„Það er ekki skylda að eignast börn“

Ingunn Oddsdóttir áttaði sig á því fyrir tíu árum að …
Ingunn Oddsdóttir áttaði sig á því fyrir tíu árum að það væri í lagi að eignast ekki börn. Ljósmynd/Aðsend

Ingunn Oddsdóttir er 33 ára og býr með eiginmanni sínum í Mosfellsbæ. Þau hjónin tóku ákvörðun um að eignast ekki börn en Ingunni hefur aldrei langað til þess að verða móðir. Þrátt fyrir þessa skýru lífssýn setur fólk spurningarmerki við ákvörðun Ingunnar.

„Í langan tíma hélt ég að þetta væri bara eitthvað sem maður gerði, beið eftir móðureðlinu og að ég myndi þroskast frá þessu viðhorfi, svona eins og það vantaði eitthvað í mig. Mig langaði það hins vegar aldrei og ég kveið fyrir því þegar mig færi að langa það. Það eru komin alla vega tíu ár frá því að ég áttaði mig á því að það væri í lagi að vera barnlaus,“ segir Ingunn um þá ákvörðun að eiga ekki börn.

„Ástæðurnar eru margar en koma flestar frá því að mig einfaldlega langar það alls ekki. Ég hef enga löngun til þess að verða ólétt og mig langar alls ekki að verða mamma. Mér finnst dásamlegt þegar fólk í kringum mig eignast börn og ég samgleðst því af öllu hjarta. En ég hef aldrei upplifað þessa löngun og ég þekki ekki þetta klassíska kling þegar fólk sér ungabarn.

Þetta er eitthvað sem ég er handviss um og hef aldrei efast. Hins vegar hef ég margoft haldið að það væri eitthvað að mér, að það vantaði eitthvað í mig, að ég væri köld og vond manneskja fyrir að vilja það ekki. Það er minna um fyrirmyndir í samfélaginu hvað þetta varðar og auðvitað alltaf erfiðara að vera í minnihlutanum.“

Mikilvægt að vera samstíga

Ingunn hefur verið með eiginmanni sínum í tæp fimm ár en þau giftu sig sumarið 2016. Hún segir að þau hafi alltaf verið sammála um að eignast ekki börn og ræddu barneignir fljótlega eftir að þau byrjuðu að hittast.

„Ég get í raun ekki ímyndað mér neitt atriði mikilvægara til þess að vera sammála um. Ef einstaklingur vill ekki eignast barn á ekki að neyða hann til þess og að sama skapi á ekki að taka þá reynslu af neinum sem vill það,“ segir Ingunn.

Þau hjónin eru engu að síður fjölskylda enda bendir Ingunn réttilega á að fjölskylda þarf ekki að innihalda börn. Þau njóta þess að vera tvö saman og stjórna tíma sínum alveg sjálf. Það er ekkert sem stoppar þau að sofa út eða hoppa til útlanda.

„Við getum nánast gert það sem við viljum, og þetta er það sem við viljum,“ segir Ingunn.

Gert ráð fyrir að konur vilji eiga börn

Það er ósjaldan sem málefni tengd barneignum koma upp og þarf Ingunn yfirleitt fyrst og fremst að útskýra að þetta sé val og það sé í lagi að vilja ekki eignast börn. Hún finnur fyrir skilningsleysi í samfélaginu og hjá ákveðnum einstaklingum.

„Mér finnst mikið miðast út frá því að konur eignist börn, ekki einu sinni í samhengi með hvort þær vilji það eða ekki því það er bara gengið út frá því að þær vilji það. Athugasemdir á borð við að allar konur séu fæddar til að verða mæður, að ég sé svo ung og að ég muni skipta um skoðun, að þó að mér þættu börn yfirleitt ekki skemmtileg yrði það öðruvísi þegar það yrði mitt eigið, að ég muni ekki þekkja ást fyrr en ég eignist barn. Flestar þessara athugasemdir ganga út frá því að ég geti ekki vitað sjálf hvað ég vil og að það sem ég á með foreldrum mínum, bróður mínum og manninum mínum eigi ekki að geta verið nóg fyrir mig.

Eins hef ég séð athugasemdir þar sem er ætlast til þess að fólk mæti í vinnu yfir hátíðir því þessi og hinn eigi fjölskyldu sem hann vill vera með. Að ég sé barnlaus virðist stundum þýða að ég sé minna virði en þeir sem eiga börn.“

Ingunn skilur vel að fólk eigi erfitt með að skilja ákvörðunina enda lítið um slíkt í umræðunni enda slíkt lítið í umræðunni. Henni finnst þó umræðan vera oft óvægin og segir fólk komast auðveldlega upp með að sýna þeim litla virðingu sem kjósa ekki að verða foreldrar. 

„Reynslan mín er yfirleitt sú að barnafólk sérstaklega reyni að sannfæra mig um annað, að við hjónin yrðum góðir foreldrar, sem er örugglega satt, og að þetta sé bara það besta í heiminum. Þetta á bæði við um fólk sem ég hef þekkt lengi og fólk sem ég hef kynnst seinna meir. Ég á sem betur fer þó nokkuð af vinum sem eru á sömu skoðun og ég og það er mjög gott að finna stuðning frá þeim. Gott að geta talað við einhvern sem skilur og dæmir ekki og ekki síður gott að vita að ég er ekki ein á þessari skoðun, að ég sé ekki bara eitthvað rugluð.

Það getur verið mjög þreytandi að þurfa að útskýra þetta aftur og aftur þegar maður mætir litlum skilningi. Ég hef sem dæmi eytt miklum tíma í að tala um þetta við fólk sem stendur mér nærri í mikilli einlægni og fengið svo stuttu seinna athugasemdir sem gefa til kynna að viðkomandi hafi annaðhvort ekki verið að hlusta eða þá bara hreinlega að mínar skoðanir séu hundsaðar. Þá er oft hálfgefið í skyn að ég eigi samt að eignast barn því aðrir í kringum mig vilji það, mamma og pabbi þurfa að eignast ömmubarn og þessi og hinn vill að ég skíri barn í höfuðið á sér. Þetta er vissulega oft meint sem grín en er að mínu mati ekkert sérstaklega fyndið, sér í lagi þegar ég þekki viðkomandi ekki vel.

Eins kemur stundum upp að það sé svo mikil synd að ég eignist ekki börn þegar ég get það á meðan annað fólk sem getur ekki átt börn af líffræðilegum ástæðum virkilega vill það. Það er að sjálfsögðu gríðarlega sorglegt þegar fólk vill eignast börn en getur það ekki og ég finn mikið til með þeim sem þurfa að ganga í gegnum líkt. Það er engu síður alls ekki næg ástæða til þess að ég eignist sjálf börn.“

Fólk spyr gjarnan að því hvort ég muni ekki sjá eftir þessu seinna meir. Fólk sem eignast börn sér væntanlega ekki eftir því og það nákvæmlega sama á við um mig. Eins kemur upp umræðan varðandi það hver eigi að hugsa um mig þegar ég verð gömul. Ég er hreinlega ekki farin að hugsa svo langt en veit að það út af fyrir sig er ekki næg ástæða fyrir því að eignast börn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert