Varð fyrir áfalli við fæðingu fyrsta barnsins

Eliza Reid forsetafrú Íslands prýðir forsíðu MAN.
Eliza Reid forsetafrú Íslands prýðir forsíðu MAN. Ljósmynd/Guðmundur Þór Kárason

Forsetafrúin Eliza Reid prýðir forsíðu jólablaðs MAN sem komið er í verslanir. Í viðtalinu fer Eliza um víðan völl en eitt umræðuefnanna er munurinn á því að eignast og ala upp börn hér á landi og í heimalandi hennar, Kanada en Eliza hefur látið hafa eftir sér í erlendum miðlum að líklega hefði hún ekki eignast svo mörg börn ef hún byggi enn í Kanada.

„Já, það er rétt. Það er einfaldlega auðveldara að ala upp börn hér á landi. Samfélagið er mjög fjölskylduvænt og fæstir þurfa að taka ákvörðun um það hvort þeir stofni fjölskyldu út frá fjárhagsástæðum. Það er alla vega í mun minna mæli hér á landi. Erlendis rekur fólk upp stór augu ef það heyrir að maður eigi fjögur börn. Ímyndar sér jafnvel að maður sé strangtrúaður og sé á móti getnaðarvörnum, en hér á landi þykir það ekki tiltökumál. Ég er mjög heppin, ég á fjögur börn og eina stjúpdóttur.“

Eftir að hafa flutt búferlum hingað til lands togaði ferðaþráin þó enn og Eliza fór ein í tveggja mánaða ferð um Vestur-Afríku. „Þegar ég sneri til baka úr þeirri ferð var ég tilbúin til að opna möguleikann á barneignir. Ég hugsaði með mér, við sjáum bara til, en það tókst mjög fljótt og síðan eignuðumst við börn á tveggja ára fresti.“

Börnin fjögur eru fædd árin 2007, 2009, 2011 og 2013 og því má gera því skóna að nóg hafi verið að gera á stóru heimili.

„Á þessum átta árum voru í raun aðeins sex vikur sem ég var ekki annað hvort barnshafandi eða með barn á brjósti,“ útskýrir Eliza og þó hún viðurkenni að vissulega sjái hún að þetta hafi verið mikið álag þegar hún líti til baka þá hafi henni þótt ástandið eðlilegt á meðan hún lifði og hrærðist í því.

„Ég get þó alveg viðurkennt að ég varð fyrir svolitlu áfalli við fæðingu fyrsta barnsins. Þó svo ég hafi auðvitað verið glöð og þakklát þá var fæðingin engin draumafæðing. Þegar við vorum komin heim með hann fékk ég ákveðið áfall. Ég sem hef alltaf verið full sjálfstrausts og var viss um að þetta yrði ekkert mál áttaði mig á því að þetta var miklu erfiðara en ég hafði gert mér í hugarlund. Þar hafa hormónarnir líklega ekki hjálpað til,“ segir Eliza en í einlægu viðtali ræðir hún m.a. fyrstu kynni hennar og Guðna, sýn sína á forsettaembættið og Ísland, framtíðaráætlanir og margt fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert