Ómskoðun með snjallsímanum

Flest fólk þarf að bíða eftir tíma hjá lækni til ...
Flest fólk þarf að bíða eftir tíma hjá lækni til þess að komast í ómskoðun. mbl.is/Thinkstockphotos

Bandaríska fyrirtækið Butterfly Networks er búið að framleiða ómskoðunartæki sem hægt er að nota heima fyrir. Tækið, sem kostar 2.000 pund eða rúmlega 240 þúsund íslenskar krónur, er einfaldlega hægt að tengja við snjallsíma og má þannig fá mynd af því sem er að gerast inni í líkama fólks á skjáinn. 

Frumkvöðullinn Jonathan Rothberg er maðurinn á bak við tækið en í viðtali við BBC kemur fram að sjálfur hafi hann verið þreyttur á því að bíða á læknastofum eftir ómskoðun með dóttur sinni sem glímir við nýrnasjúkdóm.

Heilbrigðisstarfsfólk er nú þegar byrjað að nota tækið en Rothberg vonast til þess að selja almenningi slík tæki. Það gæti þvi verið að fólk geti farið að skoða fóstur í móðurkviði heima hjá sér. Sérfræðingur bendir þó á að almenningur hafi ekki sömu þekkingu og læknar. 

„Sýn okkar var ekki bara að efla heilbrigðisstarfsfólk,“ sagði Rothberg. „Við vildum að allir, alls staðar, væru með glugga inn í mannslíkamann.“

Rothberg hefur fulla trú á vörunni og segir þetta hafa sömu áhrif á heilbrigðisvísindi og hlustunarpípan hafði fyrir 200 árum. 

mbl.is