Hlustaðu á sögur barnsins þíns

Anna Margrét Björnsson gefur út barnabók fyrir jólin ásamt hönnuðinum …
Anna Margrét Björnsson gefur út barnabók fyrir jólin ásamt hönnuðinum Laufeyju Jónsdóttur. Mbl.is/Styrmir Kári

Nú fyrir jólin kemur út barnabókin Milli svefns og vöku en höfundur hennar er Anna Margrét Björnsson blaðamaður en myndskreytingar bókarinnar eru eftir hönnuðinn Laufeyju Jónsdóttur. Útlit bókarinnar sker sig dálítið frá flestum barnabókum sem gefnar eru út um þessar mundir og virðist sækja innblástur til barnabóka fyrri tíma. Hugmyndina að sögunni á yngri dóttir Önnu, Ása Georgía, sem er sjö ára í dag. 

Milli svefns og vöku fjallar um stelpu sem er dálítið myrkfælin og vill ekki fara að sofa. Hún byrjar að ímynda sér undarlegan „leynigest“ sem birtist þegar myrkrið færist yfir og við taka ýmis næturævintýri. 

Milli svefns og vöku er bók um stelpu sem finnst …
Milli svefns og vöku er bók um stelpu sem finnst erfitt að fara að sofa þegar það er myrkur úti. Hugmyndina að bókinni á yngri dóttir Önnu, Ása Georgía, sem er sjö ára í dag. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Anna Margrét gaf okkur nokkur ráð til að kynda undir áhuga barna á bókum. 

1. Lestu fyrir barnið þitt á hverju kvöldi

Það var mikið lesið fyrir mig sem barn en einnig var mikið af gömlum barnabókum í hillum sem mig dauðlangaði að lesa. Ég var svo lánsöm að byrja að lesa fjögurra ára, af einskærum áhuga og vilja, og var mikill lestrarhestur sem barn og las allt sem ég náði að festa hendur á. Börnin mín þrjú hafa öll verið mjög misfljót að læra að lesa en það sem var gullin regla með þau öll var að ég las fyrir þau á hverju kvöldi, frá því þau voru pínulítil. Ég elska barnabækur sjálf og hef lesið mínar uppáhaldsbarnabækur reglulega í gegnum tíðina. Það var því engin kvöð að njóta þeirra aftur með börnunum, fyrst eldri systkinunum og svo yngstu dótturinni. Saman höfum við lesið meðal annars bækur Astrid Lindgren, Roalds Dahl, bækurnar um Harry Potter, sögur C.S. Lewis, Enid Blyton, Maurice Sendak og klassísk Grimms-ævintýri, svo fátt eitt sé nefnt. Ég hætti ekki að lesa fyrir þau eldri fyrr en mörgum árum eftir að þau byrjuðu sjálf að spæna í gegnum bækur. Ég hef líka lesið fyrir þau goðsagnir frá hinum ýmsu menningarheimum sem mér fannst sjálf mjög spennandi þegar ég var lítil. 

Sjálf hef ég upplifað að börn elski festu og ró þegar það kemur að háttatíma, og að lesa kafla úr sögu á næstum hverju kvöldi á sama tíma er ágætis "ritual".

2. Leyfðu barninu þínu að búa til eigin sögur

Ímyndunarafl barns er magnað fyrirbæri. Það er mjög gaman að gefa sér tíma til að hlusta á börn segja eigin sögur, eða jafnvel skrifa þær. Hugi barnsins er galopinn og í honum birtist heimurinn á nýjan, skemmtilegan, oft afskaplega fyndinn og stundum jafnvel skrýtinn og jafnvel óhugnarlegan hátt, líkt og þegar barn ímyndar sér hvað býr í myrkrinu sem það skilur ekki. Að hlusta á barnið þitt segja sögu segir því líka að hugmyndir þess og sögur hafi líka vægi. Mannfólkið er í eðli sínu sögumenn, við höfum alltaf búið til sögur og borið þær manna á milli sama á hvaða aldri við erum. Og ef barnið þitt er með ímyndaðan vin eða veru, ræddu þá málið við þau í staðinn fyrir að kveða þau í kútinn og segja ekki bara að þetta sé ekki til í alvörunni. Mörk fantasíu og alvöru, drauma og raunveruleika eru mjög teygjanleg hjá ungum börnum. 

3. Segðu barninu frá þínum uppáhaldssögum. 

Ég hef sjálf mikið ímyndunarafl og nýt þess að skapa lítil ævintýri í hversdagsleikanum.  Ég talaði mikið um ást mína á alls kyns barnabókum við börnin mín og hvernig ég gat ekki lagt frá mér bækur á kvöldin og jafnvel plataði pabba og mömmu og þóttist vera farin að sofa. Svo hafði ég líka gaman af hryllilegum bókum þegar ég var aðeins eldri, sögum um Drakúla og Frankenstein og las þetta spjaldanna á milli þrátt fyrir að ég gæti ekki sofið af myrkfælni! Sýndu börnunum þínum fram á að heimur bóka sé afskaplega stór og afskaplega spennandi.

Milli svefns og vöku kemur út hjá Sölku um mánaðarmótin. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert