Það ætti að vera ólöglegt að kitla börn!

Russell Brand segir að hann myndi kýla hvern þann sem ...
Russell Brand segir að hann myndi kýla hvern þann sem myndi reyna að kitla börnin hans tvö.

Leikarinn Russell Brand myndi kýla hvern þann mann kaldan sem tæki upp á því að kitla börnin hans tvö. Hann segir að enginn myndi vaða undir handakrika eða í maga fullorðinnar manneskju og spyr því af hverju maður ætti að gera slíkt við börn. Þetta kemur fram á vef Mirror

Brand á tvær dætur með eiginkonu sinni Lauru Gallacher. Önnur er tveggja ára og hin er sex mánaða að aldri. 

„Ég er ekki saklaus af þessu sjálfur og skammast mín fyrir að hafa kitlað son vinar míns hér á árum áður. Þegar ég rifja þessi atvik upp langar mig að kýla sjálfan mig í andlitið, sem er einmitt eitthvað sem ég myndi gera ef ég kæmi að fólki að kitla mín börn.

Það má kitla stelpurnar mínar þegar þær eru orðnar nógu gamlar til að samþykkja það að vera kitlaðar, en það væri þá kannski þegar þær ná 35 ára aldri.“

Gamanleikarinn segist fyrirlíta kitl og segir að öll börn eigi skilið sitt eigið persónulega andrými, ró, frið og öryggi. 

„Myndir þú vaða í fullorðna manneskju og kitla hana undir hendurnar eða í magann? Auðvitað ekki!“

Brand hefur ratað í fjölmiðla áður fyrir ummæli sín um börn og barnauppeldi. Hann fékk misgóða dóma fyrir að játa vanmátt sinn í umönnun sinna eigin barna, þegar hann viðurkenndi á dögunum að hann hefði aldrei varið heilum sólahring einn með dætrum sínum. Hann segir sig góðan félagsskap en þegar kemur að bleyjuskiptum og matargjöfum sé ekki hægt að stóla á hann. 

„Eiginkona mín þekkir mig betur en svo að leyfa mér að vera einum með börnunum okkar. Þannig að ég geri bara það sem hún segir, enda er ég ekki góður að halda skipulagi á heimilinu.“

mbl.is