Sonurinn opnaði glænýja skúffu í hjartanu

Ævar Þór Benediktsson varð faðir á síðasta ári.
Ævar Þór Benediktsson varð faðir á síðasta ári. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, fór nýlega af stað með fimmta og síðasta lestrarátak sitt. Ævar er sjálfur nýbakaður faðir en hann eignaðist soninn Hjört Forna með konu sinni, Védísi Kjartansdóttur, á síðasta ári.

Það er því kannski við hæfi að Ævar hvetji einmitt foreldra til þess að vera með í lestrarátakinu í ár sem lýkur 1. mars. Eitt foreldri sem tekur þátt verður síðan dregið út, ásamt fimm börnum, og gert að persónu í síðustu bókinni um Bernskubrek Ævars vísindamanns.

Hvernig breyttist lífið þegar sonurinn kom í heiminn? 

„Lífið umbreyttist auðvitað. Maður gerði sér grein fyrir því að eitthvað yrði öðruvísi, en ekkert getur í raun búið mann undir hvað glænýr einstaklingur á heimilinu tekur yfir allt. Að því sögðu, þá tekur hann yfir allt á mjög skemmtilegan og krúttlegan máta. Hjörtur opnaði líka glænýja skúffu í hjartanu á okkur foreldrunum,“ segir Ævar. 

Meðgang­an hef­ur mik­il áhrif á kon­ur lík­am­lega og and­lega, fannst þú ein­hverj­ar breyt­ing­ar á þér á meðgöng­unni?

„Lítið líkamlega, en andlega fann ég að ég var skyndilega orðinn mun viðkvæmari fyrir alls kyns hlutum. Mér fannst til dæmis hver einasta kvikmynd fjalla allt í einu um fjölskyldur og uppeldi.“

Hvernig var að vera á hliðarlín­unni í fæðingu?

„Algjörlega magnað. Védís stóð sig eins og hetja, við hefðum ekki getað verið heppnari með ljósmæður og þegar Hjörtur mætti loks á svæðið vissi maður að nú myndi allt breytast.“

Þú hefur unnið mikið efni fyrir börn, breyttist sýn þín á störf þín einhvern veginn í kjölfar þess að þú eignaðist barn sjálfur?

„Það kæmi mér ekki á óvart ef ungabarn myndi skyndilega skjóta upp sköllóttum kollinum í bók á næstu árum.“

Fyrir utan bækurnar þínar, hvaða bækur bíður þú eftir að lesa og kynna barnið þitt fyrir?

„Ég hlakka til að kynna Hjört fyrir Roald Dahl og Harry Potter. Og ef þær bækur slá ekki í gegn er það í góðu lagi, því þá hlakka ég til að hjálpa honum að leita að hans eigin bókum.“

Feðgarnir Ævar Þór Benediktsson og Hjörtur Forni Ævarsson.
Feðgarnir Ævar Þór Benediktsson og Hjörtur Forni Ævarsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert