Ekki kalla ólétta konu stóra, feita, svera ...

Ásta Sóley Gísladóttir á von á sínu öðru barni.
Ásta Sóley Gísladóttir á von á sínu öðru barni.

„Ekki kalla ólétta konu stóra, feita, svera, eða spyrja hana hvort hún sé með tvíbura. Já, eða segja við hana að hún geti varla verið ólétt af því það sjáist ekki á henni eða spyrja hvar hún geymi þetta barn eiginlega. Ég lenti í því bara síðast núna í vikunni að ókunnug kona kom að mér í 70 ára afmælinu hjá ömmu minni og sagði við mig: „VÁ! Ert þú bara að fara að eiga á morgun eða?“ segir Ásta Sóley Gísladóttir í bloggfærslu á Narnia.is: 

Ásta Sóley er 22 ára að verða 23 ára. Hún ...
Ásta Sóley er 22 ára að verða 23 ára. Hún býr í Hafnarfirði og á von á sínu öðru barni.

Nú geng ég með mitt annað barn sem á að mæta í heiminn fljótlega og ég fæ reglulega að heyra hvað ég sé stór, sver og hvort það sé örugglega bara eitt þarna inni. Ég veit ekki alveg hvað fer í gegnum huga fólks þegar það lætur þessi orð út úr sér en eitt get ég sagt ykkur;  þessi orð særa mig.

Ég veit um mörg svona dæmi hjá öðrum konum og held ég að engri konu finnst skemmtilegt að heyra svona óþarfa athugasemd. Ég hef fengið að heyra þau síðan það byrjaði að sjást á mér og mér finnst þetta alltaf jafn sárt og leiðinlegt. Ekki samt misskilja mig, það má alveg tala um óléttuna og bumbuna en það er hægt að fara fínna í það en að segja bara beint út „VÁ hvað þú ert stór!“.  Svo er líka allt í lagi að hrósa bara og segja „þú lítur vel út.

Ég fæ líka ansi oft að heyra „Vá þú hlýtur að ganga mér RISA stórt barn!“. Þetta eru ekki beint hughreystandi orð að heyra svona rétt fyrir fæðingu get ég sagt ykkur. Þetta barn er að fara að koma út úr leggöngunum mínum og þessi orð fara rosalega í mig, sérstaklega af því að Viktoría Sól fæddist mjög stór, var skökk í grindinni og það þurfti að draga hana í heiminn með töngum. Ég kvíði því mjög fyrir komandi fæðingu. Ég er að reyna að byggja upp styrk og vinna í kvíðanum en í hvert skipti sem einhver segir þetta við mig þá brotna ég alltaf niður og slæmu hugsanirnar taka yfir. 

Ásta Sóley á dóttur sem er fædd árið 2016.
Ásta Sóley á dóttur sem er fædd árið 2016.

Hvernig væri ef  fólk myndi hætta að segja óléttum konum hvernig þær líta út? Hvort sem þær séu með stóra kúlu, litla eða venjulega (hvað er venjuleg kúla annars?)? Það er alveg ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að segja hvað sem er við óléttar konur,  þó svo að þér finnist þetta kannski ekki hafa nein áhrif þá gæti konunni fundist þetta leiðinlegt. Við skulum ekki gleyma að engin meðganga og engin bumba er eins og konur eru mis viðkvæmar. Það getur vel verið að þetta fari ekki í taugarnar á sumum konum en þetta fer alveg svakalega í mig.                                                                       

Ég þurfti aðeins að fá að pústa smá svona á lokametrunum á þessari meðgöngu, við fjölskyldan erum svo spennt að fá litla prinsinn okkar í heiminn og sem betur fer styttist í hann.

Þið getið fylgst  með mér á Instagram – astasoley23

mbl.is