Þegar sögur renna úr pennanum

Sigríður Ólafsdóttir bjó til ævintýrið um Rípu og Lóu fyrir ...
Sigríður Ólafsdóttir bjó til ævintýrið um Rípu og Lóu fyrir börnin sín þegar þau voru ung. Hér er hún mynduð af Helenu barnabarni sínu sem er þriggja ára að aldri. Ljósmynd/Helena 3 ára

Sigríður Ólafsdóttir fyrrum héraðsdómari í Reykjavík gaf nýverið frá sér barnabókina Rípa, en það er Óðinsauga ehf., sem ber veg og vanda af útgáfunni. Sagan fjallar um vináttu tröllastelpunnar Rípu og mannastelpunnar Lóu. Upphaf sögunnar rekur Sigríður til barnæsku sinna eigin barna. Rípa er búin að fylgja fjölskyldunni í gegnum tíðina og ævintýri hennar hafa verið allmörg.

„Þetta er ævintýrabók með gríðarlega skemmtilegum myndum sem Freydís Kristjánsdóttir mynlistamaður vann. Ég tel að texti bókarinnar hæfi öllum þokkalega læsum börnum, frá ca 7 ára aldri og áfram, en yngri börn geta án efa einnig notið bókarinnar með því að skoða myndirnar og hlýða á söguna um leið.“

Freydís Kristjánsdóttir skreytti bók Sigríðar um tröllastelpuna Rípu og mannastelpuna ...
Freydís Kristjánsdóttir skreytti bók Sigríðar um tröllastelpuna Rípu og mannastelpuna Lóu. Ljósmynd/Aðsend

Uppkomin börn Sigríðar hvöttu móður sína til að festa söguna um Rípu á blað. Þeim þótti vænt um ævintýrið og vildu að sagan gæti snert við fleiri börnum.

Er ákveðinn boðskapur með sögunni?

„Ég get ekki sagt að ég hafi skrifað söguna með einhvern meðvitaðan boðskap í huga, þetta er meira ævintýri sem ég greip til hér áður fyrr þegar ég var að svæfa börnin mín. Með tilkomu bókarinnar hefur sagan stækkað og breyst. Hin vegar var sagan til í kollinum á mér og rann út úr pennanum ef svo má að orði komast, þegar ég fór að skrá hana.“

Hvernig eru störf héraðsdómara og ritstörf samanborin við hvort annað?

„Ég get nú ekki sagt að ég sé rithöfundur að starfi. Sagan um Rípu og Lóu er önnur bók mín, en fyrir þremur árum, reyndar á 70 ára afmælisdegi mínum, kom út eftir mig ljóðabókin Bikarinn tæmdur. Hins vegar má segja að störf dómara séu að miklu leyti fólgin í ritstörfum, þ.e. samningu dóma, þótt eðli þeirra ritstarfa sé afar frábrugðið því að semja ljóð eða skáldsögu.“

Sigríður segir að viðtökur við bókinni Rípu hafi verið framar öllum vonum. Henni þyki vænt um allar þær fallegu kveðjur sem hún hafi fengið, m.a. í gegnum samfélagsmiðla, þar sem fólk er þakklátt fyrir að geta valið gjafir, m.a. fyrir barnabörnin um jólin sem tengjast ævintýrum á þessu formi. Hún nefnir sem dæmi að einn átta ára lesandi hafi sagt eftir lesturinn „þetta er sko alvöru saga“.

Hvernig lýsir þú með eigin orðum afstöðu mannastelpunnar til lífsins miðað við tröllastelpuna?

„Líf tröllastelpunnar hefur verið óbreytt í þúsundir ára á meðan mannastelpan gengur í gegnum miklar breytingar eins og öll okkar mannabörn gera. Tröllin vilja halda sínum heimi óbreyttum, meðan allt gengur út á nýjungar í mannheimum. Þó að bókin hafi ekki verið skrifuð með sérstakan boðskap í huga, þá hef ég heyrt frá lesendum að í henni megi finna góðan boðskap, sem lýsi m.a. samkennd og vináttu. Bókin er ekki hugsuð sem ádeila á eitt eða neitt. Hún er meira í ævintýrastíl og flæðandi. Svona eins og gerist og gengur þegar sögur renna úr pennanum.“

mbl.is