Ákváðu að flytja út á land og hægja á

Greta Mjöll Samúelsdóttir ásamt manni sínum William Óðni Lefever og ...
Greta Mjöll Samúelsdóttir ásamt manni sínum William Óðni Lefever og börnunum Regínu Önnu og Samúel Fróða. Ljósmynd/Aðsend

Söngkonan og fyrrverandi landsliðskonan Greta Mjöll Samúelsdóttir flutti á Djúpavog með manni sínum, William Óðni Lefever, þegar eldra barn hennar var á fyrsta áriGreta Mjöll starfar sem atvinnu- og menningarmálafulltrúi í hreppnum og segir yndislegt að búa úti á landi með lítil börn en hún eignaðist sitt annað barn í fyrra.

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég er að eðlisfari nokkuð léttlynd og oftast í góðu skapi. Mig langar einmitt að vera þannig sem móðir líka, svona hress og skemmtileg mamma. Mig langar að eiga samband við börnin mín sem er fyrst og fremst byggt upp af öryggi, virðingu og samkennd. Draumurinn er að eiga áfram góð tengsl við börnin mín þar sem við öll fáum svigrúm til að vera við sjálf, komum vel fram við hvert annað og eigum rödd,“ segir Greta Mjöll. 

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?

„Mér finnst kurteisi sérstaklega mikilvæg og legg mikið upp með henni með því að reyna að vera kurteis sjálf við börnin mín. Húmorinn er voðalega nálægur mér í uppeldinu og finnst okkur voða gaman að hlæja saman, þó án þess að gera grín eða hæðast að hvert öðru.“

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma?

„Það breyttist auðvitað algjörlega. Ég óttaðist það þó að ég myndi hálfpartinn „hætta að vera ég“ sem ég vildi alls ekki. Það finnst mér ekki hafa gerst, ég er enn þá gamla góða Greta þó svo að forgangsröðunin sé auðvitað allt önnur. Ég get ekki bara naglalakkað mig þegar mér sýnist og horft á þátt þegar ég er í stuði eða hitt vini af því bara eftir hentisemi. Núna eru aðrir aðilar, þessar litlu manneskjur, sem stjórna og stýra deginum mínum alfarið og fá mína fullu athygli. Ég er alveg sátt við það. Þetta er örstuttur tími af mínu lífi þar sem ég á pínulítil börn og ég er að reyna að njóta þess til hins ýtrasta. Það var stór partur af okkar ákvörðun að flytja út á land þar sem okkur þykir tíminn næstum líða hægar og meira svigrúm er til að eyða raunverulegum tíma saman.“

Systkinin Samúel Fróði Lefever og Regína Anna Lefever.
Systkinin Samúel Fróði Lefever og Regína Anna Lefever. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

„Ætli það sé ekki fyrst og fremst bara klisjan, þessi ómælda ást. Ég hefði aldrei trúað því að einhver gæti pissað í lófann minn, kúkað á fötin mín og ælt í hárið á mér og það breytir bara engu. Það hefur kannski komið mér á óvart líka hvað aðlögunarhæfni manns er góð. Lífið manns meira og minna umturnast og maður tekur varla eftir því. Maður venst því bara að sofa töluvert minna.“

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum sem móðir?

„Já, já alveg helling. En það er eins með það og annað á samfélagsmiðlum, ég reyni bara að temja mér að taka þessu flestu með temmilegum fyrirvara. Ég eins og margar aðrar mæður datt í gildruna sérstaklega þegar hormónarússið var sem mest og ég hef heyrt sögur af mæðrum sem hreinlega ganga út í Kringlu í snjóstormi til þess eins að kaupa Sophie-gíraffan af því að barnið þeirra varð að fá það besta og það undir eins. Alls kyns svona ranghugmyndir hafa alveg komist að hjá mér líka og það er auðvelt þegar tilfinningarnar og hormónarnir eru á trilljón. Foreldrar vilja barninu sínu alltaf það besta og því held ég að það sé hættulega auðveldur markhópur. Ef þú sannfærist um að eitthvað sé gott fyrir barnið þitt, eða láti barninu þínu líða betur þá viltu kaupa það, nánast sama hvað það er.

Ég fann það töluvert þegar ég var búin að eignast fyrsta barnið mitt að mér fannst pressan töluverð. Maður átti hreinlega að gera allt og allt á sama tíma. Í fæðingarorlofinu átti maður helst að stofna fyrirtæki, skrifa tvær bækur, stunda líkamsrækt, halda fallegt heimili, mögulega kaupa heimili og allt á meðan maður á að vera heimsins besta móðir í fyrstu tilraun. Ég var ekki alveg að kaupa þetta, fannst þetta svo bilaðar væntingar og asnalega planað að eiga að gera allt á sama þrönga tímarammanum. Ég sagði nei við þeim „cool-aid“ og við ákváðum að flytja lengst út á land og hægja aðeins á tímanum, þessum tíma sem allir segja að fljúgi. Mér finnst ég vera að njóta hans með börnunum mínum og er ævinlega ánægð með þessa ákvörðun okkar.“  

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?

„Það voru tvær mjög ólíkar upplifanir með börnin mín. Fyrsta barnið mitt svaf út í eitt og fór fljótlega upp í átta til tíu tíma eftir sængurleguna. Annað barnið mitt hefur verið töluvert minna fyrir svefninn og erum við um þessar mundir í svefnráðgjöf hjá Barnaspítalanum og hann er að verða ársgamall. Það gengur betur en ég hefði aldrei trúað því hvað svefnleysi getur klárað úr manni mikinn þrótt.“

Greta Mjöll leggur áherslu á kursteisi og húmor í uppeldinu.
Greta Mjöll leggur áherslu á kursteisi og húmor í uppeldinu. Ljósmynd/Aðsend

Varstu í mömm­u­klúbbi?

„Ég er í svoleiðis á Facebook með eldra barnið mitt en datt einhvern veginn ekkert inn í neinn stóran Facebook-hóp með annað barnið. Hins vegar erum við í mömmuhóp hér í litla bænum okkar sem er afar duglegur að framleiða börn og voru þau tíu sem fæddust á síðasta ári. Við höfum því reynt að vera duglegar að hittast með krílin og sérstaklega svona fyrst þegar þau voru minni og við vorum allar í orlofi. Mér fannst það algjörlega endurnærandi og hittingarnir gerðu stundum alla vikuna fyrir mig. Ég hafði svo gott af því að fara út úr húsi og hitta aðrar konur sem voru í sömu stöðu og upplifun og ég.“

Hvernig komstu þér í form eft­ir meðgöngu?

„Ég flissaði nú eiginlega upphátt þegar þessi spurning kom. Ég vil nú ekki telja mig í voðalega góðu formi því miður. Kannski set ég markið óþægilega hátt þar sem ég var í afreksþjálfun fram undir þrítugt. En ég hef satt að segja ekki fundið neina fasta rútínu enn þá eftir að barn númer tvö kom. Það varð einhvern veginn allt svo miklu flóknara. En eftir fyrsta barn fór ég að halda þrektíma í bænum okkar sem fullt af fólki sótti og byggðust helst á stöðvaþjálfun þar sem unnið er að einni æfingu í smátíma þangað til að farið er að næstu. Það virkar vel fyrir mig og bý ég að góðum grunni frá íþróttaárunum mínum. En áður en þeir hófust var ég farin að finna hvað vöðvar höfðu slaknað og mér fannst ég miklu verr „varin“ fyrir hnjaski. Þannig að fyrst og fremst vil ég bara líða vel og finna að ég geti treyst líkamanum mínum þó að ég renni aðeins í hálku.“

Hvernig eru þínar fæðingarsögur?

„Báðar eru mjög dásamlegar og var ég svakalega heppin þegar kemur að fæðingum barna minna. Aðdragandi beggja fæðinga er nákvæmlega eins sem er dálítið fyndið en ég var sett á fimmtudegi með bæði börnin. Í bæði skiptin fór ég af stað á mánudagsnóttinni eftir að hafa borðað fisk i kvöldmatinn. Fór upp á spítala um fjögurleytið í bæði skiptin og með um það bil fjóra í útvíkkun í bæði skiptin. Fyrri fæðingin gekk þó mun hægar eins og eðlilegt er og í sjö í útvíkkun lenti ég alveg á vegg og fékk mænudeyfingu. Hún virkaði alveg fullkomlega og við tók alveg dásamlegur tími þar sem við gátum bæði aðeins hvílt okkur, borðað smá, hlustað á tónlistina sem við höfðum tekið með okkur og hlegið saman. Rembingsþörfin kom ekki svo ég spurði bara hvort ég mætti ekki bara prófa að rembast. Litla stelpan okkar kom þrem hríðum og um það bil 14 mínútum seinna.

Með strákinn minn þá komum við upp á spítala um fjögur eins og áður sagði en hann var fæddur 6:33. Engin deyfing og ekkert mál. Ég segi ekki að það hafi ekki verið vont en ég lenti aldrei á neinum vegg og átti enn fullt inni fannst mér þegar hann var kominn. Ég eignast sem sagt börn að er virðist eftir akkúrat 39 vikna og 5 daga meðgöngu og á auðveldast með rembinginn í fæðingarferlinu enda bý ég ekki til neitt svakalega stór börn. Hún var 12 og hálf mörk og hann 13, höfuðmálin um 34 sentimetrar svo ég kvarta ekki.

Bæði skiptin hlýja mér svakalega við tilhugsunina og mér fannst alveg dásamlegt að fæða börnin mín. Ég var svo heppin að fá yndislegar upplifanir sem voru rólegar og tiltölulega yfirvegaðar og ekki mjög tímafrekar. Ég fæ alveg kitl í magann og hálfpartinn öfunda vinkonur mínar sem eru á leið í fæðingu. Ég átta mig þó á því að þetta er auðvitað alls ekki upplifunin sem allir fá því miður og er ég afar þakklát fyrir að hafa verið svona lánsöm með mínar fæðingar.“

mbl.is