vandanum hverju sinni hvernig ég vinn með hann. Algengt er að ég vinni með hugræna atferlismeðferð í samblandi við aðrar gagnreyndar meðferðir til að ná sem bestum árangri. Þá má helst nefna samkenndarmiðaða meðferð og núvitundaræfingar. Allt gengur þetta út á breytingar, að hjálpa fólki að breyta óhjálplegum hugsunum, viðhorfum, hegðun eða öðru sem ýtir undir eða viðheldur vandanum.“

Hvað ráðleggur þú fólki tengt uppeldi?

„Það skiptir máli að vera samstiga þegar það kemur að uppeldi barna. Ég mæli eindregið með því að fólk ræði uppeldi og uppeldisaðferðir áður en börn fara að sýna krefjandi eða óæskilega hegðun. Miklu máli skiptir að ýta undir og veita æskilegri hegðun athygli, kenna börnum þá hegðun sem við viljum sjá og vera fyrirmyndir. Einnig eru rútínur verndandi þáttur í lífi barna og því mikilvægt að koma á rútínum. Þá helst í kringum morgunverkin, hátta- og matartíma. Ef foreldrar eru að takast á við hegðunarvanda eða óæskilega hegðun sem erfitt reynist að vinna með er gott að fá ráðgjöf varðandi uppeldisaðferðir.“

Tíminn með börnunum dýrmætastur

Hver er besta fjárfestingin sem við getum farið í sem foreldrar að þínu mati?

„Að verja tímanum okkar í samveru með börnunum okkar. Í dag er margt sem truflar og grípur athygli okkar. Það er auðvelt að detta í það að vera með nefið ofan í símanum á meðan við sinnum börnunum með hálfum hug. Það að gefa börnunum okkar tíma og óskipta athygli er besta fjárfestingin að mínu mati.“

Hvað um málefni hinsegin fólks?

„Ég hef starfað sem ráðgjafi hjá samtökunum '78 síðastliðin tvö ár. Margar ástæður eru fyrir því að fólk leitar sér ráðgjafar en til mín leita aðilar sem eru að koma út úr skápnum, opna á hugsanir og tilfinningar sem tengjast kynhneigð, kynvitund eða ólíkum sambandsformum. Einnig einstaklingar sem eru að takast á við erfiðleika í fjölskyldu- eða ástarsamböndum, bdsm-hneigðir einstaklingar og aðstandendur hinsegin fólks.“

Fyrstu skrefin út úr skápnum

Hvernig vinnur þú með þau mál hjá ungu fólki?

„Í dag er fólk sífellt yngra þegar kemur út úr skápnum og leitar þá helst til mín á meðan það er að stíga sín fyrstu skref út úr skápnum. Skapast þá svigrúm til að skoða sínar tilfinningar, taka sjálfa(n) sig í sátt og opna á sína kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu í öruggu rými. Einnig eru hugmyndir yngri kynslóða um kyntjáningu og sambandsform oft ólíkar ríkjandi hugmyndum samfélagsins. Það getur valdið óöryggi á unglingsárunum að fara á skjön við væntingar samfélagsins.“

Hvað er það sem þú hefur helst brennandi áhuga á í lífinu?

„Það er fyrst og fremst fjölskyldan mín. En á eftir henni kemur ástríða mín fyrir starfinu mínu. Ég hef gífurlegan áhuga á því sem ég starfa við.“

Aldís segir að lokum að ef þú ert að burðast með eitthvað sem veldur þér vanlíðan eða dregur úr lífsánægju þinni þá er til lausn. „Ekki bíða með að leita þér aðstoðar. Hvort sem það eru einstaklingsviðtöl eða námskeið. Á döfinni eru spennandi námskeið hjá Domus Mentis geðheilsustöð sem ég bendi öllum áhugasömum á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »