„Drengirnir okkar nauðga“

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Elliði Vignisson bæjarstjóri skrifaði hjartnæma grein á vefsíðu sína þar sem hann ræðir ábyrgð feðra gagnvart drengjum sínum og stúlkum.

„Við sem erum feður bæði drengja og stúlkna stöndum nú frammi fyrir áleitini spurningu Stígamóta „Hvort myndum við velja að vera foreldri geranda kynferðisofbeldis eða foreldri þolanda kynferðisofbeldis?“ Samhliða verðum við að svara spurningunni: „Hvort getum við frekar komið í veg fyrir að synir okkar verði gerendur eða dætur okkar fórnarlömb?“

Ný herferð Stígamóta ristir djúpt í sál mína. Ég tel mig hafa ágætis þekkingu á þeim alvarlegu afleiðingum sem kynferðislegt ofbeldi getur haft. Ég hef enda sem sálfræðimenntaður einstaklingur komið að úrvinnslu slíkra mála bæði með fórnalömbum og gerendum.

Hægt er að nálgast myndbandið hér: "Allir krakkar"

Ég hef rætt við bæði gerendur og þolendur í sömu málum. Stundum meira að segja þar sem þeim ber í öllum atriðum saman. Stúlkan brotin, niðurlægð af vini sínum. Drengurinn einnig brotinn, fullur af sjálfsásökunum og viðbjóð á sjálfum sér. „Ég veit núna að ég nauðgaði henni, ég skyldi það bara ekki þá.“

Staðreyndin er sú að gerendur eru [oftast nær] við karlmenn sjálfir. Ekki skrímsli í kjallaratröppum, heldur við sjálfir, vinir okkar, bræður, synir, feður og aðrir drengir og kalmenn í umhverfi okkar.

Kennum drengjunum okkar að virða kynfrelsi stúlkna. Það er ekki bara mikilvægt fyrir stúlkur (konur) heldur ekki síður fyrir drengi (karla). Vanlíðan gerandans (drengjanna okkar) og ógn velferðar þeirra er hluti af þeirri samfélagslegu vá sem kynferðislegt ofbeldi er.

Ég hvet alla að leggja Stígamótum lið í þessari baráttu. Hún er barátta fyrir drengina okkar og stúlkurnar okkar. Hún er barátta fyrir betri heimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert