Aniston var sjálf aldrei nógu sæt

Jennifer Aniston, stjórnsöm fyrrverandi fegurðardrottning í kvikmyndinni Dumplin.
Jennifer Aniston, stjórnsöm fyrrverandi fegurðardrottning í kvikmyndinni Dumplin. Ljósmynd/skjáskot Instgram

Margir hafa beðið spenntir eftir kvikmyndinni Dumplin á Netflix þar sem Jennifer Aniston leikur stjórnsama móður, fyrrverandi fegurðardrottningu sem á dóttur sem hún veit illa hvað hún á að gera við. Dóttirin er hæfileikarík en alls ekki eins og móðirin sá fyrir sér að hún yrði útlitslega séð. 

Aðspurð hvort Aniston þekki mæðgnadeilur segir hún í viðtalið við The Telegraph að hún hafi sjálf alist upp við kröfur sem hún gat ekki uppfyllt sem barn. Móðir hennar, Nancy Dow, lést í maí árið 2016.  

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska þetta hlutverk er að ég og móðir mín áttum svipað samband. Hún var fyrirsæta og lagði mikið upp úr framkomu og því hvernig ég leit út. Ég leit ekki út eins og fyrirsæta í æsku, og hefði viljað upplifa skilyrðislausa ást í staðinn fyrir að þurfa að standa undir einhverju sem ég ekki gat.

Kvikmyndin skiptir máli því að hún bendir á það sem við verðum öll að hafa hugfast. Við verðum að fá að vera við sjálf, en ekki eitthvað sem samfélagið vill að við séum.“

Aniston lét hafa eftir sér við The Hollywood Reporter árið 2015 að móðir hennar hafi alla tíð verið dómhörð á hana. „Af því hún var fyrirsæta, hún var æðisleg og ég ekki. Ég stóð aldrei undir væntingum hennar og satt best að segja finnst mér ég enn þá ekki gera það.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert