Salat sem kemur fæðingum af stað

Hilary Duff borðaði umtalað salat áður en hún átti sitt ...
Hilary Duff borðaði umtalað salat áður en hún átti sitt annað barn. skjáskot/Instagram

Bandaríski veitingastaðurinn Caioti Pizza Cafe hefur öðlast frægð fyrir salat sem er sagt koma fæðingum af stað hjá konum. Leikkonan Hilary Duff er ein af mörgum stjörnum sem hefur bundið vonir við salatið en Duff eignaðist sitt annað barn á dögunum. 

Samkvæmt Today eru konur út um öll Bandaríkin sem panta salatið í pósti þegar þær eru komnar fram yfir settan dag. Matarfréttakona Today segist hafa borðað salatið áður en hún eignaðist dætur sínar tvær. Þótt hún sé ekki 100 prósent viss um að hún geti þakkað salatinu fór hún í báðum tilvikum af stað stuttu seinna. Í tilviki eldri dóttur hennar byrjaði hún að fá hríðir nokkrum tímum eftir að hún borðaði salatið. Í seinna skiptið drakk hún dressinguna sem er „virka“ efnið í salatinu. 

Starfsmaður veitingahússins sagði frá því í viðtali á E! að það væri dressingin á salatinu sem væri málið. Í dressingunni er balsamik og nokkrar sérstakar jurtir sem eiga að gera það að verkum að konur fái hríðir og fæðing hefjist. Hvaða sérstöku jurtir er um að ræða vissi starfsmaðurinn ekki enda um leyndarmál að ræða sem fer ekki út fyrir eldhúsið á staðnum. 

Hilary Duff birti þessa mynd á Instagram áður en hún ...
Hilary Duff birti þessa mynd á Instagram áður en hún eignaðist barn sitt en hún vonaðist til þess að salatið hjálpaði henni að koma fæðingunni af stað.
mbl.is