5 uppeldisráð Sæunnar Kjartansdóttur

Sæunn Kjartansdóttir er sérfærðingur sem sérhæfir sig í geðtengslum ungra …
Sæunn Kjartansdóttir er sérfærðingur sem sérhæfir sig í geðtengslum ungra barna og foreldra. Hún hefur ritað fjölmargar bækur og gefur lesendum fimm uppeldisráð. mbl.is/Hari

Sæunn Kjartansdóttir er hjúkrunarfræðingur og sálgreinir frá Arbours Association í London. Hún hefur starfað á geðdeildum Landspítala og frá 1992 hefur hún verið sjálfstætt starfandi við einstaklingsmeðferð og faghandleiðslu. Sæunn er höfundur bókanna Hvað gengur fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi (1999), Árin sem enginn man, Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna (2009) og Fyrstu 1000 dagarnir. Barn verður til (2015).

Sæunn er einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna

Hún segir að undanfarin ár hafi verið gerðar margar rannsóknir á heilaþroska og tengslamyndun foreldra og barna sem allar bera að sama brunni: Tengslamyndun hefur áhrif á mótun barnsheilans og börn með örugg tengsl eru betur í stakk búin til að takast á við lífið en jafnaldrar þeirra með óörugg tengsl. Þau hafa jafnframt betri heilsu á fullorðinsárum, líkamlega ekki síður en andlega. Það er því til mikils að vinna. En hvernig byggir maður upp örugg tengsl við barnið sitt? Hér á eftir eru nokkur lykilatriði sem hægt er að nota til hliðsjónar við uppeldi barna. 

1. Dragðu úr streitu barnsins þíns

„Ung börn eru fullkomlega ósjálfbjarga og þarfnast fullorðinnar manneskju, allan sólarhringinn, sem setur sig í spor þeirra og dregur úr vanlíðan þeirra jafnt og þétt. Fyrstu mánuðina sýna börn fyrst og fremst vanlíðan sína með því að gráta sem reynir oft verulega á foreldrana því þeir vita oft ekki hvað amar að. Jafnvel þó að þú skiljir ekki hvað er í gangi skiptir miklu máli að þú nálgist barnið þitt sem hugsandi tilfinningaveru, ekki óþekktaranga, sem þarf nálægð, umönnun og skilning. Þannig nærðu niður streitu barnsins en streitustjórnun er forsenda þess að barn geti síðar meir hugsað og hegðað sér skynsamlega. Eftir því sem barnið eldist verður tjáning þess fjölbreyttari og það getur smátt og smátt fært líðan sína í orð en til þess þarf það þína hjálp.“

Hér er slóð á myndband sem sýnir áhrif streitu á heila barns.

https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/lidan/samskipti-og-tengsl/tengsl-foreldra-og-ungbarna/

2. Hlustaðu á barnið þitt, talaðu við það og settu orð á tilfinningar þess

„Temdu þér frá fyrsta degi að tala við barnið þitt. Horfðu framan í það og vertu vakandi fyrir hvernig það bregst við, stundum þarf það að líta undan og finna þig svo aftur, en slíkar pásur eru barninu ákaflega mikilvægar. Hér er slóð á myndband sem sýnir þetta mikilvæga ferli https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/lidan/samskipti-og-tengsl/tengsl-foreldra-og-ungbarna/

Segðu barninu þínu alltaf hvað þú ætlar að gera áður en þú framkvæmir það, t.d. gefa því að drekka, setja það í bílstól eða klæða það úr fötunum. Þó að það skilji ekki orðin sem þú segir nemur það hljóminn í röddinni þinni á sama tíma og þú tileinkar þér að nálgast það sem hugsandi veru sem þarfnast jafn mikillar virðingar og tillitssemi og fullorðin manneskja.

Þegar barninu þínu líður illa er ómetanlegt að þú hjálpir því til að skilja hvað amar að. Þegar þú orðar líðan þess, til dæmis: „Þú ert reið af því að þú mátt ekki horfa lengur á sjónvarpið,“ eða „Ég held að þú sért leiður af því að pabbi er ekki kominn,” hjálparðu því að skilja sjálft sig og það lærir að greina á milli ólíkra tilfinninga. Það kemst að raun um að vond líðan verður skárri þegar maður getur talað um hana við einhvern sem sýnir henni skilning. Með þessu móti lærir barnið smám saman að þekkja sjálft sig og síðar að skilja annað fólk.

Ef þú temur þér að velta fyrir þér líðan barnsins þíns mun það gera slíkt hið sama. Með tímanum tileinkar það sér að taka eftir hvað er að gerast innra með því, bæði tilfinningum og hugsunum, og við það eflist geta þess til að þola erfiðar tilfinningar og vinna úr þeim á heilbrigðan hátt. Þeir sem hafa skert þol fyrir „neikvæðum“ tilfinningum nota oft skaðlegar aðferðir til að finna ekki fyrir þeim, bæði börn og fullorðnir.“

3. Taktu líðan barnsins þíns alvarlega og hjálpaðu því við hvað sem því finnst erfitt

„Það er dýrmætt að eiga góðar stundir þegar [þið] gerið eitthvað skemmtilegt saman en það er ekki síður mikilvægt að þú hjálpir barninu þínu að leysa vanda sem það ræður ekki við. Vandi ungra barna kann að virðast smávægilegur í augum hinna fullorðnu en það er lykilatriði fyrir barnið að venjast því að þú sért vakandi fyrir líðan þess og aðgengileg/ur og viljug/ur til að hjálpa. Þannig verðurðu „örugg höfn“. Sé þetta venjan eykst innra öryggi barnsins og það mun frekar leita sér hjálpar hjá öðrum þegar það þarf á því að halda og þú ert ekki nálæg/ur. Endurtekin reynsla barnsins af því að einhver sé til staðar fyrir það dregur úr vanmáttarkennd og kvíða en eykur innri ró og sjálfstraust. Fullvissa um að líðan þess skipti aðra máli vinnur gegn streitu barnsins og gerir því kleift að gleyma sér í leik og síðar námi og starfi.“

4. Settu mörk

„Þó að þú takir líðan barnsins þíns alvarlega þýðir það ekki að þú eigir alltaf gera eins og því þóknast. Stundum þarftu að ganga gegn vilja barnsins, sem gerir það reitt og vonsvikið, en ein af skyldum foreldris er að vera fullorðna manneskjan sem setur reglur og mörk. Þannig veitirðu barninu nauðsynlegt öryggi og þjálfar það í að taka mótlæti og tillit til annarra. Oft mun barninu líka það illa og þá þarftu að þola reiði þess og höfnun án þess að svara í sömu mynt. Þess í stað geturðu sagt að þú skiljir að það sé ósátt en engu að síður megi ekki meiða aðra, nú sé háttatími eða að það megi ekki fara út.“

5. Vertu sanngjörn/sanngjarn við sjálfa/n þig

„Tengslamynstur eru ekki greypt í stein heldur geta breyst ævina á enda. Þess vegna er aldrei of seint að nálgast barnið þitt eða unglinginn á nýjan hátt ef þér finnst þess vera þörf. Láttu þig samt ekki dreyma um að verða fullkomið foreldri því það er ekki hægt. Rannsóknir hafa sýnt að í einungis þriðjungi samskipta foreldra og barna er samhljómur á milli þeirra, í þriðjungi tilvika misskilja foreldrar og börn hvort annað eða valda hvort öðru óþægindum og þriðjungur samskipta gengur út á að laga það sem fór úrskeiðis. Síðasti þriðjungurinn er einna mikilvægastur því þannig lærir barnið heilbrigð samskipti: Þau eru ekki einföld en í öruggum tengslum tekst fólk á við það sem veldur vanlíðan jafnt og þétt.

Ef þú hefur áhyggjur af tengslum við barnið þitt geturðu leitað til heilsugæslunnar, annað hvort færðu faglega aðstoð þar eða starfsfólkið vísar þér í viðeigandi úrræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert