7 leiðir til að ala upp hamingjusöm börn

Það skiptir flesta ef ekki alla foreldra máli að börnin …
Það skiptir flesta ef ekki alla foreldra máli að börnin þeirra séu hamingjusöm. Leiðirnar að því eru sjö samkvæmt þessari grein. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Samkvæmt Parents segir Bob Murray höfundur bókarinnar Raising an Optimistic Child: A Proven Plan for Depression-Proofing Young Children—for Life (McGraw-Hill) að umhverfið skipti miklu máli þegar kemur að hamingju barna.

„Það eru vísbendingar um að þunglyndi sé að finna í erfðum, en umhverfið hefur mikið að segja um hvort erfiðarnar verði ríkjandi. Rannsóknir staðfesta að hamingjusöm jákvæð börn verða til á hamingjusömum jákvæðum heimilum sama hvernig genasamsetning barnanna er,“ segir Murray. 

Til að skapa jákvætt umhverfi fyrir hamingjusamt barn er gott að hafa eftirfarandi sjö leiðir í huga samkvæmt greininni. 

Efldu geðtengslin 

Öruggasta leiðin til að efla vellíðan barns er að hjálpa því að finnast það tengt öðrum. Tengsl þín sem foreldris við barnið skipta miklu máli. En það er ekki það eina. Geðtengsl við aðra í fjölskyldunni, systkin, vini, nágranna, þá sem annast þau í skóla, jafnvel við gæludýrið á heimilinu skiptir einnig máli. „Barn sem upplifir sterk geðtengsl í æsku er hamingjusamt barn,“ segir Edward Hallowell, barnasálfræðingur og höfundur bókarinnar „The Childhood Roots of Adult Happiness“. Hann bendir á langtímarannsóknir sem sýna að þegar barn upplifir að það sé elskað og skilið sé ein besta forvörnin gegn áhættuhegðun, sjálfsvígshugsunum og tilfinningalegu umróti. 

Dr. Hallowell kallar þetta „brjálaða ást“ sem aldrei hættir. „Ég veit að þetta hljómar einkennilega og margir telja sig vera að veita þessa skilyrðislausu ást. Það er ekki nóg að barnið þitt viti að þú elskar það skilyrðislaust. Það verður að finna það. Taktu utan um barnið þitt eins mikið og þú getur. Sýndu samúð og samkennd, lestu fyrir barnið þitt, kúrðu með barninu þínu, vertu með því og njótið stunda saman, með því að gera eitthvað sem ykkur finnst gaman saman. Hlæið saman.“ 

„Á sama tíma er mikilvægt að barnið fái tækifæri til að mynda tengsl við aðra líka,“ segir félagsfræðingurinn Christine Carter. „Félagsleg tengsl skipta ótrúlega miklu máli, þetta sýna rannsóknir sem ná 50 ár aftur í tímann. Þeim mun fleiri félagsleg tengsl sem barnið nær að mynda því betra.“

Ekki reyna að gera barnið þitt hamingjusamt

Þetta kann að hljóma einkennilega, en það besta sem þú getur gert til að barnið upplifi hamingjusamt líf til lengri tíma, er að hætta að reyna að gera barnið hamingjusamt með skyndilausnum. 

„Ef við setjum börnin okkar í bómull og veitum þeim það sem þau óska sér daglega, þá erum við ekki að leyfa þeim að fóta sig í lífinu á náttúrulegan hátt. Þannig kynnast þau ekki lífinu og tilverunni á raunverulegan hátt,“ segir Bonnie Harris, höfundur bókarinnar When Your Kids Push Your Buttons: And What You Can Do About It.

Þeir foreldrar sem finnst þeir ábyrgir fyrir tilfinningalífi barnanna sinna eiga í erfiðleikum með að sjá börnin sín upplifa reiði, leiða eða aðrar tilfinningar. Þeir stíga inn í strax og veita börnunum það sem þau telja sig þurfa. Sem er ekki gott, því börn sem læra ekki að takast á við neikvæðar tilfinningar munu bugast þegar kemur að því að upplifa þessar tilfinningar sem unglingar eða fullorðið fólk,“ segir Harris.

Það er því mikilvægt að foreldrar viti að þeir geta ekki borið ábyrgð á tilfinningalífi barnanna sinna. Foreldrar verða að hætta að reyna að fixa börnin sín, stíga til baka og leyfa þeim að finna þanþol í aðstæðunum og læra að sefa eigin tilfinningar á uppbyggilegan hátt. 

Efldu þína eigin hamingju

Á meðan við getum ekki stjórnað hamingju barnanna okkar erum við ábyrg fyrir okkar eigin hamingju. Börn horfa mikið til foreldra sinna sem fyrirmyndir í lífinu. Þess vegna verða foreldrar að muna að þeirra eigin hamingja smitast yfir í börnin. 

„Hamingjusamir foreldrar eru líklegri til að eiga hamingjusöm börn, á meðan börn þunglyndra foreldra eru tvisvar sinnum líklegri að vera þunglynd sjálf,“ segir Murray. 

Af þeim sökum er eitt það besta sem þú getur gert fyrir tilfinningalíf barna þinna að vera í góðu tilfinningalegu ástandi sjálf sem foreldri. Taktu þér tíma til að hvíla þig og að vera hamingjusamur/söm. Ræktaðu sambandið þitt við maka þinn. Því ef foreldrar þínir eru í góðu hjónabandi að mati Murray, þá fylgir hamingja barnanna þar fast á eftir.

Hrósaðu fyrir réttu hlutina

Rannsóknir sýna tengsl eru á milli þess að hafa sjálfstraust og að upplifa hamingju. Það virðist vera sem svo að erfitt sé að upplifa hamingju ef maður hefur ekki sjálfstraust, og öfugt. Margir foreldrar eiga það til að oflofa börnin sín. Þegar barnið málar mynd er það orðið næsti Picasso. Þegar það skorar mark í fótbolta, er því hrósað fyrir að vera næsti Beckham. Murray útskýrir að þegar þetta gerist getur barninu farið að líða þannig að það þurfi að vinna sér inn ást foreldrana með því að vera best í því sem það gerir.

„Mótefnið við þessu er ekki að hætta að hrósa barninu heldur að beina hrósinu í annan farveg. Hrós fyrir viðleitni í stað niðurstöðu er betra. Hrós fyrir sköpunargáfu, vinnusemi, að gefast ekki upp, allt sem barnið gerir til að ná árangri í staðinn fyrir árangurinn sjálfan. Það mun leiða barnið áfram í átt að hamingju,“ segir Murray.

Markmiðið að mati Carter sem er sammála Murray í þessu máli er að búa til hugsunarhátt sem er eflandi. Það að fólk nær árangri ef það vinnur að því að verða góður í einhverju í staðinn fyrir að það hafi þennan hæfileika inn í sér. 

„Börn sem eru alin upp við að vera með sérstaka hæfileika, finnst þau þurfa að sanna sig aftur og aftur. Ef börn fá að reyna og prófa sig áfram. Þeim sé leyft að mistakast, þá ná þau meiri árangri en önnur börn í lífinu,“ segir Carter.

Búðu til svigrúm fyrir bæði sigra og mistök

„Ef þú vilt raunverulega ýta undir sjálfstraust hjá barninu þínu skaltu setja athyglina á að barnið öðlist nýja hæfni reglulega. Það að ná tökunum á hlutunum, ýtir undir sjálfstraust,“ segir dr. Hallowell. 

Ef barnið er undir fjögurra ára að aldri er nánast allt sem það gerir tækifæri til að læra nýja hluti. Allt er nýtt í umhverfinu. Það að borða, klæða sig og fóta sig í tilverunni er lærdómur. Áskorunin er að standa til baka og leyfa börnunum okkar að gera það sem þau geta gert sjálf, en gera það ekki fyrir þau. Helstu mistök margra góðra foreldra að mati Hallowell, er að gera of mikið fyrir börnin sín. „Á meðan það er mjög erfitt að sjá börnin okkar reyna sjálf, munu þau aldrei ná tökunum á hlutunum nema við gefum þeim svigrúm til að mistakast í fyrstu tilraun. Hæfni verður til með því að reyna. Það er með reynslunni sem börnin ná tökum á hlutunum. Hugsunin að geta, verður til þegar börn fá að reyna á sig sjálf. Þannig munu þau öðlast hæfni til að standa andspænis veröldinni með jákvæðni í huga sem er miðpunktur hamingjunnar að margra mati.“

Gefðu börnunum ábyrgð

„Hamingja byggir á þeirri upplifum að við skiptum máli fyrir aðra. Að við séum einhvers virði í fjölskyldunni,“ segir Murray. „Ef við ekki tilheyrum, þá verðum við óttaslegin.“ Með öðrum orðum er fólk með innbyggða þörf á að fólk þurfi á því að halda. Börn allt niður í þriggja ára aldur geta haft hlutverk í fjölskyldunni. Hvort heldur sem er að gefa gæludýrinu að borða, eða að aðstoða við að leggja á borðin á kvöldin. 

Börn niður í þriggja ára aldur geta fengið sitt hlutverk …
Börn niður í þriggja ára aldur geta fengið sitt hlutverk á heimilinu. Það vilja allir tilheyra og skipta máli innan fjölskyldunnar. Ljósmynd/Thinkstocphotos

„Finndu hvar styrkleikar og áhugi barnsins liggur og notaðu það. Ef barnið hefur gaman af því að skipuleggja, þá getur það skipulegt á heimilinu. Ef barnið er mikill nærandi, getur það litið eftir yngri systkinum sínum á meðan þú setur matinn á borðið. Um leið og barnið finnur að það er þörf fyrir það á heimilinu þá mun það efla geðtengslin ykkar á milli og barnið verður öruggt með sinn stað á heimilinu,“ segir Murray.

Æfðu þakklæti

Að lokum sýna rannsóknir tengsl á milli hamingju og þakklætis. Þeir sem halda þakklætisdagbók eru jákvæðari, ná frekar markmiðum sínum en aðrir og líður almennt séð betur með líf sitt. 

Það getur verið langsótt að láta barn halda dagbók, en hægt er að stuðla að því að barnið velti fyrir sér þakklæti með því að spyrja daglega hvað það er þakklátt fyrir í dag,“ segir Carter. Það mikilvæga í þessu er að ástunda þakklætið reglulega. „Ef maður gerir þakklæti að venju þá fóstrar það alls konar jákvæðar tilfinningar og slíkt getur leitt til hamingju í framtíðinni,“ segir Carter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert