Lof mér að falla ekki forvarnamynd

Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir háskólanemi.
Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir háskólanemi. Ljósmynd/Anna Karen Richardson

Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir háskólanemi skrifaði ritgerð um forvarnir í Menntaskólanum við Hamrahlíð síðasta vor. Hún segir að Lof mér að falla sé ekki forvarnarmynd og skorar á Landlækni og fleiri aðila að hætta að sýna grunnskólanemum fyrrnefnda mynd. 

„Ég vann lokaverkefni í sálfræði í MH þar sem ég rannsakaði vímuefnaforvarnir í grunnskólum. Svo virtist sem við værum enn að vinna með fræðslu og hræðsluáróður en ekki gagnvirkar forvarnir. Við þurfum sértækari stefnu í forvarnamálum en úrvinnsla hennar virðist liggja í lausu lofti. Jákvætt var að sjá að viðhorf ungmenna til vímuefna sé þó neikvætt, en það getur skipt sköpum. Við verðum samt að passa að taka utan um börnin sem eru áhættusækin og forvitin, félagslega einangruð eða eiga erfitt heima,“ segir Katrín. 

Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að árangursríkustu forvarnirnar miði af eflingu einstaklingsins. 

„Með betri sjálfsmynd barna geta þau frekar staðist jafningjaþrýsting, eru ólíklegri til að einangrast félagslega og horfa jákvæðari augum á hluti eins og nám og félagsstarf. Við verðum að taka utan um börn sem eru í áhættuhóp og hjálpa þeim að beina áhættusækninni annað. Hræðsluáróður er ekki til þess fallinn að efla sjálfið og getur jafnvel sýnt þetta sem spennandi heim fyrir börn sem sækja í áhættu. Mörg hver finnst þau vera almáttug gagnvart þessum heimi, þau setja sig síður í spor þeirra sem lenda í alvarlegum hlutum,“ segir Katrín. 

Finnst þér rétt að sýna myndina Lof mér að falla í grunnskólum til forvarna?

„Nei, þetta er ekki forvarnamynd. Þetta er frábær kvikmynd sem sýnir heiminn í réttu ljósi, en er ekki til þess fallin að ýta börnum í burtu frá honum. Ekki þá nema börnin sem hafa nú þegar neikvæða ímynd af heiminum og eru mjög ólíklega að fara þessa leið,“ segir hún. 

Hvað telur þú að virki best í forvörnum?

„Það eru svokallaðar gagnvirkar forvarnir. Þær byggja á aukinni félagsfærni, aukinni sjálfsmynd og jákvæðum samskiptum fullorðna við börn. Þá aukast félagsleg tengsl barna, þau verða líklegri til að fúlsa við freistingum og sækja áhættu annað. Forvarnirnar snúa minna að fyrirlestrum, boðum og bönnum.“

Hvað fannst þér vanta upp á í myndinni Lof mér að falla?

„Það vantar ekki neitt upp þar. Fólk verður að átta sig á því að myndin er ekki framleidd sem forvarna- eða fræðsluefni. Þetta er listform og tjáningarmáti, hún segir sögu margra sem hafa ratað í neyslu og sagan er ljót. Ég mæli eindregið með henni sem vitundarvakningu þá sérstaklega til foreldra að vera vakandi fyrir hættumerkjum. En hún er alls ekki forvarnarmynd og hefði ekki átt að fara í þá átt. Við ættum hinsvegar að stefna að því að búa til almennilegt forvarnastarf á Íslandi.“

Katrín skorar á yfirvöld að hætta þessum bíósýningum.  

„Ég skora á Landlækni, sveitarfélög og alla sem koma að forvarnarstarfi í grunnskólum að taka þessar bíóferðir af borðinu og færa fókusinn á alvöru forvarnir sem bera árangur.“

Kristín Þóra Haraldsdóttir í hlutverki sínu í Lof mér að ...
Kristín Þóra Haraldsdóttir í hlutverki sínu í Lof mér að falla.
mbl.is