Fór að stúdera stráka og þeirra hegðun

Bjarni Fritzson rithöfundur hefur mikla ástríðu fyrir því að kenna …
Bjarni Fritzson rithöfundur hefur mikla ástríðu fyrir því að kenna börnum sjálfsstyrkingu. Haraldur Jónasson/Hari

Bjarni Fritzson hefur undanfarin ár getið sér gott orð fyrir sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stráka sem hann byggir á bók sinni Öflugir strákar. Fyrir þessi jól liggur eftir hann barna- og unglingabókin Orri óstöðvandi sem er skáldverk en með ákveðnu sjálfsstyrkingarívafi.
Þegar blaðamaður nær tali af Bjarna er hann að búa sig undir að leggja í hann til Akureyrar að lesa upp úr bókinni og fylla á hillur verslana. Hann nefnilega lætur sér ekki nægja að skrifa bók og gefa hana út sjálfur heldur dreifir hann henni líka að mestu leyti sjálfur.
„Ég vakna bara aðeins fyrr á morgnana, svo er ég rosalega vel giftur,“ segir Bjarni glaðlega inntur eftir því hvort hann hafi ekki ansi mikið að gera þessa dagana.

„Mér finnst þetta geggjað. Ég hitti starfsfólkið í búðunum og næ að spjalla og fæ þannig miklu betri tilfinningu fyrir því hvað er í gangi. Ég hitti líka oft fólk sem er að forvitnast um bókina og get þá talað við það beint. Mér finnst þetta bara svo skemmtilegt að þvælast um og taka þetta alla leið.“ Bókalagerinn er ekki langt undan því hann fær að nota bílskúr foreldra sinna til að geyma upplagið.

Orri óstöðvandi eflir krakka án þess að þau taki eftir

Bjarni rekur fyrirtækið Út fyrir kassann ásamt Kristínu Tómasdóttur og heldur námskeiðin um sjálfsstyrkingu fyrir stráka um land allt, en Kristín hefur haldið sams konar námskeið fyrir stelpur. „Það sem ég er að gera er að kenna strákunum betur á sig og gefa þeim tól og tæki til þess að geta haft jákvæð áhrif á sjálfa sig. Þessi námskeið eru í raun fyrirbyggjandi. Þegar þú ferð að þróa með þér neikvæða sjálfsmynd síðar á lífsleiðinni eða missir trúna á sjálfum þér þá hefurðu eitthvað í höndunum til að takast á við það. Þá veistu að þú getur haft áhrif á sjálfan þig og styrkt þig. Það er svolítið planið með námskeiðunum hjá mér. Strákarnir okkar þurfa að sækja meira fram, öll meðaltöl segja okkur það. Þeir eru ekki að gera eins vel og þeir gætu gert. Við erum með tölur úr háskólum sem sýna að þar eru þeir í minnihluta, ungir karlar glíma frekar við atvinnuleysi, lesskilningur er minni hjá strákum og fleira. Þess vegna er ég líka að hvetja þá til að dreyma stórt og leggja hart að sér til að sækja drauminn.“

Bjarni segir samtal við son sinn hafa kveikt hugmyndina um að skrifa skáldsögu fyrir börn. „Sonur minn var að lesa bókina mína Öflugir strákar. Honum gekk ekkert svo vel með hana, en samt er hann mjög duglegur að lesa. Hann sagði mér þá að sér fyndist hún kannski ekki nógu skemmtileg. Þá kom þessi hugmynd að gera skáldsögu með flottum myndum og skemmtilegum karakterum en undirtónninn væri sjálfsstyrking. Þannig að ég væri að efla þau í leiðinni en þau myndu kannski ekkert endilega taka eftir því meðan þau væru að lesa. Þetta á að vera skemmtileg og fyndin bók sem fjallar um strákinn Orra sem kallar sjálfan sig Orra óstöðvandi þegar hann vantar sjálfstraust og hugrekki.

Ég fjalla um hluti í bókinni eins og jákvætt sjálfstal, sjálfstraust, stjórn á neikvæðum hugsunum, markmið og fleira án þess að krakkarnir upplifi þetta sem kennslubók. Svo verða lesendur að dæma hvernig til tókst.“

Það er auðheyrt að Bjarna er það mikið hjartans mál að stuðla að sjálfsstyrkingu hjá krökkum, efla þau svo þau geti betur tekist á við lífið. „Þessi áhugi minn byrjar út frá námi mínu í sálfræði. Ég fór að stúdera stráka og þeirra líðan og fann út að það hafði ekki verið lögð nægileg áhersla á að efla þá. Ég lærði líka mikið út frá því að vera í atvinnumennsku í handbolta þar sem ég rakst á marga veggi og þurfti að treysta á sjálfan mig. Þetta varð síðan að algjörri ástríðu hjá mér og ég hef leyft þessu að þróast og starfa nú að stórum hluta við að halda námskeið sem miða að því að styrkja stráka og kenna þeim á sjálfa sig,“ segir Bjarni sem auk þess þjálfar meistaraflokk ÍR í handbolta.

Hann vinnur mikið heima og segir það dýrmætt að geta verið til staðar þegar börnin koma heim, en hann og eiginkona hans eiga tvo drengi á grunnskólaaldri og stelpu á leikskóla. „Ég er eiginlega alltaf heima þegar strákarnir koma heim úr skólanum. Get alltaf tekið spjall við þá og fylgst með hvernig þeim líður. Heyri alltaf í þeim eftir skóla og get tekið púlsinn á þeim. Mér finnst ég mjög lánsamur að gera það sem ég er að gera og geta stýrt tímanum mínum svona.“

Bjarni Fritzson rithöfundur vinnur að heiman frá sér og segist …
Bjarni Fritzson rithöfundur vinnur að heiman frá sér og segist afar lánsamur að geta verið heima þegar synirnir koma heim úr skóla. Haraldur Jónasson/Hari


Fór sjálfur út fyrir kassann

Bjarni kennir strákum að hafa hugrekki til að prófa eitthvað sem þeir hafa ekki gert áður, fara út fyrir kassann. Hann þurfti sjálfur að leita í þetta hugrekki þegar hann ákvað að skrifa og gefa út skáldsögu, nokkuð sem hann hafði ekki gert áður. „Ég fann það bara strax að mig langaði að prófa þetta. Byrjaði bara að setja upp senur og svo rúllaði þetta áfram. Ég vildi gera eins góða barnabók og ég mögulega gæti. En mig langaði að gera þetta sem mest sjálfur, vildi ekki of mikla ritstýringu. Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst gaman að stjórna,“ segir hann og hlær.

Hann var þó ófeiminn við að þiggja góð ráð. Þau fékk hann helst hjá Guðrúnu Láru Pétursdóttur bókmenntafræðingi og frá Dröfn Vilhjálmsdóttur bókasafnsfræðingi í Seljaskóla. „Ég tók eins mikið úr þeirra viskubrunni og ég gat. Þær gáfu mér báðar marga góða punkta sem ég vann með eftir fyrsta uppkastið. En ég gerði bókað fullt af mistökum í þessari bók. Maður verður að hafa hugrekki til að prófa, þora að taka slaginn þrátt fyrir óttann við mistök. Þetta snýst aðallega um að vita að maður gerði sitt allra besta og þá er auðvelt að vera sáttur við útkomuna, svo læri ég bara af mistökunum og geri betur næst. Ég er alltaf að segja þetta á námskeiðunum og verð að standa við það sjálfur: Gerðu allt sem þú getur og gerðu það eins vel og þú getur,“ segir Bjarni sem einnig naut leiðsagnar sona sinna við skrifin. Í bókinni er fjöldi teikninga eftir Þorvald Sævar Gunnarsson sem gæða persónur bókarinnar, þau Orra óstöðvandi, Möggu Messi og fleiri, lífi. 

„Hann Doddi er algjör snillingur og á risastóran þátt í velgengni bókarinnar,“ segir Bjarni sem hefur fengið góð viðbrögð frá krökkum. „Ég kem í marga flotta skóla og hitti þar fullt af skemmtilegum krökkum. Ég er mjög þakklátur fyrir að fá að hitta krakkana í skólunum og strax kominn með hugmyndir frá þeim að því hvernig næsta bók verður.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka