5 uppeldisráð Guðrúnar Ágústsdóttur

Guðrún B. Ágústsdóttir er einn virtasti ráðgjafi landsins þegar kemur …
Guðrún B. Ágústsdóttir er einn virtasti ráðgjafi landsins þegar kemur að unglingum í vanda og fjölskyldum þeirra. Hún er ICADC-ráðgjafi sem starfar hjá Foreldrahúsi. Ljósmynd/Hari

Guðrún B Ágústsdóttir er einn virtasti ráðgjafi landsins þegar kemur að unglingum í vanda og fjölskyldum þeirra. Hún er ICADC-ráðgjafi með menntun og áratugareynslu af vinnu við áfengis- og vímuefnameðferð á meðferðarstofnunum í Svíþjóð og á Íslandi.   

Hún er ótrúlega heillandi viðmælandi sem hefur veitt fjölskyldum ráðgjöf í gegnum tíðina sem virka.

Hér koma fimm uppeldisráð sem gott er að hafa í huga ef foreldrar vilja stuðla að því að ala upp unga einstaklinga með forvörn í huga.

1. Þú ert foreldrið og verður að ráða

„„Þú ræður ekki yfir mér!“ er setning sem ég heyri allt of oft í dag hjá 13 - 14 ára krökkum sem hafa fengið að vera í svo mikilli samvinnu með uppeldið sitt að þau hafa ekki hugmynd um að það er foreldrið sem setur reglurnar en ekki þau. Núvitund, flæði og fleira er gott og gilt en þegar þetta er farið að vera þannig að fólk verður algjörlega markalaust, þá er það hættulegt fyrir unga fólkið okkar sem er hvatvíst og hefur gaman af því að prófa nýja hluti. 

Við getum öll gert ráð fyrir því að börn verði í fyrstu smá brjáluð þegar þeim eru sett mörk, það hefur alltaf verið þannig og mun alltaf verða. Mörk eru sett til að vernda börnin og einnig til að kenna þeim að setja mörk sjálf.“

2. Kenndu börnunum þínum að segja nei

„Ef þú segir nei við barnið þitt þá lærir það að segja nei við aðra. Ef þú hins vegar þorir aldrei að segja nei við barnið þitt, þá þorir barnið þitt heldur ekki að segja nei við þá sem biðja það um að prófa kannabis og fleira sem er skaðlegt heilsu þeirra. Foreldrar þurfa að sýna gott fordæmi og geta haft þetta hugfast ef þeir eiga erfitt með að setja mörk, segja nei og standa við það sem þeir segja.“

Ekki treysta börnunum fyrir fram

„Það er hluti af uppeldi okkar að vita hvar börnin okkar eru. Hverja þau umgangast og fleira í þeim dúrnum. Við þurfum að venja krakka á að láta vita hvar þeir eru þegar þeir eru börn, síðan þegar þeir verða unglingar, þá er það orðið að vana hjá þeim að láta vita af sér. 

Unglingar hafa ekkert breyst í gegnum árin. Þeir eru eins áhættusæknir og þeir hafa alltaf verið, hins vegar hefur ýmislegt breyst hjá okkur á undanförnum árum, þar sem ég er á því að ekki sé verið að halda eins vel utan um krakka og var gert fyrir nokkru síðan. 

Rannsóknir sýna að börnin okkar eru í góðum málum, þau séu að drekka minna og fleira í þeim dúrnum. En það er bara alls ekki það sem við erum að upplifa í Foreldrahúsi. Krakkar eru farnir að neyta annarra efna en áfengis, þau geta farið fljótt í harða neyslu og telja ekki svo alvarlegt að prófa sem dæmi kannabis, þar sem verið er að lögleiða efnið víða um heiminn.“

3. Segjum börnunum frá okkur

„Ég hef tekið eftir því í viðtölum að börn vita svo lítið um foreldra sína. Þau vita kannski að pabbi fór í meðferð, en ekki af hverju eða hvenær. Þau vita að foreldrarnir hafa skilið, en ekki meira um það. Við þurfum ekki að ofvernda börnin okkar of mikið. Eins þurfum við að kenna þeim seiglu. Ef þau lenda í erfiðum hlutum þá verðum við að kenna þeim að ráða fram úr hlutunum. 

Allir eiga skilið annað tækifæri. Það er allt í lagi að gera mistök, ef maður lærir af þeim og gerir betur. Eins getur margt verið gott þó eitthvað eitt slæmt gerist. Þetta eru hlutir sem við notum mikið í okkar viðtölum.“

4. Kennið börnum ykkar að enginn græði á því að vera í neyslu

„Börnin ykkar munu heyra margt í samfélaginu sem er gott um það að neyta efna. Herferð samfélagsins virðist vera öll á þann hátt. Þið foreldrar verðið að kenna börnunum ykkar sannleikann um hvað það felur í sér að drekka áfengi og neyta eiturlyfja. Ég hef starfað sem ráðgjafi lengi og aldrei hitt fyrir einstakling sem hefur haft gott af slíku. Flestir krakkarnir lenda í hremmingum sem þau þurfa að vinna úr lengi. Þau missa úr skóla, þau upplifa andlegar og líkamlegar breytingar. Þau eru öll ver stödd eftir neyslu, heldur en áður en þau fóru í hana.“

5. Allir eiga skilið annað tækifæri

„Alið börnin ykkar upp við að allir geri mistök, og það sé réttur allra að fá annað tækifæri. Ekki fela fyrir börnunum ykkar, þegar þið gerið mistök, því þá missið þið af því að kenna þeim seiglu.

Það eiga allir skilið annað tækifæri. Krökkum getur orðið á, þeir geta unnið úr sínum málum og fengið lausn og lifað góðu lífi.“

mbl.is