Skilnaður stundum bestur fyrir börnin

Með margvíslegum hugsunarvillum sem börnum eru kennd berskjaldast þau fyrir …
Með margvíslegum hugsunarvillum sem börnum eru kennd berskjaldast þau fyrir margvíslegum sálrænum vanda m.a. kvíðaröskun, skömm, reiðióstjórn, fíkn og þunglyndi að mati Gunnar Hrafns. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Gunnar Hrafn Birgisson er klínískur sálfræðingur og forstöðumaður Sálfræðiráðgjafar háskólanema við Háskóla Íslands. Hann hefur mikla reynslu af flóknum málum og býr yfir mikilli og djúpri þekkingu á málefnum tengt skilnaði, ágreiningi, þunglyndi og fleira.

„Ég fékk brennandi áhuga á klínískri sálfræði við að aðstoða unglinga með fjölþættan tilfinninga- og hegðunarvanda. Ég lauk doktorsnámi frá California School of Professional Psychology í Los Angeles í Kaliforníu með áherslu annars vegar á rökræna tilfinninga og hugræna atferlismeðferð og hins vegar á para- og fjölskyldumeðferð. Sjálfur hef ég rekið sálfræðistofu frá árinu 1993. Þar hef ég kynnst því hvernig nota má sálfræði til að greina og leysa úr flóknum málum.“

Hvað er gott að vita fyrir foreldra sem eru að skilja svo börnunum líði sem best?

„Til dæmis það að börn geta komist heil í gegnum það mikla streituálag sem skilnaður veldur, sérstaklega ef foreldrar vanda sig við að leiða ágreining sinn til lykta sem fyrst og snúa sér að því að byggja upp líf sitt í sitt hvoru lagi í stað þess að elda grátt silfur saman til lengri tíma. Mikilvægt er að foreldrar gæti þess að börn lendi ekki inni í langvarandi togstreitu uppalenda sinna. Þetta tekst flestum foreldrum en því miður ekki öllum. Það nægir að annað foreldrið standi að því að skapa illindi og viðhalda togstreitu til þess að álag verði mjög íþyngjandi og jafnvel skaðlegt fyrir börnin. Því miður eru þeir foreldrar til sem víla það ekki fyrir sér að nota börn sín sem vopn gegn fyrrverandi maka og með mjög alvarlegum afleiðingum, en sem betur fer telst það til undantekninga.“

Hvaða ráð áttu handa foreldrum sem eru óhamingjusamir í sambandi og sjá enga aðra leið en að skilja?

„Það gildir ekki eitt og hið sama fyrir alla í þessum efnum og hvert samband er á sinn hátt einstakt. Það skiptir líka miklu hvað hefur verið gert til að laga sambandið og hvað telst fullreynt. Stundum er fólk óraunsætt í væntingum um að sambönd eigi að vera sem dans á rósum og gefst of fljótt upp ef út af bregður og mótlæti skapast. Einnig eru dæmi um að fólk haldi of lengi gangandi óhamingjusömu sambandi eða finni ekki leið til að enda það. Skilnaður getur verið og er stundum besta lausnin fyrir óhamingjusöm pör og getur líka verið besta lausnin fyrir börnin. Sú breyting kallar á endurnýjun á fjölskyldutengslum og tækifæri skapast fyrir foreldra til að byggja upp gott líf í sitt hvoru lagi. Áður en til skilnaðar kemur er auðvitað ráðlegt að leita til pararáðgjafa og athuga hvort hægt sé þannig að bæta samskipti og leysa úr málum. En það er ekki hægt að bæta öll sambönd og stundum er mikilvægt að horfast raunsætt í augu við það.“

Hver er besta fjárfestingin sem við getum farið í tengt börnunum okkar?

„Það að hafa meiri áhuga fyrir börnunum en fjármunum. Að skilja að þau eru svo miklu meira virði en þeir. Að verja dýrmætum tíma sínum sem mest með börnunum margborgar sig á svo ótal vegu. Þegar við verðum áttræð og horfum til baka erum við líklegri til að ylja okkur við minningar um þær stundir heldur en tíma sem fór í það að græða peninga.“

Hvað er gott að gerast í samfélaginu í dag tengt börnum og barnauppeldi?

„Það er aukinn áhugi í samfélaginu fyrir málefnum barna og því hvað sé þeim fyrir bestu. Margir feður hafa á undanförnum árum stigið fram í því að verða meiri þátttakendur í lífi og uppeldi barna sinna.“

Hverju hefurðu áhyggjur af?

„Ég hef áhyggjur af því þeirri lífsspeki börnum er kennd. Þar ræður tilviljun miklu og margskyns viðhorf sem kennd eru vitum við að veikir karakter þeirra og berskjaldar fyrir sálmeinum. Með margvíslegum hugsunarvillum sem börnum eru kennd berskjaldast þau fyrir margvíslegum sálrænum vanda m.a. kvíðaröskun, skömm, reiðióstjórn, fíkn og þunglyndi. Fyrir liggur að gera miklu betur til að styrkja geðheilsu barna og koma í veg fyrir að slík vandamál færist milli kynslóða.“

Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur er með mikla þekkingu á flóknum …
Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur er með mikla þekkingu á flóknum málefnum er varða börn og uppalendur þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Hvað getum við gert til að auka samveru og ánægju okkar með börnunum?

„Mér er hugleikið það að fullorðnir leiki sér meira við börn en almennt er gert. Þar má nefna sem dæmi það að róla með þeim, moki sandi, fleyti kerlingar,  renni sér, stundi boltaleiki, hlaupi í skarðið, fari í stórfiskaleiki, snú-snú, teyjó og sipp. Lærum það af börnunum að leika okkur á ný. Fyrir ekki svo mörgum árum þótti fólk of gamalt til að hjóla á reiðhjóli þegar það væri orðið fullorðið. Nú hefur það sem betur fer breyst, en álíka viðhorf eru samt enn í gangi gagnvart ýmsu öðru sem börn stunda og hægt er að hafa gaman af. Við getum notað skjátæki minna og leikið okkur meira við börn eða líkt og börn. Það gæti orðið meira gaman en margir halda.“

Ef barn sýnir forðun eða flótta er það merki um áföll í æsku?

„Það þarf alls ekki að vera. Það að forða sér eða flýja getur verið heppilegasta viðbragðið við aðsteðjandi ógn. Í sjálfsvarnaríþróttinni júdó er það kennt sem meginregla að forðast átök og flýja undan þeim, frekar en að berjast sem getur leitt til skaða á fólki.“ 

Flestir fara í gegnum einhver verkefni í lífinu, hvernig getum við undirbúið börnin okkar sem best fyrir lífið?

„Með því til dæmis að vera traustar fyrirmyndir; hafa samræmi í því sem við segjum og gerum; vanda sig við að tala uppbyggilega og af nákvæmni; kenna og ástunda góð gildi; varast ógætilegar orsakaskýringar sem leiða til svartsýni, uppgjafar og lélegrar sjálfsmyndar; nota röklegar skýringar á því sem aflaga fer, skýringar sem eru þess fallnar að vekja börnum raunhæfa bjartsýni og efla karakterstyrk þeirra.“

Hvað hefur þú lært sem faðir af því að starfa sem fagaðili á þessu sviði?

„Það hefur verið mín gæfa að hafa kynnst í starfi mínu þúsundum foreldra sem hafa verið að glíma við mjög fjölbreytilega aðstæður. Ég hef haft sérstaklega gott tækifæri til að læra bæði af  því sem þetta fólk hefur gert vel og af mistökum þeirra. Ég hef líka kynnst þúsundum barna sem hafa verið að ganga í gegnum erfiða tíma í sínu lífi og þá líðan sem því fylgir. Ég hef séð margvíslega hæfileika þessara barna við að aðlaga sig aðstæðum, standast álag og sigrast á mótlæti. Orðið vitni af því hve mikil seigla býr í fólki og hvernig styrkur þess, kjarkur og þroski getur aukist við að takast á við erfiðleika og áföll í lífinu.“

mbl.is