Miður sín yfir hegðun unglinga á Snappi

Íris Björk Tanya Jónsdóttir eigandi Vera Design er slegin eftir …
Íris Björk Tanya Jónsdóttir eigandi Vera Design er slegin eftir að hafa séð Snapchat hjá dætrum sínum.

Íris Björk Tanya Jónsdóttir, eigandi Vera Design og móðir tvíburastúlkna í Garðabæ, er miður sín eftir að hafa séð Snapchat hjá dætrum sínum. 

„Það er blákaldur raunveruleiki sem börn okkar flestra lifa við með afleiðingum sem enginn getur veðjað á. Ég sá svo ógeðfelda hluti á snappi frá hinum ýmsu krökkum sem eru frá 13 til 15 ára gömul að mér varð óglatt við það og þurfti að hætta að horfa vegna þess að það sem ég sá var hryllingur. Þar var verið að berja 14 ára dreng á hrottalegan hátt af 15 ára dreng og á meðan tók drengur upp myndskeið af þessu ofbeldi og deildi því.

Ég sá hótanaskilaboð um fyrirhugaða nauðgun frá dreng á þessu reki til stelpu á sama aldri. Ég sá rifrildi og einelti af verstu sort. Þó svo að börnin mín og börn þín sem ert að lesa þetta núna séu kannski ekki gerendur þá verða þau ósjálfrátt þátttakendur í þessum snapp-heimi sem er algjörlega fullkominn vettvangur fyrir svona hrylling og því getur fylgt mikill kvíði og ótti og erfitt að standa með sinni sannfæringu einn á móti hjörðinni,“ segir hún á Facebook-síðu sinni og heldur áfram: 

Til þess að minnka líkurnar á því að mínar dætur fari inn í vef sem þær komast ekki úr þá tókum við sameiginlega ákvörðun eftir gott spjall við mæðgurnar um að þær eyddu út snapp-appinu sínu. Þær munu ekki vera lengur beinir né óbeinir þátttakendur í þessum sorglega raunveruleika sem gerist þarna og ég leyfi mér að fullyrða að fæstir foreldrar vita af því hvernig þetta raunverulega er. Ég vissi það ekki og bara alls ekki og taldi mig vera on top of things.

Það ætti enginn að vera með snapp sem er ekki kominn með fullan þroska til þess að nota það á heilbrigðan hátt. Unglingar eru ekki færir um það líffræðilega séð því framheilinn nær ekki fullum þroska fyrr en rétt um tvítugt en þetta svæði heilans stjórnar hegðun með tilvísun í dómgreind og forsjálni.“

Íris Björk bendir á að raunveruleiki unglinga í dag sé brenglaður á margan hátt vegna áhrifa samfélagsmiðla. 

„Leyfi ég mér að fullyrða, að svo margt er látið flakka þarna án þess að hugsa út í afleiðingar eða hversu óheilbrigð hegðunin er.

Bæjaryfirvöld í Garðabæ ættu að skottast út í búð ekki seinna en strax og versla inn öryggismyndavélar og koma fyrir í undirgöngum bæjarins þar sem líkamlega ofbeldið fer fram oft og tíðum. Snappið spyr ekki um stað né stund, það er eins og versta mögulega sýking sem dreifir sér hratt og örugglega út um allt.

Ég tek það á mig að vera „leiðinlega“ mamman sem bannar hitt og þetta og hvet stelpurnar mínar til þess að vitna í mig þegar hjörðin gengur á þær og spyr af hverju þær séu ekki með snapp lengur og það geri ég til að vernda börnin mín. En mikið getur það samt verið erfitt en ég geri það bein í baki og gef engan afslátt.  Ofbeldi er aldrei í boði. Aldrei!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert