Lífið tók U-beygju við móðurhlutverkið

Pála Hallgrímsdóttir með son sinn Hallgrím Ara.
Pála Hallgrímsdóttir með son sinn Hallgrím Ara.

Pála Hallgrímsdóttir, meistaranemi í alþjóðasamskiptum og flugfreyja, er í fæðingarorlofi núna en hún eignaðist son fyrir fimm mánuðum. Hún segir að líf hennar hafi umturnast á þessum fimm mánuðum. 

Þú varðst mamma fyrir fimm mánuðum. Hvernig finnst þér að vera í þessu hlutverki?

„Já mikið rétt, Hallgrímur Ari fæddist 1. maí. Það er svo skrítið við þetta magnaða hlutverk, að það er eins og maður hafi alltaf verið í því um leið og maður fær yndislega barnið sitt í hendurnar. Um leið og maður sér barnið sitt getur maður ekki hugsað sér tilveruna án þess. En ég skal fúslega viðurkenna að þetta er líka það allra erfiðasta sem ég hef gert, það besta og erfiðasta á sama tíma,“ segir Pála. 

Er eitthvað sem kemur á óvart við móðurhlutverkið?

„Það er svo margt sem kemur á óvart í rauninni. Ég hafði aldrei gert ráð fyrir að finnast svona fáránlega skemmtilegt að horfa á barnið mitt anda og vera til, og geta gert það daginn út og inn. Einnig vissi ég ekki að það væri hægt að vera svona áhugasöm um hægðir og meltingu lítilla barna. En öllu gríni slepptu þá trúi ég því bara oft ekki að ég hafi búið til þennan fullkomna flotta einstakling sem brosir framan í mig á hverjum degi – svo glaður með lífið og tilveruna. Ég hlakka svo til að sjá hann stækka og þroskast, leiða hann áfram í gegnum lífið og vonandi veita honum allan þann stuðning og ást sem hann þarf.“

Hvaða uppeldisráðum munt þú fylgja?

„Fyrst og fremst og aðallega umhyggja, ást og kærleikur.“

Hvernig breyttist líf þitt við að verða mamma?

„Það má segja að það hafi breyst algjörlega! Ég skal alveg viðurkenna að lífið tók U-beygju við það að verða mamma. Ég er auðvitað enn þá með mjög lítið barn en lífið snýst um þennan litla einstakling og hann ræður ferðinni, alltaf. Ég á mig ekki lengur sjálf. Auðvitað er bindingin og andvökunæturnar krefjandi á köflum. Það kemur alveg fyrir að manni finnist veggirnir á heimilinu fara að þrengja að sér, en á móti kemur er Hallgrímur bara svo ofsalega skemmtilegur og yndislegur einstaklingur og held ég bara frekar tillitsamur við mömmu sína. En það að verða mamma er stærsta verkefni sem þú tekur þér fyrir hendur og þessir fyrstu mánuðir rosalega krefjandi fyrir móðurina. Við erum á vakt 24 tíma sólahringsins, alla daga, alltaf,“ segir hún. 

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum að gera hlutina á ákveðinn hátt?

„Já, samfélagsmiðlar eru óneitanlega stór þáttur í lífi manns og sérstaklega í fæðingarorlofi. Ég held til dæmis að ég hafi aldrei verið jafndugleg að birta myndir og myndskeið af okkur Hallgrími Ara í okkar daglegu rútínu (vona að vinir og kunningjar séu ekki komnir með ógeð) og skoða og „fletta“ samfélagsmiðlunum. Skoða hvað aðrar mæður eru að gera, vissulega læðist stundum að manni hugsanir eins og af hverju er ekki svona fínt heima hjá mér, af hverju lít ég ekki svona vel út, barnið mitt á ekki þessi föt eða þetta dót og svo framvegis. Yfirleitt næ ég nú að hrista þessar hugsanir fljótt af mér – en eftir langa andvökunótt er ekki alltaf það besta að opna Instagram þar sem allir eru svo ferskir, að gera svo skemmtilegt og börnin svo fullkomin.“

Hvernig eru fyrstu fimm mánuðirnir búnir að vera?

„Þeir eru búnir að vera yndislegir en skrítnir. Þeir hafa liðið alveg svakalega hratt og finnst mér eiginlega ótrúlegt að það séu komnir fimm mánuðir síðan litla sjarmatröllið mitt fæddist. Það er áhugavert að fara í gegnum þetta ferli og engu líkt, ég reyndi til að mynda að lesa mig til um fyrstu mánuðina, talaði við vinkonur mínar sem eiga börn um þeirra upplifun, fór á námskeið og meðgöngujóga – allt til að reyna að vera eins vel undirbúin og ég gat. En það er ekkert sem getur búið mann undir þetta ferli, líkami manns hefur aldrei gert þetta áður eða þurft að jafna sig eftir svona átök. Þegar ég hugsa til baka þá eru fyrstu vikurnar eiginlega í hálfgerðri móðu, ég var auðvitað smá aum og lúin eftir þetta allt saman og svo tekur við andvökutímabil þegar barnið er að komast upp á lag með brjóstagjöfina og við að smella saman. Ég skal alveg viðurkenna að þetta tímabil var oft erfitt, ekki nóg með að vera að jafna mig líkamlega eftir að hafa fætt barn, þá er ég með glænýjan brothættan einstakling sem ég er að kynnast og venjast að hafa ofan í mér allan sólahringinn. Hins vegar er ég líka heppin, ég var frekar fljót að ganga til baka og að jafna mig eftir fæðinguna. Ég er í dag bara frísk, hress og sterkari eftir þessa lífsreynslu.

Ertu í mömmuklúbbi?

„Já og nei – ég er skráð í einhverja mömmuhópa en ég er ekki í vikulegum hittingum eða eitthvað því um líkt. Ég var töluvert erlendis í sumar hjá móður minni sem býr í Svíþjóð og er núna að klára meistaranám í alþjóðasamskiptum þannig að ég sit ekki auðum höndum þegar Hallgrímur gefur mér smá frí. Ég hef hins vegar alveg verið töluvert í sambandi við vinkonur sem eru samferða mér og er einmitt í ungbarnasundi með einni bestu vinkonu minni núna. Það er ansi gott að geta leitað ráða eða bara röflað við einhverja sem eru að ganga í gegnum það sama og þú.“

Varstu í bumbuhópi?

„Ég var í bumbuhópi (um) en var líka bara í sambandi við vinkonur sem voru á sama reki og ég. Hitti sumar þeirra og nýtti mér ágæti samfélagsmiðla og spjallaði um lífið og tilveruna á meðgöngunni. En það spilar aðeins inn í reikninginn að ég var helminginn af meðgöngunni í Stokkhólmi í meistaranáminu mínu, var því bara með annan fótinn heima en alfarið komin heim í janúar þannig að ef til vill missti ég aðeins af upphafi bumbuhópa sem gerist kannski frekar á fyrstu mánuðunum. Ég fór hins vegar í meðgöngujóga sem var yndislegt, gaman og gott að vera í kringum aðrar konur í sömu sporum og huga að heilsunni.“

Hvernig leið þér á meðgöngunni?

„Mér leið bara frekar vel á meðgöngunni. Ég fann þarna fyrstu mánuðina aðeins fyrir ógleði og lyst mín á kaffi minnkaði en ég gat alltaf vaknað á morgnana og tekið strætó og lest í skólann (þá bjó ég í Stokkhólmi). Þannig að meðgangan hafði engin teljandi áhrif, önnur en að ég var aðeins slöpp og við hliðina á sjálfri mér – sem var vissulega pirrandi og nýtt fyrir mér. Eftir þennan fyrsta hluta meðgöngu (fyrstu þrjá mánuðina) hélt ég áfram að vera frísk og hress, ég fann aðeins fyrir grindarverkjum og auðvitað urðu skrefin þyngri eftir því sem leið á meðgönguna, eins og allar mæður þekkja. Þrátt fyrir að manni líði vel og allt sé í lagi líkamlega, þá eru alltaf einhverjir óvissuþættir og margt sem getur gerst þegar kona er ólétt. Ég fékk að kynnast því, þegar ég var komin á 32. viku þá mælist bumban of lítil og svo á 36. viku er ég komin langt undir kúrfuna. Þá var mér kippt úr venjulegu mæðraeftirliti og sett í áhættumeðgöngu. Eftir það var ég í stöðugu eftirliti upp á Landspítala og vel fylgst með litla unganum. Þegar ég var svo gengin rúmlega 38 vikur var ég sett af stað þar sem litli maðurinn var að mælast allt of lítill miða við kúrfuna. Ég var í rauninni fullkomlega frísk og hress en fylgjan mín hætt að starfa eðlilega, sem er eitthvað sem að hvorki ég né læknar/ljósmæður hefðu getað séð fyrir. Ég var rosalega ánægð með hvernig var tekið á þessu hjá Landspítalanum og var hugsað mjög vel um okkur allan tímann og fylgst vel með. Meðganga er alltaf mikið og stórt ferli að fara í gegnum og margt sem getur komið upp á, þess vegna er svo nauðsynlegt að hugsa vel um sig og hlusta á eigið innsæi,“ segir Pála. 

Hvernig var fæðingin?

„Hún var áhugaverð, hún tók tæpa tvo sólahringa, frá því ég var lögð inn og þangað til litli prinsinn lét sjá sig. Ég var lögð inn mánudagsmorgun, þá tók við ferli þar sem ég tók gangsetningarpillu á klukkutíma fresti og var í mónitor allan tímann til að fylgjast með barninu. Eftir átta töflur með tilheyrandi verkjum en nánast engri útvíkkun þá voru mér gefin verkjalyf og sagt að fara að sofa. Svo byrjaði ferlið að nýju þriðjudagsmorguninn og um hádegi byrja verkirnir að verða óbærilegir. Og fóru stigversnandi með lítilli sem engri hvíld á milli fram eftir degi. Þegar ég var búin að vera í þessu ferli í sjö klukkutíma án þess að vera nær að fæða fékk ég mænudeyfingu, enda orðin svo dauðþreytt eftir þetta langa ferli.

Það var mikill léttir og gerðist allt mjög hratt eftir það. Þá var sprengt á belginn og mér var skellt á jógabolta sem ég hossaði mér á næstu klukkutíma á meðan við barnsfaðir minn horfðum á þáttinn Paradísarheimt í símanum hans. Svona eftir á að hyggja hefðum við alveg getað valið hressara sjónvarpsefni en sagan er engu að síður góð. Svo þegar við vorum á öðrum þætti skoðar ljósmóðirin mig og segir að ég sé tilbúin að fæða! Ha? Bara núna. Loksins. Er komið að þessu! Ótrúleg tilfinning. Fimmtíu mínútum seinna var litli Hallgrímur Ari fæddur, rétt fyrir miðnætti 1. maí. Mögnuð upplifun að fæða barn. Í rauninni svo skemmtilegt. En líka alveg fáránlegt. Sem betur fer gekk allt vel og hann stálsleginn þrátt fyrir að vera í minni kantinum, eða rúmlega 10 merkur. Eins og ég vissi, þá er þetta baráttumaður, (enda fæddur 1. maí) og er búinn að vera að keppast við að stækka og þroskast síðan hann kom í heiminn. Í dag er hann alveg kominn í sína kúrfu og var í raun fljótur að ná henni.“  

Hefðir þú getað undirbúið þig betur fyrir móðurhlutverkið?

„Þetta er erfið spurning. Já pottþétt. Ég gerði mitt allra besta held ég og reyndi að undirbúa mig eins og ég gat. Það er nú samt þannig að ekkert undirbýr mann fyrir þetta stórkostlega en krefjandi verkefni. Ætli ég hafi ekki stressað mig óþarfa mikið yfir hlutum sem ég sé núna að skipta nákvæmlega engu máli og gleymt að hugsa um svona 1000 hluti sem koma upp í því magnaða hlutverki að vera móðir og vera í fæðingar„orlofi“. Ég mun halda áfram að reyna mitt besta – kannski rekast á einhverja veggi en vonandi leysa fram úr þeim verkefnum og áskorunum sem óumflýjanlega koma upp sem foreldri. Ég er spennt fyrir framtíðinni og þrátt fyrir að síðastliðið ár hafi að mörgu leyti verið það erfiðasta sem ég hef upplifað, þá hefur það líka verið það besta. Ég er bara alla daga þakklát fyrir að vera mamma Hallgríms Ara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert