Er barnið þitt með matarfíkn?

mbl.is/Thinkstockphotos

Esther Helga Guðmundsdóttir ráðgjafi hjá MFM Matar-fíknimiðstöðinni hefur starfað með fólki víða um heiminn í baráttu sinni fyrir betri meðvitund um málefni er varða offitu og matarfíkn. Esther bendir á að niðurstöður nýrra rannsókna sýna að 30% landsmanna gætu verið haldin matarfíkn. Hún segir sjúkdóminn fjölskyldusjúkdóm og með því að vera meðvitaður um matarfíkn sem foreldri megi hjálpa börnum sem eru að kljást við vandamálið. 

Við erum vanmáttug gagnvart málefnum barna í tengslum við matarfíkn. Ef einn einstaklingur í fjölskyldunni sýnir slík einkenni má sjá hvernig áhrif það hefur á alla fjölskylduna,“ segir Esther.

Hvernig lýsir matarfíkn sér hjá börnum?

„Barnið borðar yfir tilfinningalega líðan sína. Það verður oft og tíðum upptekið af mat og fer í matarskápana eftir og á milli matartíma. Eins og það nái ekki að verða satt eftir málsverðinn. Barnið sýnir ákveðið stjórnleysi og nær ekki að halda sér við eðlilegan matarskammt. Félagsleg einangrun er eitt einkenni sjúkdómsins, að fela átið er annað einkenni. Barnið er ekki frjálst gagnvart mat og velur sér matartegundir sem ýta undir löngun í meira.“

Upplýsingar til foreldra

„Börn gera sér litla grein fyrir eðli sjúkdómsins eða hvað liggur að baki. Við þurfum að takast á við þessa áskorun frá tveimur hliðum. Annars vegar að skoða hugsanlegan tilfinningavanda sem gæti legið að baki átinu. Dæmi um hann geta verið afleiðingar af áföllum, einelti eða tengslaröskun innan fjölskyldu. Hinsvegar þarf að huga að því hvað barnið er að borða.

Hvað erum við að bjóða börnunum okkar upp á? Ákveðnar matartegundir geta virkað eins og fíkniefni í líkama okkar. Ég hef bent á þetta lengi. Dæmi um þetta er að sykri er bætt í u.þ.b. 80% af allri framleiddri fæðu og hefur sýnt sig að geta verið ávanabindandi fyrir matarfíkla. Í raun þarf að fara með alla fjölskylduna í matarmeðferð, einskonar afvötnun. Það er ekki í lagi að aðrir fjölskyldumeðlimir borði þessi matvæli og svo sé ætlast til þess að eitt barnið sem er stjórnlaust sé á öðru mataræði. Þetta er í raun og veru kjarninn í því sem foreldrar þurfa að huga að.“

Ísland skarar framúr

Hvar stendur Ísland í þessum málum?

„Við vitum að samkvæmt tölulegum upplýsingum eru um 60% af fólki hér á landi of þungt og um 30% í mikilli offitu.“

Getur þú lýst dæmigerðu stjórnleysi hjá barni með mat?

„Mér hefur fundist að eftirmiðdagar séu sá tími dagsins sem getur verið hættutími. Börnin koma heim eftir erfiðan dag í skólanum og þau eru þreytt, svöng og stundum í vanlíðan. Þá fá þau sér kex í skúffunni heima, brauðmeti eða eru með fjármuni til að versla sér snúð eða bakkelsi sem þau nota til að róa sig eða breyta hugarástandi. Eftir því sem stjórnleysið eykst fara þau að leita í meira mæli í þessar fæðutegundir. Þeir upplifa þá einhverskonar líðan með því að borða til dæmis snúð. Snúðurinn gefur þeim róandi eða slakandi vellíðunartilfinningu. Þeir krakkar sem missa stjórnina eru líklega að glíma við einhverskonar líðan sem þau upplifa að snúðurinn róar. Vert er að minnast á að vissar fæðutegundir gefa vellíðan eða líkamlega ílöngun sem kviknar með neyslu þessara matartegunda.“

Offita í góðum fjölskyldum

Byrjunareinkenni eru oft að börn og unglingar byrja að þyngjast. „Þau verða búttuð og foreldararnir byrja að hafa áhyggjur og leggja til við börnin að þau minnki neysluna. Börn eru svo opin sem er gott. En eftir einhvern tíma sjáum við þau byrja að fela stjórnleysið, verða vanmáttug fyrir því og reyna að finna eigin leiðir þar sem þeim finnst kannski enginn skilja þau. Þegar börn byrja að þyngjast lenda þau oft í stríðni eða einelti sem eykur á vanlíðan. Eins geta börnin byrjað að borða yfir tilfinningar ef þau hafa upplifað áföll eða tenglaröskun í æsku. Hér er ekki verið að tala um gott eða slæmt uppeldi. Margar góðar fjölskyldur upplifa áföll. Lífið er verkefni og fólk misvel búið til að takast á við tilfinningar sem koma í kjölfar verkefna eða áfalla. Hluti fíknarinnar er þannig að ílöngunin verður meiri, börn byrja að mynda þol fyrir vissum matartegundum og þau sækja í meira.“

Esther segir að það sé vandmeðfarið að vinna með matarfíkn hjá börnum. „Það sem ég hef séð að geti hjálpað með þennan aldursflokk er að fara til efnaskiptalæknis, og fá úr skorið hvort um er að ræða skjaldkirtils- eða efnaskiptavandamál. Læknar sem starfa með þessi mál benda foreldrum oft á góðar leiðir til að breyta mataræðinu, en þannig er jafnvel hægt að snúa við þessari þróun sem á sér stað hjá barninu ef hún byggist á fíkn.“

Fagnám fyrir sérfræðinga

Esther hefur ásamt helstu meðferðaraðilum á þessu sviði sett af stað fagnám um meðferðir við matarfíkn, sem hefur að markmiði að ná fólki úr ólíkum fagstéttum saman og fræðast um matarfíkn og þær meðferðarleiðir sem eru að sýna góðan árangur. „Þær meðferðir sem eru í boði í dag tengdar ofþyngdarvanda og byggjast ekki á aðferðum sem halda fíkn niðri hafa ekki sýnt árangur sem skyldi. Niðurstöður rannsókna sýna að undir 5% þeirra sem sækja slíkar meðferðir ná langtíma bata. Hins vegar sýna rannsóknir að með öflugri aðgerð, s.s. fráhaldi frá fíknivaldandi matvælum, úrvinnslu tilfinninga og heildstæðri nálgun þar sem við nálgumst offitu út frá fíkn, þá má búast við að 30% matarfíkla nái langtímaárangri meðferðar, 60% ná árangri á fyrsta ári (niðurstöður athugunar á vegum Matarheilla og MFM miðstöðvarinnar).“

Detox-ferðir með fjölskyldunni

Esther vinnur sjálf ekki með börnum, en hefur tekið foreldra þeirra í viðtöl. Einstaka sinnum koma börnin með foreldrunum. ,,Það sem ég legg áherslu á er lífsstílsbreyting sem felur í sér að sleppa miklu af fjöldaframleiddum fæðutegundum og mat með sykri og sterkju. En fjölskyldan gæti þurft að fara í gegnum afeitrun, og til þess að gæti þurft fagaðila með í verkefnið. Ég hef getað veitt ákveðinn stuðning og leiðbeiningar, en það vantar tilfinnanlega betri hjálp fyrir fjölskyldur í þessum vanda.

En auðvitað hef ég heyrt af fjölskyldum sem fara upp í sumarbústað, með hollan mat og leyfa börnunum að leika og skemmta sér og fá góða næringu. Það er frábær leið til að afeitra í góðu umhverfi. Þau sleppa því þá að taka með gos og nammi í sveitina og bjóða upp á fallegan og hollan einfaldan mat.“

Hvaða einkenni gæti fjölskyldan átt von á í upphafi slíkrar ferðar? „Ef viðkomandi sleppa sykri og hveiti, má eiga von á tilfinningalegu ójafnvægi og viðkvæmni. Síðan koma líkamleg einkenni, sem geta lýst sér sem flensueinkenni, vöðvaverkir, höfuðverkur og ógleðitilfinning. Magaóþægindi eru algeng, jafnvel hægðatregða eða niðurgangur. Þá er gott að vinna í magaflórunni. Þú manst eftir Jens í Karíus og Baktus, þegar hann hætti að borða sykur og franskt brauð? Það eru fyrst og fremst sýkingar í þörmunum sem eru að kalla eftir meiru, við erum ekki svöng þegar við borðum holla og vel samsetta fæðu, en á meðan á hreinsunarferlinu stendur getur komið upp þessi falska löngun í eitthvað annað en við erum að borða. Það er hinsvegar magnað að sjá hvað viðkomandi verður fljótt saddur af hollum mat á meðan hann virðist geta borðað endalaust af kökum, skyndibita og sykri. Eftir afvötnun sem tekur nokkra daga, upplifir viðkomandi þennan innri frið. Þá er eins og slökkt sé á græðgi, ílöngun og hömlulausum hugsunum um hvað við ætlum að borða og hvað ekki. Við vitum að þegar við fáum t.d. þrjár góðar máltíðir á dag, sem innihalda rétt magn af grænmeti, fitu og próteini þannig að líkaminn er að fá alla þá næringu sem hann þarf, að þá upplifum við ró í huga og líkama. Auðvitað koma upp tilfinningar, atburðir eða annað sem kveikja á löngun í slökun. En þá má alltaf greiða úr tilfinningunum á heilbrigðan hátt, þar sem talað er um hlutina og lausnirnar fundnar með heilbrigðum og uppbyggjandi leiðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert