5 uppeldisráð Sifjar Sigmarsdóttur

Sif Sigmarsdóttir býr í Lundúnum ásamt eiginmanni sínum og tveimur …
Sif Sigmarsdóttir býr í Lundúnum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum.

Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu, býr í Lundúnum ásamt eiginmanni og tveimur börnum, tveggja og fimm ára, sem ganga undir heitinu „kostnaðarliður 1“ og „kostnaðarliður 2“. Nýjasta bók hennar heitir Sjúklega súr saga en í henni er saga lands og þjóðar rakin á meinfyndinn og miskunnarlausan hátt. Bókina skrifaði hún því hún var orðin svo brjálæðislega leið á fólki sem segir að allt hafi verið betra í gamla daga þegar við vorum öll í sauðskinnsskóm og það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum.

1. Heilbrigð vanræksla

Fimm ára dóttir mín á vinkonu sem er með álíka þéttskipaða dagskrá og forseti Bandaríkjanna. Móðir hennar er eins og einkabílstjóri sem skutlar henni um bæinn í píanótíma, fótbolta, tennis og ballett. Svo fara þær á kaffihús og mamman hjálpar dótturinni með heimalærdóminn yfir brokkolí-smoothie og hráköku.

Hér er Sif ásamt börnum sínum tveimur.
Hér er Sif ásamt börnum sínum tveimur.

Mæðgurnar fylla mig svo mikilli vanmáttarkennd að ég tek krók á leið mína til að forðast að verða á vegi þeirra. Innst inni veit ég þó að þetta er tóm vitleysa því rannsóknir sýna að hin „skítsæmilega móðir“ er í raun betra foreldri en „þyrlumamman“.

Árið 1953 bjó Donald Winnicott, breskur barnalæknir og sálgreinir, til hugtakið „hin nógu góða móðir“. Eftir að hafa fylgst með þúsundum mæðra og börnum þeirra veitti Winnicott því eftirtekt að börnum sem ekki gengu að ótakmarkaðri athygli mæðra sinna vísri reiddi betur af en þeim sem nutu óskiptrar athygli. Winnicott sagði að börn sem ættu móður sem olli þeim reglulega vonbrigðum – svaraði þeim ekki strax þegar þau kölluðu, lék ekki við þau eftir pöntun, eldaði ekki matinn sem þau vildu – væru betur í stakk búin til að takast á við þá staðreynd að lífið léti ekki undan duttlungum hvers manns.

Svo virðist sem kenning Winnicott eigi við rök að styðjast. Ný rannsókn sýnir að svo kallaðir „þyrluforeldrar“, foreldrar sem eru með puttana í öllu sem börn þeirra gera, hefta andlegan þroska barna sinna og grafa undan félagsfærni þeirra.

Gleymum því ekki að vanrækja börnin. Þau hafa gott af því.

2. Svefn

Fyrir ári gerði ég magnaða uppgötvun. Ég komst að því hvað stuðlar að hamingju, vellíðan, orku og hæfni til að einbeita sér að verkefnum dagsins. Svefn.

Einu sinni reyndi ég alltaf að sofa sem minnst til að koma sem mestu í verk. Æ fleiri rannsóknir sýna hins vegar að skortur á svefni er stórhættulegur. Svefnleysi getur skert hæfni okkar til að aka bíl jafnmikið og áfengi. Svefnleysi veldur því að greindarvísitala einstaklinga lækkar. Tilraunir á rottum leiddu í ljós að þær drápust eftir tíu til þrjátíu daga af svefnleysi. Ef einstaklingi er bannað í einn sólarhring að stunda líkamsrækt, borða og sofa, hvað veldur mestum skaða? Jú, skortur á svefni.

Eftir að ég uppgötvaði hvaða áhrif góður svefn hefur á eigin heilsu og lund tók ég af hörku á svefnvenjum barnanna. Ég er orðin algjör svefn-harðstjóri. Ég leyfi helst engu að raska háttatímanum hjá þeim. Þeim finnst ég oft alveg ótrúlega leiðinleg þegar ég bind enda á skemmtilegan leik því þau þurfa að fara að sofa. En þau munu þakka mér síðar – eða ekki.

3. Hrósa fyrir viðleitni en ekki árangur

„Við hrósum ekki lengur börnunum fyrir árangur,“ sagði leikskólakennari sonar míns við mig um daginn. „Við segjum ekki lengur falleg mynd hjá þér eða gott fótboltaspark. Í staðinn hrósum við þeim fyrir viðleitnina.“

Hakan á mér datt niður á bringu. Á hvaða fáránlega hippa-leikskóla hafði ég sent barnið? En eftir að hafa hugsað málið komst ég á þá skoðun að þetta væri ekki svo vitlaust. Viðhorfið hvetur börnin til að takast á við verkefni án þess að óttast niðurstöðuna. Fátt er meira hamlandi en fullkomnunarárátta. Ef eina krafan er að gera sitt besta verða öll verk skemmtilegri.

Kannski að við fullorðnu mættum einnig tileinka okkur þessa nálgun. Það er svo oft sem við áfellumst sjálf okkur af hörku þegar árangurinn í lífi okkar er ekki sá sem við viljum að hann sé. Jafnvel þótt við höfum gert okkar besta verðum við vansæl og fúl. Kannski að við ættum oftar að klappa sjálfum okkur á bakið fyrir góða viðleitni.

Sjúklega Súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson.
Sjúklega Súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson.

4. Slæpast

Leyfum börnunum að slæpast meira. Rannsóknir sýna að þétt dagskrá af tómstundum heldur aftur af sköpunargáfu barna og fátt geri hugvitinu jafngott og að leiðast.

5. Börn eru eins og bækur

Að ala upp börn er dálítið eins og að skrifa bók. Það er hægt að halda endalaust áfram að bæta og breyta. En einhvern tímann verður maður að segja stopp, sleppa takinu og vona að sköpunarverkið plummi sig í veröldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert