Í vandræðum með óþolandi stjúpbarn

Stjúpforeldrar geta verið frábær viðbót fyrir barn á heimilinu ef ...
Stjúpforeldrar geta verið frábær viðbót fyrir barn á heimilinu ef falleg samskipti fá að þróast þeirra á milli. Ljósmynd/Thinkstockpotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona hvað hún eigi að gera. Stjúpsonur hennar sýnir óþolandi hegðun.  

Sæl Elínrós,

Ég er stjúpmóðir tíu ára drengs sem myndi flokkast sem óþolandi. Hann gerir allt til að ná í athygli og vefur foreldrum sínum um fingur sér.

Hann gengur illa um, talar dónalega við alla og gerir allt sem hann á ekki að gera. Hann getur ekki fylgt reglum og ég upplifi að foreldrar hans séu mjög meðvirkir með honum.

Þegar ég ræði þetta við kærastann minn, sem ég elska út af lífinu, þá verður hann gramur. Við getum því aldrei rætt þetta á hreinskilinn hátt. Til þess að það sé ekki styrjöld á milli okkar kærasta míns hef ég meira og meira dregið mig inn í skel. Við erum með stjúpson minn aðra hvora viku og ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég þurfi kvíðastillandi lyf áður en hann kemur til okkar til að deyfa mig.

Hvað get ég gert í þessari aðstöðu og hvernig er hægt að ná árangri í samskiptum við meðvirka foreldra?

Kveðja, H

 

Hæ H.

Takk fyrir að senda á mig bréfið. Ég held að þú sért ekki sú eina sem finnur sig klemmda í svipaðri aðstöðu og því gott að koma þessum málum í loftið. 

Sérfræðingar sem starfa með fólki tengt skilnuðum tala flestir um mikilvægi þess að réttindi barna séu virt. Á vef umboðsmanns barna má finna mikið af upplýsingum um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttur barna er að hinir fullorðnu taki ábyrgð á ákvörðun sinni við að skilja sem dæmi og ali börnin því ekki upp í sektarkennd. Eins eiga öll börn rétt á því að þeim sé kennt það sem þau eiga að kunna miðað við aldur á heimilinu, það ýtir undir sjálfstraust þeirra og getu til að líða vel í lífinu. Skýr mörk og góður rammi í kringum börnin er það sem gefst best. Náin tilfinningaleg tengsl við foreldra og stjúpforeldra er einnig réttur barna.

Staðan sem þið eruð í er flókin. En þið eruð ekki ein um það. Foreldrar stjúpsonar þíns eru vanmáttugir fyrir þeirri staðreynd að honum virðist líða illa. Kannski líður ykkur öllum illa í þessari aðstöðu. 

þegar börn verða það sem þú kallar óþolandi, þá eru vanalega ekki skýr mörk utan um þau, þau fá misvísandi skilaboð og eru að fá að stjórna meira en það sem þau hafa getu til.

Hlutverk þitt sem stjúpforeldri er einnig mikið. Það er eðlilegt að þú finnir til vanmáttar í þessari stöðu, þar sem þú virðist ekki geta gert það sem þig langi fyrir barnið.

Í þinni stöðu myndi ég setja strik í gólfið og gera eitthvað í hlutunum. Ekki leyfa hlutunum að verða verri. Þegar ástandið er svona þá verða allir versta útgáfan af sér eins og þú lýsir svo vel. Það er nær ómögulegt að stjórna meðvirkni annarra. 

Ég vona að þú takir ekki inn lyf við ástandinu, því það mun ekki hjálpa að mínu mati. 

Það að þú hafir val í þeirri stöðu sem þú ert í er alltaf jákvætt. Ef þú velur að vera áfram í þessari fjölskyldu þarftu að finna leið til að vera hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Þú þarft góða ráðgjöf til að komast af stað í þeirri vinnu. Málið er nefnilega að þú hefur alltaf þennan möguleika á að stjórna þér. Að stjórna öðrum er vandasamt verkefni sem sjaldan gefst vel.

Síðan gæti verið góð hugmynd að gera samning við maka þinn. Setjið skýr mörk um samskipti bæði á milli fjölskyldu og innan hennar. Það er alltaf hægt að breyta samningum en að ræða hlutina og setja í samning er gott. 

Ef þú og maki þinn farið í ráðgjöf, lærið að tjá ykkur með sérfræðingi þá getur heilmargt gott gerst. Ég tel að þú verðir að fá að sinna hlutverki þínu sem stjúpforeldri til að fjölskyldan geti verið heilbrigð og góð, en samskipti þín inni á heimilinu þurfa að vera byggð á heiðarleika og fegurð.

Stjúpsonur þinn er einungis 10 ára, en hvað gerist eftir tvö ár eða fjögur ár ef umhverfið breytist ekki? Verður hann unglingur í vanda? Hvert mun það leiða hann?

Börn eru ekki eins sterk og við að takast á við hlutina. En þau eru ansi fljót að læra og ef þið komið þessu í lag sem fyrst þá mun enginn græða jafn mikið á því og barnið sjálft. Ef þú hefur þetta ferðalag verður enginn, fyrir utan foreldrana, jafn nálægt hjarta drengsins og þú. 

Þeir sálfræðingar sem ég mæli með á þessu sviði eru Gunnar Hrafn Birgisson. Hægt er að fá ráðgjöf hjá Stjúptengslum. Guðrún B. Ágústsdóttir er frábær talskona þess að kenna börnum mörk og að segja nei. Hún hefur starfað með börnum í vanda og fjölskyldum þeirra lengi. Hún vinnur í Foreldrahúsi. Fjölmargir sérfræðingar sérhæfa sig í meðvirkni í landinu. Anna Sigríður ráðgjafi hjá Lausninni er æðisleg svo dæmi séu tekin. 

Gangi ykkur sérstaklega vel með þetta verkefni.

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is