Hrefna Sætran er fyrirmyndarmóðir

Hrefna Rósa Sætran setur litla skammta á diskinn sinn heima. …
Hrefna Rósa Sætran setur litla skammta á diskinn sinn heima. Börnin fá frelsi til að setja á sinn disk svo þau geti þróað bragðlaukana hægt og rólega á eigin hraða. Ljósmynd/Aðsend

Hrefna Rósa Sætran er algjör meistari þegar kemur að mat. En það sem færri vita um hana er að hún er með skemmtilega leið þegar kemur að uppeldi barna sinna. Hún segist vanda sig í því að vera afslöppuð þegar hún er heima. Hún hefur einfalda hluti í forgrunni þegar kemur að uppeldi barna sinna. Að draga djúpt andann sjálf, sleppa símanum og búa til girnilegt nesti svo dæmi séu tekin.

„Börnin mín tvö eru fimm og sjö ára gömul. Við hjónin ölum þau upp saman í mikilli samvinnu. Ég vinn mikið og hann líka, en við gefum heimilinu og börnunum góðan tíma sem væri ekki hægt nema vegna þessarar samvinnu.“

Hrefna Rósa segist nýverið hafa ákveðið að skilja símann eftir í hleðslu í forstofunni heima hjá sér. Hún sér mikinn mun á börnunum út af þessari einföldu aðgerð. Sjálf er hún þá með betri athygli á heimilinu, það kemur yfir alla ró og friður sem er andrúmsloft sem hentar heimilisfólkinu vel.  „Ég trúi því að konan á heimilinu ráði yfir súrefninu og andrúmsloftinu. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að reyna að anda rólega og vera besta útgáfan af mér heima. Ég hef gaman af því að leggja mitt af mörkum með hluti sem ég er góð í. Sem dæmi er nesti barnanna fjölbreytilegt. Ég reyni að gera chia-graut minnst einu sinni í viku. Ég hef vanalega einn ost í nestinu, ef ég er með samloku sker ég hana í marga fallega bita. Ég reyni jafnframt að blanda grænmeti og ávöxtum við nestið. Ég reyni að passa að áferðin á matnum sé mismunandi. Ekki allt bara mjúkt heldur líka stökkt og ferskt.“

View this post on Instagram

Nesti 🍅🥒 #icelandicbentoboxnesti

A post shared by Hrefna Rósa Sætran (@hrefnasaetran) on Jan 9, 2019 at 12:24am PST

Hrefna Rósa segir mikilvægt að hafa skammtastærðirnar fyrir börnin ekki of miklar. Hún hefur þetta líka hugfast á kvöldin þegar maturinn er lagður á borð. „Við höfum alltaf boðið börnunum upp á það sama og við fáum okkur. Enda þykir mér mikilvægt að börn fái að þróa bragðlaukana jafnt og þétt. Það sem við gerum hjá okkur er að við leyfum börnunum að setja mat á diskinn sinn sjálf, þá geta þau valið hvað þau vilja borða. Við setjum litla skammta á diskinn í einu, og fáum okkur þá bara oftar en einu sinni á diskinn. Það kemur líka í veg fyrir að við fullorðna fólkið borðum of mikið, eins verður minni matarsóun fyrir vikið.“

Hrefna Rósa hugleiðir með fjölskyldunni og segir að það komi á ró og frið í huga þeirra sem búa á heimilinu. „Mig langar að börnin mín læri að vera ánægð með sig sjálf og það sem þau gera í lífinu. Eins finnst mér mikilvægt að þau fái í gegnum uppeldið þessa andlegu ró og frið í hjartað.“

Fjölskyldan er Hrefnu Rósu hugleikin. Nýlega byrjaði hún að bjóða upp á barna-brunch á Skelfiskmarkaðnum um helgar. „Þá fá börnin alvöruhráefni, beikon og egg og pönnukökur. Heilsusamlegan safa og litabók og liti. Þetta hefur gefist mjög vel og við hlökkum til að taka á móti fleiri barnafjölskyldum sem langar að eiga góða stund á stað þar sem börnum er gert hátt undir höfði líka.“

Þegar kemur að samvinnu þeirra hjóna við að ala upp börnin, segir hún að jafnrétti sé ofarlega í huga barna hennar. „Ég var einmitt spurð að því hvenær jólasveinakonan kæmi að gefa í skóinn, sem mér fannst fallegt. Kannski er jafn eðlilegt að til séu jólasveinakonur og karlar. Börnin sjá alltaf hlutina svo fallega rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert