Gengur vel að vera skemmtileg og nett mamma

„Mamma mín var mér góð fyrirmynd og það vil ég …
„Mamma mín var mér góð fyrirmynd og það vil ég vera syni mínum,“ segir Steinunn. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarkonan Steinunn Jónsdóttir syngur með Amabadama og rappar í Reykjavíkurdætrum ásamt því að sinna uppeldinu á fimm ára gömlum syni sínum með sambýlismanni sínum, tónlistarmanninum Gnúsa Yones. Tónlistarferill Steinunnar fór á flug eftir að hún varð móðir en hún varð ólétt 23 ára. Hún segir það einstaklega auðvelt á Íslandi að gera það sem mann langar til og takast á við móðurhlutverkið á sama tíma.

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég vil vera góð og sanngjörn mamma! Að syni mínum líði vel og njóti æskunnar áhyggjulaus og á sinn hátt og vaxi og dafni sjálfsöruggur og tilbúinn að takast á við lífið af virðingu við sjálfan sig og aðra. Ég vil að hann treysti mér og viti að ég sé til staðar fyrir hann. Og svo vil ég líka að honum finnist ég skemmtileg og nett, sem gengur bara mjög vel. Mamma mín var mér góð fyrirmynd og það vil ég vera syni mínum,“ segir Steinunn. 

Fjölskyldan saman.
Fjölskyldan saman. Ljósmynd/Aðsend

Hvað legg­ur þú áherslu á í upp­eld­inu?

„Ég reyni að vanda mig vel, sýna honum virðingu og athygli og passa mig að láta það ekki bitna á okkar samskiptum ef ég er stressuð eða ef mér líður ekki vel. Ég set raunhæf mörk og hjálpa honum að fylgja þeim. Og svo reyni ég bara að vera góð fyrirmynd fyrir hann og hjálpa honum að blómstra.“   

View this post on Instagram

A post shared by Steinunn Jónsdóttir (@steinunnjon) on Oct 9, 2018 at 3:39pm PDT

Hvernig breytt­ist lífið eft­ir að þú varðst mamma?

„Þegar maður verður foreldri snýst lífið allt í einu um aðra manneskju og maður planar líf sitt út frá því. Allt í einu bar ég ábyrgð á einhverjum öðrum en sjálfri mér og elskaði einhvern meira en allt annað. Það breyttist auðvitað fullt annað, en það er kannski þessi nýja ábyrgð og tilfinningarnar sem henni fylgja sem ég myndi segja að væri stærsta breytingin. Ég var tuttugu og þriggja ára þegar ég varð ólétt og þótt ég hafi alveg verið tilbúin og gert mér grein fyrir því hvað ég væri að fara út í þá hugsaði ég ekkert mikið út í það að með því að ákveða að eignast barn á þessum aldri þá tapar maður auðvitað ákveðnu frelsi sem maður hefur áður en maður eignast barn. Auðvitað getur maður farið í bíó eða í heimsreisu eða flutt til útlanda þó að maður eigi barn en það er kannski aðeins auðveldara að taka þannig ákvarðanir áður en maður verður foreldri heldur en eftir. Þó að það að verða mamma loki sumum dyrum og geri aðrar þyngri þá opnar það aðrar, enn dýrmætari. Á Íslandi er líka einstaklega auðvelt að gera allt sem mann langar til og takast á við móðurhlutverkið á sama tíma. Ef mig langar að ferðast um Indland á mótorhjóli þá mun ég alveg gera það, leigi bara hjól með hliðarvagni fyrir Jón Braga.“

Steinunn með Jón Braga son sinn lítinn en Jón Bragi …
Steinunn með Jón Braga son sinn lítinn en Jón Bragi er nú orðinn fimm ára. Ljósmynd/Aðsend

Hvað kom þér á óvart varðandi móður­hlut­verkið?

Svo margt! Ég er búin að læra fáránlega mikið. Bæði um samskipti við aðra og líka bara um sjálfa mig. Ég var nokkurn veginn nýskriðin upp úr unglingauppreisninni þegar ég varð ólétt þannig að ég lærði auðvitað að meta enn betur mína eigin foreldra og skildi betur „afskiptasemina“ í þeim. Ég missti mömmu mína akkúrat ári áður en Jón Bragi fæddist og við það breyttist lífið mitt mjög mikið og áherslur mínar í lífinu. Ég hægði held ég á mér, lærði að meta enn betur dýrmætið sem felst í því að eiga góðar stundir með fjölskyldunni og ég passa mig mjög að eyða ekki tíma í óþarfa rifrildi og pirring út í fólkið mitt. Það að verða mamma ýtti bara undir þetta.“

Finn­ur þú fyr­ir pressu frá sam­fé­lags­miðlum sem móðir?

„Nei ég hef ekki fundið fyrir því. Ég er bara mjög örugg og ánægð með það hvernig við höfum hagað lífinu í minni fjölskyldu og spegla mig alls ekki í því hvernig aðrir gera. Aftur á móti hef ég alveg fengið innblástur frá öðrum foreldrum í gegnum samfélagsmiðla. Mér finnst til dæmis mjög gott og gaman að fylgjast með Kristínu Maríellu sem heldur úti blogginu Respectful Mom þar sem hún kynnir Rie-uppeldisaðferðina. Og jafnvel þó að ég hafi ekki sökkt mér djúpt ofan í þessi fræði þá nota ég ýmislegt þaðan bæði í uppeldinu og þegar ég er að kenna.“

Hvernig voru fyrstu mánuðirn­ir með ung­barn?

„Ég og Maggi, kærastinn minn og barnsfaðir, vorum saman í orlofi fyrstu mánuðina sem var mjög dýrmætt. Nú á ég fimm ára strák og það að eiga ungabarn er bara fjarlæg minning. Ég man samt að það gekk allt mjög vel hjá okkur. Hann tók reyndar hvorki snuð né pela þannig að við hljótum að hafa þurft að púsla lífinu frekar vel á meðan hann var á brjósti sem var alveg fyrstu tvö árin hans. En einhvern veginn gerðum við það. Foreldrar okkar voru líka alltaf til staðar og þegar við byrjuðum að gigga aftur með Amabadama þá komu annaðhvort pabbi eða foreldrar hans Magga bara með okkur út á land og sátu yfir JB á meðan við spiluðum.“

View this post on Instagram

😁

A post shared by Steinunn Jónsdóttir (@steinunnjon) on Aug 25, 2018 at 2:12am PDT

Varstu í mömm­u­klúbbi?

„Já ég fékk boð í mjög vel samsettan mömmuklúbb í gegnum eina kunningjakonu mína með um tíu stelpum sem allar áttu að eiga um svipað leyti og ég. Við hittumst nokkrum sinnum áður en við áttum og svo áfram eftir að börnin fæddust. Ég þekkti þær ekki neitt áður en ég gekk í klúbbinn en það var ómetanlegt að hafa þær til að tala við á þessum tíma. Maður er í svo miklu millibilsástandi í óléttunni og þegar maður er nýbúin að eiga og þá er mjög eðlilegt að maður sæki í félagskap annarra sem eru að ganga í gegnum það sama. Þannig að bumbuhópar eru bara æði í mínum huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert