Fæðing eins og að hlaupa fjögur maraþon

Agnes Ósk Snorradóttir sjúkraþjálfari eignaðist son í fyrra.
Agnes Ósk Snorradóttir sjúkraþjálfari eignaðist son í fyrra. ljósmynd/Telma Geirsdóttir

Agnes Ósk Snorradóttir sjúkraþjálfari sér um nýtt mömmunámskeið í World Class ásamt Köru Elvarsdóttur sjúkraþjálfara en báðar eignuðust þær sín fyrstu börn árið 2017. Agnes Ósk segir það geta hjálpað konum að vera í góðu formi fyrir fæðingu enda fæðing mikil þolraun. Sjálf er hún reynslunni ríkari eftir sína meðgöngu og eftir á að hyggja hefði gert ýmislegt öðruvísi ef hún væri ólétt í dag. 

Hvers konar hreyfingu ættu konur að stunda á meðgöngu?

„Hreyfingu sem lætur þeim líða vel númer eitt, tvö og þrjú. Við erum svo ótrúlega misjafnar og alls ekkert eitt sem hentar öllum. Hreyfingin á bara ekki að valda einhverjum áður óþekktum verkjum. Á þessum tíma er fullkomið að leggja sérstaka áherslu á að styrkja aftari keðju líkamans, það er bakvöðva, rassvöðva, aftanverð og innanverð læri sem og djúpu kviðvöðvana og grindarbotninn, á móti breyttri líkamsstöðu þegar bumban fer að stækka. Svo er mikilvægt að rífa púlsinn annað slagið upp með þolþjálfun sem hentar,“ segir Agnes Ósk. 

Hvaða hreyfingu eða æfingar ættu konur að varast á meðgöngu? Er eitthvað sem er alveg bannað?

„Í raun er ekkert bannað annað en það að hundsa skilaboð frá líkamanum. Líkaminn er skynsamur og hann lætur okkur vita ef við erum að fara yfir strikið. Meðgangan hefur svo ótrúlega miklar breytingar í för með sér og margar konur þurfa eitthvað að hagræða sinni þjálfun svo allt gangi vel fyrir sig. Orkuleysi og/eða mjaðmagrindarverkir geta haft mikil áhrif á það hvernig konur geta æft og margar þurfa að hvíla tímabundið hreyfingu sem eykur þrýsting í kviðarholi eða veldur miklu álagi á mjaðmagrindina. Þá geta til dæmis þungar lyftingar, hopp, skokk, ýmsar kviðæfingar og æfingar á öðrum fæti farið að valda verkjum og vandræðum.“

Kara Elvarsdóttir og Agnes Ósk Snorradóttir með börnin sín.
Kara Elvarsdóttir og Agnes Ósk Snorradóttir með börnin sín. ljósmynd/Telma Geirsdóttir

Getur hreyfing á meðgöngu hjálpað konum í fæðingu eða eftir fæðingu?

„Ekki spurning. Fæðingin er náttúrulega bara álag á við að hlaupa fjögur maraþon í röð og þá hjálpar klárlega að vera í þokkalegu formi. Þær konur sem hreyfa sig reglulega eru líka yfirleitt með góða líkamsvitund og eiga oft auðveldara með að lesa í líkamann eftir fæðinguna og mæta líkamanum á þeim stað sem hann er.“

Hvernig æfðir þú á meðgöngunni? Er eitthvað sem þú myndir gera öðruvísi í dag?

„Vá, það er svo margt sem ég myndi gera öðruvísi ef ég væri ólétt í dag og þá aðallega hvað varðar það að sýna sjálfri mér samkennd og skilning. Ég var alveg harðákveðin í því að halda mínu striki í hreyfingu á meðgöngunni og tókst það þokkalega fyrstu mánuðina. Það kom svo algjörlega flatt upp á mig þegar ég fór að finna fyrir mjaðmagrindarverkjum og hætti með tímanum að ráða við flest það sem ég var vön að gera í ræktinni. Í staðinn fyrir að hagræða þjálfuninni að mínu ástandi tók „allt eða ekkert“-manneskjan í mér yfir og mér fannst aldrei taka því að mæta í ræktina því ég gat hvort eð er bara hjólað í kortér. Það þarf líklega ekki neina háskólagráðu til að átta sig á því að með þessari ákvörðun minni versnuðu mjaðmagrindarverkirnir til muna og við bættust ýmsir aðrir stoðkerfisverkir í þokkabót. Sem betur fer sá ég nú ljósið og eyddi síðustu mánuðunum í meðgöngusundi sem algjörlega bjargaði minni geðheilsu og viti menn, dró úr mjaðmagrindarverkjunum líka.“

View this post on Instagram

Grindarbotninn gegnir algjöru🔑lykilhlutverki í þjálfun á og eftir meðgöngu! - Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti kvenna sem telur sig kunna að spenna grindarbotnsvöðvana gera það ekki rétt‼️ - Það er líka nokkuð algengt að konur séu með of spenntan grindarbotn. Ef þú átt erfitt með að pissa án þess að þrýsta aðeins grindarbotninum niður gætir þú átt við það vandamál að stíða og þarft að læra að SLAKA á grindarbotnsvöðvunum! 🧘🏼‍♀️ Hér eru nokkur “cue” til að hjálpa þér að finna rétta spennu: - 1️⃣ hugsaðu um grindarbotninn sem klukku🕑 lífbeinið er 12, rófubeinið 6 og hliðarnar 3 og 9. Dragðu 6 að 12 og 3 að 9 og lyftu svo UPP⬆️ - 2️⃣ Ímyndaðu þér að þú ætlir að soga jellybean upp með grindarbotninum🍬🤷🏼‍♀️ - 3️⃣ hugsaðu þér að þú sért að stöðva þvagbunu🛑 ATH! Ekki mælt með að æfa grindarbotninn svoleiðis en allt í góðu að byrja að finna spennuna svoleiðis. - ➡️ ef þú setur fingur á spöngina ættirðu að finna hana lyftast upp - ekki þrýstast niður! Passaðu að spenna ekki rassvöðvana eða innanlærisvöðvana með og að kviðvöðvarnir séu nokkuð slakir á meðan. - Kostir grindarbotnsþjálfunar: ❇️ betri virkni í djúpvöðvakerfinu! ❇️ minni líkur á áreynsluþvagleka! ❇️ betra kynlíf!

A post shared by HRAUST (@hraustthjalfun) on Sep 18, 2018 at 2:04pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert