Börnin á vökudeild eru kraftaverk

Foreldrarnir fá að gera góðu hlutina með börnunum, knúsa þau …
Foreldrarnir fá að gera góðu hlutina með börnunum, knúsa þau og gefa þeim ást að sögn Elínar. mbl.is/Thinkstockphotos

Elín Ögmundsdóttir starfar á vökudeild Barnaspítala Hringsins og er félagskona í Hringnum. Hún segir frá sinni upplifun af jólunum. 

„Það er mjög gefandi og yfirleitt gaman. Sem betur fer gengur oftast vel með litlu börnin sem við sinnum en starfið getur vissulega tekið á. En við gerum stöðugt okkar besta og sinnum krefjandi starfi sem gefur okkur til baka,“ segir Elín spurð að því hvernig sé að starfa á vökudeild.

Hvernig eru jólin hjá þér?

„Þau eru yndisleg, en einkennast að sjálfsögðu af því að ég vinn vaktavinnu og er stundum á vakt um jólin. En það hefur allt gengið ótrúlega vel, það er alltaf hátíðlegt um jólin, hvort heldur sem er þegar ég er heima eða hjá börnunum um jólin.“

Hvernig lýsirðu aðfangadegi jóla uppi á vökudeild?

„Við hvetjum foreldrana til að vera heima að borða með fólkinu sínu, sér í lagi ef þau eiga eldri börn sem eiga eftir að muna eftir jólunum. Við borðum saman á deildinni, reynum að eiga góða stund saman ef aðstæður leyfa, gefum hvert öðru gjafir og höfum jólalega stemningu fyrir okkur og börnin. Þessi börn á vökudeild eru svo mikil kraftaverk og eru í raun alveg ótrúlega sterk þótt þau séu lítil. Þú getur verið mikill karakter þótt þú vegir einungis 500-600 g! Við kynnumst persónu þeirra strax og þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Við reynum að hafa huggulegt og rólegt í kringum þau á jólunum, skreytum aðeins í kring og höfum aðstæðurnar þannig að þeim líði sem best.“

Elín Ögmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á vökudeild Barnaspítala Hringsins.
Elín Ögmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á vökudeild Barnaspítala Hringsins.

Öll fjölskyldan okkar skjólstæðingur

Elín segir misjafnt hversu mikla umönnun börnin þurfa.

„Sum þurfa aðstoð með öndun, að halda á sér hita og aðstoð við að nærast. Starf okkar felst í þessari umönnun; að hafa jafnvægið sem best í kringum þau svo þau nái að vaxa og dafna. Foreldrarnir eru mikið hjá okkur og því lítum við svo á að öll fjölskyldan sé skjólstæðingur okkar á vökudeildinni. Foreldrarnir fá að gera góðu hlutina með börnunum, knúsa þau og gefa þeim ást. Búa til allan þennan góða tíma sem barnið þarf. Á nóttunni þegar foreldrarnir eru heima að hvíla sig þá tökum við að okkur að sinna börnunum. Ef þau þurfa knús þá fá þau knús.“

Hvað gefur þetta starf?

„Fyrir jólin fáum við mikið af jólakortum þar sem við fáum að fylgjast með börnunum sem hafa verið hjá okkur vaxa og dafna. Eins koma sumir í heimsókn fyrir jólin. Það er gefandi að fá að fylgjast með fjölskyldunum áfram.“

Alltaf með súpu á Þorláksmessukvöld

Þegar kemur að því sem er ómissandi um jólin nefnir Elín eiginmann sinn, sem sér að mestu um jólaundirbúninginn þar sem hún þarf reglulega að vera frá vegna vinnunnar.

„Jólin eru yndislegur tími og það eru nokkrir hlutir sem hafa fest sig í sessi hjá okkur. Sem dæmi erum við alltaf með súpu á Þorláksmessukvöld. Við búum í miðborginni og erum með opið hús fyrir gesti og gangandi sem eru að koma úr rölti úr bænum. Sú hefð skiptir mig alltaf miklu máli. Síðan njótum við jólanna í faðmi fjölskyldunnar, förum á tónleika, borðum góðan mat og eigum stundir saman.“

Hvernig getur almenningur stutt starf ykkar í Hringnum?

„Með því að kaupa jólakortin okkar, verða vinir félagsins, mæta á viðburðina okkar, til dæmis jólakaffið í Hörpu í byrjun desember og þar fram eftir götunum. Móðurhjartað í landinu slær í gegnum þetta félag og við viljum að sem flestir taki þátt með okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert