Móðurhlutverkið gerði hana ósigrandi

Kristín Soffía Jónsdóttir og Gestur Pálsson með dótturina Maríu Kristínu.
Kristín Soffía Jónsdóttir og Gestur Pálsson með dótturina Maríu Kristínu.

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi á von á sínu öðru barni ásamt manninum sínum, Gesti Pálssyni. Fyrir á parið dóttur sem er tveggja og hálfs árs en von er á barni númer tvö 18. júlí. Aðspurð að því hvernig meðgangan hafi gengið segir Kristín Soffía að allt hafi gengið vel. 

„Ég er spennt og til í þetta en kvíði samt mögulegu svefnleysi,“ segir hún. Aðspurð um líðan þar sem af er meðgöngu segir hún að hún hafi aðallega fundið fyrir þreytu en annars sé hún hress. 

„Mér finnst gaman að vera ólétt. Ég hlæ meira þegar ég er ólétt.“

Nú varðstu móðir fyrir tveimur og hálfu ári. Hvernig breytti móðurhlutverkið þér?

„Ég er öflugri, get meira og finnst ég stundum ósigrandi. Að verða mamma gaf mér aðgengi að einhverri aukaorku sem ég vissi ekki að ég byggi yfir. Svo er ég bara glaðari, dóttir mín er sjúklega fyndin.“

Hvað hefðir þú vilja vita áður en þú varst móðir?

„Það kom mér á óvart hvað það er mikil vinna og erfitt að vera með ungbarn. Ég var ekki nægilega undir það búin.“

Ertu að gera eitthvað sérstakt til að undirbúa komu barnsins?

„Ég er lítið farin að gera annað en að hlúa að kroppnum og einbeita mér að því að tengja við bumbuna.“

Ertu í meðgöngujóga eða einhverju slíku?

„Ég er sem komið er í minni venjulegu jóga rútínu í World class en mun færa mig til Auðar í Jógasetrinu þegar ég er komin lengra.“

Ertu með æði fyrir einhverri matvöru?

„Nei, bara súkkulaði ef það telst með.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert