5 uppeldisráð Erlu Björnsdóttur

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í betri svefni, en hún rekur fyrirtækið Betri svefn, á fjóra syni ásamt eiginmanni sínum, Hálfdáni Steinþórssyni. Hún gefur lesendum Barnavefjarins 5 uppeldisráð. 

1. Ást og umhyggja

Að sýna ást og umhyggju í orði og verki finnst mér vera algjört lykilatriði. Að börn finni að þau eru elskuð skilyrðislaust alveg sama hvað bjátar á. Gott knús er til dæmis oft besta svarið við óþekkt hjá okkar yngsta sem er 4 ára. Við erum almennt mjög knúsglöð fjölskylda og mér finnst það hafa skilað sér í mikilli hlýju hjá okkar strákum. Mér finnst til dæmis mjög fallegt að sjá hvernig strákarnir passa upp á hver annan, eru duglegir að hjálpast að og þeir eldri leyfa yngri bræðrum sínum að skottast með þeim. Þarna kemur umhyggjan svo sterkt inn og af henni er aldrei of mikið.

2. Agi og endurtekning

Börn þurfa skýran ramma og aga. Það veitir þeim öryggi að vita til hvers er ætlast af þeim og að reglur séu skýrar. Endurtekningin er frábært verkfæri í uppeldinu og er hún mikið notuð á okkar heimili til þess að festa venjur í sessi. Ef eitthvað er gert nógu oft alla daga (bursta tennur, búa um rúm, ganga frá eftir matinn, fara út með hundinn) þá verður það fljótt að venju sem verður fastur liður í rútínu dagsins. Hér finnst mér líka mikilvægt að gefa börnum ábyrgð og ákveðið hlutverk í heimilishaldinu. Mín reynsla er sú að börn vilja taka þátt og geta oft gert svo mikið meira en við gefum þeim kredit fyrir. Við erum fjölskylda og eins og orðið felur í sér eru þar fjölmargar skyldur sem allir þurfa að hjálpast að með.

Erla Björnsdóttir og Hálfdán Steinþórsson með synina fjóra.
Erla Björnsdóttir og Hálfdán Steinþórsson með synina fjóra.

3. Hugrekki og heiðarleiki

Mér finnst mjög mikilvægt að hvetja börnin til þess að vera hugrökk, trúa á sig sjálf og fylgja draumum sínum eftir. Það er fátt skemmtilegra en að láta sig dreyma. Heima hjá okkur erum við með stóran vegg sem heitir draumaveggur fjölskyldunnar. Þar límum við upp myndir, skrifum inn drauma, teiknum upp myndir og gerum þannig draumana okkar sýnilega. Öll getum við sett okkar drauma þarna upp og enginn draumur er of lítill eða of stór. Ég trúi því að allt sem við veitum athygli vaxi og dafni og með því að hafa drauma okkar sýnilega þá fara þeir að rætast.  Heiðarleiki er svo eitt af mikilvægustu gildum fjölskyldunnar og við leggjum mikla áherslu á það við okkar stráka að sýna ávallt heiðarleika. Til dæmis ef einhver gerir eitthvað af sér, skemmir eitthvað eða brýtur einhverjar reglur þá reynum við að hvetja strákana til að sýna hugrekki og  heiðarleika með því að segja satt og þá fá þeir ekki skammir fyrir. 

4. Fagna sigrum

Við leggjum mikla áherslu á að hafa gaman og að gleðjast og fagna saman alltaf þegar vel gengur hjá einhverju okkar. Við höfum reynt að temja okkur það að fagna sem flestum sigrum saman, bæði smáum og stórum. Ef vel gengur á fótboltamóti, í skólanum, í vinnunni hjá okkur eða inni á heimilinu eða í lífinu almennt þá reynum við að gera okkur dagamun og gleðjast saman. Að eiga fjóra stráka getur auðvitað skapað samanburð og samkeppni þeirra á milli og þvi finnst mér algjört lykilatriði að þeir læri að samgleðjast þegar vel gengur hjá öðrum.

5. Ófullkomleikinn er það fullkomna 

Börn þurfa að hafa svigrúm og frelsi til þess að gera mistök. Það má gera mistök og við eigum að gera mistök, það er þannig sem við lærum. Enginn er fullkominn og við foreldrarnir gerum okkar mistök alveg eins og börnin og mér finnst mikilvægt að börnin viti að við erum ófullkomin og við gerum mistök. Það er einnig mikilvægt að staldra við þær kröfur sem við gerum á börnin og okkur sjálf og minna okkur á að ófiullkomleikinn í hversdeginum er eitt það allra fullkomnasta sem til er. Öll erum við með ákveðnar glansmyndir af hinni fullkomnu fjölskyldu en gleymum því kannski að fallegasta myndin er einmitt sú sem er til staðar í hinum ófullkomna hversdagsleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert