Á ég að taka símann af barninu?

Það getur verið góð regla að hafa allar máltíðir án …
Það getur verið góð regla að hafa allar máltíðir án snjalltækni eða síma. Þannig myndast skemmtilegar umræður við eldhúsborðið og öll fjölskyldan tengist á innilegan hátt. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í grein á MindBodyGreen kom nýverið fram umfjöllun um af hverju snjallsímar og snjallúr eru bönnuð í skólum upp að fimmtán ára aldri í Frakklandi. 

Í greininni, sem Kelly Gonsalves skrifar, segist hún styðja þessa stefnu Frakklands enda hafi menntamálaráðherra landsins sagt aðgerðina vera til að fólkið í landinu hefði tök á tækninni en ekki öfugt. 

„Rannsóknir hafa sýnt fylgni á milli aukinnar streitu og einmanaleika og tækninotkunar. Eins hafa kannanir sýnt jákvæða fylgni á milli þess að takmarka símanotkun og þess að börn standi sig betur í námi. 

Samhliða breyttum reglugerðum víðsvegar um heiminn til að takmarka skjánotkun barna geta foreldrar hjálpað börnum sínum að vera í heilbrigðu sambandi við snjalltæknina heima með því að takmarka tíma þeirra í tölvunni; búa til svæði á heimilinu þar sem ekki má vera með síma eða í tölvu eða hafa hluta úr deginum án síma eða tölvu. 

Ekki reyna að taka allt af börnunum í einu, best er að koma á breytingum á heimilinu hægt og rólega. Að búa til góða samverustund með börnunum, sem allir hafa ánægju af og tengjast, reynist betri lausn en að gera hlutina á of róttækan hátt. Það er erfiðara að halda slík mörk en þegar hlutirnir eru gerðir á meðvitaðan, rólegan og skipulagðan hátt,“ segir Gonsalves í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert