Allir eiga skilið annað tækifæri

Peter Hedges, Courtney B. Vance, Julia Roberts og Lucas Hedges …
Peter Hedges, Courtney B. Vance, Julia Roberts og Lucas Hedges á frumsýningu myndarinnar Ben Is Back í New York í byrjun desember síðastliðins. mbl.is/AFP

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Peter Hedges hefur fengið mikið lof fyrir kvikmyndina Ben Is Back. Hollywood Reporter greindi frá því hvernig sagan varð til þess að koma honum aftur á kortið.

Kvikmyndin fjallar um Ben Burns, sem er bæði djúpt sokkinn og hætt kominn vegna eiturlyfjafíknar og glæpa sem hann framdi til að fjármagna fíkn sína áður en honum tókst að rétta sig af á meðferðarstofnun. Myndin hefst á jóladag þegar Ben kemur óvænt heim í jólafrí þar sem meðal annars móðir hans tekur á móti honum. Þótt hún sé auðvitað fegin að það er í lagi með son hennar og að hann sé edrú er hún jafnframt dauðhrædd um að hann falli á ný. Á þann ótta slær ekki þegar hún kemst að því að einn af fyrrverandi dópfélögum Bens telur hann skulda sér peninga sem hann verði að greiða, ef ekki með peningum þá með öðrum hætti.

Hedges ólst sjálfur upp við alkóhólisma og hefur það haft áhrif á lífið hans eins og svo margra annarra aðstandenda. Móðir hans yfirgaf hann þegar hann var sjö ára að aldri vegna sjúkdómsins. Eins missti hann vin sinn Philip Seymour Hoffman vegna eiturlyfjafíknar. 

Handritið lýsir aðstæðum þeirra sem leiðast út í fíkn vel. Það geta fáir sett sig í spor þeirra sem eiga náinn ástvin með þennan sjúkdóm. Í Bandaríkjunum og víðar, hér á landi einnig, er opíóðafaraldurinn að taka mörg líf ungs fólks. 

Foreldrar eru hvattir til að sjá myndina, setningin sem Lucas Hedges fer með í myndinni, þar sem hann lýsir því hvað hann hafi gert sér og öðrum stingur í hjartastað. Sér í lagi þá sem hafa aðstoðað fólk út úr fíkn. En móðir hans gefst ekki upp á honum, enda eru flestir í þeirri stöðu að vilja gera allt hvað þeir geta til að koma börnum sínum í bata.

Julia Roberts er sögð fara með einstakan leik í kvikmyndinni, sem og sonur Hedges, Lucas, sem var tregur að taka þátt í mynd föður síns í upphafi en lét síðan til leiðast og hefur fengið lof fyrir leik sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert