Meðvirkir foreldrar ala upp meðvirk börn

Kjartan Pálmason ráðgjafi hjá Lausninni.
Kjartan Pálmason ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjartan Pálmason einn stofnenda Lausnarinnar, er vel að sér þegar kemur að því að færa foreldrum þau verkfæri sem nauðsynleg eru til að stuðla að heilbrigðu uppeldi. 

Kjartan hefur lokið þjálfun í PIT, „Post Introduction Therapy“ á vegum The Meadows. Námskeiðið er haldið af Pia Mellody og Sarah Bridge. Hann hefur einnig lokið fjölmörgum námskeiðum á vegum Piu Mellody sem nota má til að bæta samskipti við fjölskyldu, börn, maka og vinnufélaga svo eitthvað sé nefnt. Kjartan hefur starfað sem ráðgjafi í 18 ár.

Hann segir að meðvirkni sé mun víðtækari en fólk heldur. „Meðvirkir foreldrar ala af sér börn sem eiga erfitt með að setja mörk sjálf. Meðvirkni er svo útbreidd að ég tel vinnu í meðvirkni fyrir alla foreldra mjög verðugt verkefni,“ segir hann og bætir við. „Það er svo mikilvægt að nota ekki meðvirkni sem sleggjudóm á fólk, heldur sem leiðsögn til að finna vandann. Því öðruvísi er ekki hægt að ráða bót á honum. Það að vera meðvituð um hvað er að og hvaðan það kemur gerir okkur hæfari til að takast á við lífið og samskipti okkar við aðra.“

Fjölmargir þekkja til Piu Mellody og vinnu hennar. Hún hefur ritað fjölmargar bækur og hefur m.a. unnið ötullega í að setja fram aðgengileg módel fyrir ráðgjafa sem starfa við að leiðbeina fjölskyldum með áskoranir tengdar börnum sínum. „Það sem reynist best til árangurs fyrir börnin er að fá alla fjölskylduna í ráðgjöf, ekki bara barnið. Því stundum þarf að fínstilla umhverfið svo barnið fái betur notið sín og þroskist eðlilega.“

Það sem öll börn hafa

Að finna kjarnan í vandamálinu, að fara ofan í grunninn er einkenni módels Mellody. „Við þurfum að skoða hver uppsprettan er, hvar vandamálið byrjar til að geta leyst það. Þetta snýst um fimm kjarnaeinkenni. Við miðum við ákveðna viðmiðunarþætti sem öll börn hafa og skoðum síðan janvægi eða skekkjuna út frá því. Eru foreldrar að standa sig gagnvart þessum fimm atriðum? Ef svo er þá er jafnvægi en ekki skekkja. Skekkjan, hins vegar verður oft og tíðum varanleg. Algengt dæmi er þegar barnið verður það sem það þarf að vera í stað þess að vera það sem því er ætlað að vera.“

Eftirfarandi atriði lýsa hverju stigi módelsins vel.

Börn eru í eðli sínu verðmæt

„Börn eru í eðli sínu verðmæt. Þau börn sem hafa alist upp við að vera verðmæt eru með góða sjálfsvirðingu. Heilbrigt verðmæti í uppeldi skilar sér þannig að barnið upplifir að það sé verðmætt innan frá. Ekki fyrir það sem það gerir, segir eða hvernig það hagar sér. Fyrstu átta ár barnsins eru sérstaklega mikilvæg, því lærdómsgeta barnsins er einstaklega mikil á þeim tíma.

Skekkjan, hins vegar, birtist í því að barnið fer að upplifa sig betra en eða verra en aðrir. Óöryggi, þóknun, samanburður og stjórnsemi eru meðal afleiðinga af skekktu verðmætamati.“

Kjartan talar um að verðmæti barns byrji að þróast frá þriggja mánaða aldri, þegar tilfinninga- og félagslegi hluti heilans byrjar að þroskast. „Verðmætamat barnsins mótast síðan út frá því hvernig foreldrarnir koma að barninu. Síðar lærir barnið af því hvernig foreldrar koma fram við hvort annað og hvernig þau sinna sjálfum sér. Móðirin gegnir lykilhlutverki í upphafi, en í dag vitum við að faðirinn er ekki síður mikilvægur hlekkur í heilbrigðu uppeldi barns,“ segir Kjartan og bætir við. „Svo þú getur rétt ímyndað þér meðvirknina sem myndast innan fjölskyldna af gamla skólanum. Þar sem feður komu hvergi nærri börnunum og mæðurnar voru þjálfaðar upp í því að hugsa bara um aðra.“

Börn eru í eðli sínu viðkvæm

Kjartan talar um annað einkenni models Píu, hvernig börn eru í eðli sínu viðkvæm, auðsæranleg og varnarlaus. „Börn hafa engar varnir fyrstu árin og eru algjörlega háð foreldrum sínum um að verja þau fyrir áreiti, streitu og ýmislegu fleiru. Í meðvirknifræðunum erum við oft að spegla spurninguna: Hver ver barnið fyrir foreldrum þess?“

Kjartan segir: ,,Ef við erum með eðlileg heilbrigð mörk erum við meðvituð um eigið verðmæti og rétt okkar til að tjá okkur um okkar líðan og getum þannig varið okkur fyrir óæskilegum þáttum í umhverfinu.“

Kjartan talar um hvernig markalausir foreldrar fara yfir mörkin hjá börnum sínum. „Skammir og tuð geta skekkt sýn barnsins á hvað er í lagi og hvað ekki. Saklaust kitl getur farið út í öfgar ef foreldrar stöðva það ekki þegar barnið biður þá um að stoppa. Eins þegar börn eru orðin södd og foreldar virða ekki þá staðreynd. Ef við vanvirðum mörk barnanna okkar, hlustum ekki á skilaboð þeirra og kennum þeim ekki að setja mörk sjálf er barnið að verða markalaust. Það þorir ekki eða veit ekki að það má verja sig. Að stoppa af það sem veldur því streitu og vanlíðan. Barnið er ekki í tengslum við innri rödd sína.“

Börn eru í eðli sínu ófullkomin

Kjartan segir að sú hugsun að börn séu í eðli sínu ófullkomin sé mikilvæg að hafa í huga. „Við megum ekki gera of miklar kröfur, heldur leyfa börnum að vera eins og þau eru. Miðað við aldur og þroska.

Börn þurfa að fá að finna að þau eru einstök og dýrmæt eins og þau eru. Ef foreldrar hafa tilhneigingu til að vera pirraðir yfir því að barn er barnalegt, þá getur það haft veruleg áhrif á jafnvægi barnsins. Afleiðingar eru að barnið annaðhvort reynir að vera eins og foreldrarnir vilja. Börnin verða þá fullkomna barnið, eða þau standast ekki kröfurnar og verða erfiða, órólega barnið. Það sama má segja um foreldra sem sinna barninu ekki. Þeir sem eru uppteknir, sjálfir í ójafnvægi eða tilfinningalega fjarlægir. Barnið mun því reyna að sækja athygli og ást frá foreldrinu því barnið hefur grunnþörf fyrir að vera elskað. Með því að standa sig eða með því að standa sig ekki. Að gera það sem foreldrið hefur áhuga á eða kalla eftir neikvæðri athygli. Jafnvel það að gefast upp, að upplifa sig ekki elskað, að fara inn í sig til að byrja með sem síðan brýst út sem jaðar-hegðun. Þegar barnið reynir að finna stað þar sem það tilheyrir.“

Börn eru í eðli sínu háð öðrum

Foreldrar ættu að hafa hugfast að börn eru algjörlega háð foreldrum sínum með allar þarfir. „Mellody talar um að grunnþarfir barna séu 11 talsins. Þær tengjast mataræði, svefni, hreyfingu, ást, jafnvægi, öryggi, aðgengi að læknisþjónustu og fleira. Eitt mikilvægasta atriðið að mínu mati er að foreldrar kunni að róa taugakerfi barnanna niður. Þetta þýðir að foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um hvað er að gerast í lífi barnsins og líðan þess. Sem dæmi má nefna að barn í leikskóla eða grunnskóla getur upplifað mikla streitu þar sem það þarf að læra að aga sig, fara eftir reglum, læra að taka niður atriði, umgangast önnur börn, eitthvað sem þau ráða algjörlega við svo framarlega sem þau geta komið heim og þar sé öruggt skjól og foreldrar sem eru meðvitaðir. Ef það er hins vegar spenna á heimilinu, til dæmis streita foreldra, foreldrar ekki til staðar, fíknir, rifrildi, ef barnið hefur upplifað ofbeldi á heimilinu þá er hætt við því að taugakerfi barnsins nái ekki fullri ró og hvíld og mun það breyta virkni heilans. Varnarkerfi barnsins aðlagar sig aðstæðum og barnið fjarlægist tengslin við sig, fer að lifa fyrir ytra umhverfið og lærir ekki að hlusta á sínar þarfir og langanir. Því miður er orðið allt of algengt að börnum sé hleypt beint í tölvuna eftir skólann í staðinn fyrir að foreldrar setjist niður með börnunum, með mjólk og kleinur og aðstoði þau við að komast á sinn núllpunkt.“

Kjartan segir að ef við tölum ekki kerfið niður í núll sé barnið stöðugt í streitu sem mun birtast í ójafnvægi, eirðarleysi, stjórnleysi, ofstjórnun, bælingu, fíknitilhneigingum svo eitthvað sé nefnt.

„Þrátt fyrir mikilvægi þess að sinna þörfum barnsins á meðan það kann ekki sjálft að sinna þeim, þá er ekki síður mikilvægt að sleppa tökunum og leyfa og kenna barninu að taka við þegar réttum aldri er náð.“

Mæður og feður sem hafa tilhneigingu til að ofvernda börnin sín og taka of mikið ábyrgð á þeim, gætu átt í hættu að gera barnið of háð sér og því getulítið til að takast á við sitt eigið líf seinna meir. „Slíkir foreldrar hafa fengið titilinn þroskaþjófar.“

Börn eru í eðli sínu hvatvís og opin

Kjartan segir að börn séu með gífurlega orku. Þau eru sérstaklega hæfileikarík til að læra og meðtaka fyrstu átta árin. „Ef við sem foreldrar náum ekki að mæta þessu með ró og yfirvegun þá geta börn orðið stjórnlaus eða byrja að reyna að stjórna öðrum.

Foreldrar þurfa að vera í andlegu jafnvægi til að leyfa börnunum sínum að prófa hluti og reyna fyrir sér. Ef foreldrar hvessa sig ítrekað gagnvart barninu fer barnið að upplifa spennu og streitu. Það upplifir að það er ekki í lagi að vera eins og það er og varnarkerfið fer að finna leið til hvernig er þá best að vera. Jafnvægi foreldra er lykilatriðið í þessu atriði. Börn eru stöðugt að bregðast við lífinu. Þau eru mikið í bakheilanum, þar sem það tekur 27 ár fyrir framheilann að þroskast að fullu. Ef hlutirnir eru ekki eins og börnin vilja þá hafa þau tilhneigingu til að fara í fýlu eða trompast, þau hafa ekki framheilavirkni til að leysa vandann. Þau bara bregðast við á þann hátt sem bakheilinn þekkir að virkar best miðað við kringumstæður. Virkni barna er ekki ósvipuð því sem við þekkjum með fólk sem hefur verið í fíkn, þar bregst heilinn „spontant“ við með því að koma með bestu mögulegu lausnina á vandanum, sem í tilfelli fíkilsins, er besta skyndilausnin sem bakheilinn þekkir.“

Kjartan segir að ef skekkja er á þessu sviði, þá byrjum við að sjá fíknihegðun hjá börnum eða meðvirkni.

Kjartan segir mikilvægt að við séum meðvituð um að enginn er fullkominn sem þýðir að ekkert uppeldi er fullkomið. „Meðvirkni sem hugmyndafræði er ekki að reyna að finna sökudólg, heldur til að auka meðvitund og þekkingu til að geta gert betur. Leiðrétta það sem var vanstillt í kerfinu og þar fram eftir götunum. Það er verðugt verkefni fyrir alla foreldra og samfélagið í heild sinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert