Missti barn drauma sinna

Árið 2018 var bæði gott og slæmt hjá kanadísku leikkonunni.
Árið 2018 var bæði gott og slæmt hjá kanadísku leikkonunni. AFP

Miðað við myndir á Instagram virðist Pretty Little Liars-leikkonan Shay Mitchell hafa átt ansi gott ár. Ekki er þó allt sem sýnist og greindi leikkonan frá því í ársuppgjöri sínu á samfélagsmiðlinum að hún hefði misst fóstur á árinu sem var að líða. 

„Þrátt fyrir að árið hafi verið frábært leið það ekki án erfiðleika,“ skrifaði Mithcell í Instagram-sögu sína og birti mynd af sónar og brotnu hjarta. Barnið hefði verið fyrsta barn Mitchell sem er 31 árs og gerir það nú gott í þáttunum You á Netflix. 

Hún þakkaði fylgjendum sínum fyrir stuðninginn á sínum verstu dögum en hún sagðist hafa upplifað einn slíkan á árinu 2018. „Ég missti fóstur og missti barn vona minna og drauma,“ skrifaði Mitchell. 

Með því að sýna hvað hún gekk í gegnum á árinu þrátt fyrir það sem birtist á Instagram-síðu hennar vildi leikkonan minna á að fólk veit sjaldnast hvað annað fólk er að ganga í gegnum. Mitchell finnst það því gott áramótaheit að sýna öðru fólki meiri samúð og þolinmæði. 

Shay Mitchell birti sónarmynd á Instagram en hún missti fóstur ...
Shay Mitchell birti sónarmynd á Instagram en hún missti fóstur árið 2018. skjáskot/Instagram
Shay Mitchell birti skilaboð á Instagram á nýju ári.
Shay Mitchell birti skilaboð á Instagram á nýju ári. skjáskot/Instagram
mbl.is