Við ætlum ekki að verða ríkar á þessu

Þurý Hannesdóttir og Harpa Ragnarsdóttir ásamt börnum sínum.
Þurý Hannesdóttir og Harpa Ragnarsdóttir ásamt börnum sínum. Ljósmynd/Auður Þórhallsdóttir

„Okkur þótti vera vöntun á gæðaleikföngum á íslenskum markaði sem væru einnig umhverfisvæn og eiturefnalaus, einnig skiptir það okkur máli að vita uppruna vörunnar og að hún standist allar kröfur og öryggisstaðla. Eftir smá rannsóknarvinnu fundum við fyrirtækið Plan Toys sem við urðum ástfangnar af og er heilmikil saga og hjarta á bak við það. Fyrirtækið er rótgróið og hefur starfað frá árinu 1981 og er það fyrsta fyrirtækið í heiminum til þess að endurnýta gúmmítré til framleiðslu á leikföngum, tré sem annars væru brennd. Leikföngin eru ekki aðeins umhverfisvæn heldur er leikfangaverksmiðjan sjálfbær, endurnýtir allt sem fellur til og styður samfélagið í kring,“ segir Harpa Ragnarsdóttir.  

Harpa talar um að þegar hún átti son sinn fyrir níu árum var lítil sem engin umræða um leikföng af þessu tagi og síðan þá hefur vissulega mikið breyst til batnaðar. Þegar Þurý átti sína stelpu fyrir rúmum tveimur árum var umræðan orðin meiri en þó enn þá frekar lítið úrval í boði í verslunum landsins, það var alveg hægt að finna einstaka umhverfisvænar vörur en meiri hluti leikfanganna voru úr plasti og gerviefnum. „Eitt af því sem Plan Toys leggur áherslu á er að vekja börn og foreldra til umhugsunar um umhverfisvernd og markmið þeirra er að börnin okkar um allan heim munu vaxa úr grasi með þekkingu og gildi um að virða og varðveita náttúruauðlindir okkar fyrir komandi kynslóðir. Okkur langar til þess að breiða út þennan fallega boðskap með því að kynna vörurnar fyrir íslenskum fjölskyldum og hvetja þær í leiðinni til að huga að umhverfinu og náttúrunni okkar.“

Ljósmynd/Auður Þórhallsdóttir


„Við höfum sjálfar reynslu af því að eiga barnaherbergi stútfullt af alls konar dóti og komist að því að börn una sér oft ekki í leik í þannig aðstæðum, áreitið er hreinlega of mikið. Við erum þeirrar skoðunar að það sé betra fyrir barnið og heimilið að eiga færri og vandaðri vörur og leikföng sem nýtast áfram á milli systkina og jafnvel kynslóða. Við vonumst til þess að geta vakið fólk til umhugsunar og að það vandi valið á leikföngum og vörum inn á heimili sín og minnki þar með neysluna á óþarfa hlutum sem eru oftar en ekki óumhverfisvænir,“ segir Þurý. 

Hún segir að eigandi Plan Toys, Vitool, hafi komist vel að orði þegar hann sagði að börn kunni að leika sér og hafi alla tíð gert. 

„Þetta er svo satt og viljum við að leikföngin séu meira en bara leikföng, að þau efli börnin í þroska og sköpun. Okkur finnst mikilvægt að börn eigi leikföng sem þjálfa m.a. gróf- og fínhreyfingar, örva skynfærin sem og ímyndunaraflið. Við höfum fengið frábærar viðtökur á vörunum frá Plan Toys og greinilega mikill áhugi og þörf fyrir slík leikföng hér á landi. Fólk sem hefur skoðað leikföngin nefnir sérstaklega hversu vönduð og einstök þau eru, enda mikil þróunarvinna á bak við hvert og eitt leikfang sem bæði hönnunar- og verkfræðiteymi leiða. Úrvalið er mikið og helstu vöruflokkarnir eru sem dæmi þroskaleikföng, ungbarnaleikföng, vatnsleikföng, spil, húsgögn og hlutverkaleikföng. Við fórum ekki í þennan rekstur til þess að verða ríkar heldur af hugsjón. Við gætum ekki verið ánægðari með árangurinn hingað til og þau frábæru viðbrögð sem við höfum fengið. Vörurnar eru komnar í nokkrar verslanir nú þegar og fleiri að bætast við á næstunni, en við viljum gera fólki um allt land kleift að nálgast þessar einstöku vörur,“ segir Harpa. 

Ljósmynd/Auður Þórhallsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert